0125
Textastíll
Rennsli II
Ekki skrifa: “Fullyrðing Lincolns um, að borgarastríðið væri refsing guðs á suður- og norðurríkjunum fyrir þrælahaldið, kom fram í lok ræðunnar.” Heldur: “Í lok ræðunnar kom fram fullyrðing Lincolns um, að guð hafi með borgarastríði refsað suður- og norðurríkjunum fyrir þrælahaldið.”
Lesandinn vill, að þú notir síðasta hluta málsgreinar til að hjálpa honum að leysa tvíþættan vanda. Annars vegar að útskýra löng hugtök og klausur. Hins vegar að koma að nýjum upplýsingum, einkum ef þær fela í sér tæknihugtök, sem hann þekkir ekki.
Allra síðustu orð málsgreinar eru sérstaklega mikilvæg, hvort sem er í lestri eða upplestri. Raunar finnið þið oft í upplestri, að áherslan kemur á síðustu orð málsgreinar. “Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu, því að þinn er mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.”
Oft er gott að stytta endann. Ekki segja: “Félagslíffræðingar halda fram, að genin stýri félagshegðun okkar á sama hátt og við komum fram í kringumstæðum í daglega lífinu.” Betra er að segja: “Félagslíffræðingar halda fram, að genin stýri félagshegðun okkar.”
Ekki setja veika viðbót aftast: “Rök fyrir tilvist dulskynjunar eru of veik að mestu leyti.” Sterkara er að skrifa: “Að mestu leyti eru rök fyrir tilvist dulskynjunar of veik.” Ekki: “Tölvustörfum fækkar, við skulum muna það.” Heldur: “Við skulum muna, að tölvustörfum fækkar.”
Almennt ber að forðast orðið “það” í upphafi málsgreinar. Betra er að skrifa: “Gott er að sofa út á morgnana,” fremur en að skrifa “Það er gott að sofa út á morgnana.” Í sumum tilvikum má þó nota orðið það til að hjálpa til við að flytja þungann aftar í málsgreinina.
Þannig breytist “Það eru ýmis setningafræðileg hugtök, sem hjálpa þér við stýra því, hvar í setninguna þú setur nýjar upplýsingar.”
Setningin hljóðar þá svona: “Ýmis setningarfræðileg hugtök hjálpa þér við að stýra, hvar í setninguna þú setur nýjar upplýsingar.”
Annað dæmi: “Við þurfum peningastefnu, sem stöðvar sveiflur í gengi, atvinnuleysi og verðbólgu.”
Þessum texta má breyta í: “Það, sem við þurfum er peningastefna, sem stöðvar sveiflur í gengi, atvinnuleysi og verðbólgu.” Slíkar undantekningar framkalla öðru vísi áherslu, en lengja oft textann úr hófi.
Forðastu tvöfalda neitun í niðurlagi málsgreinar. Ekki segja: “Málið er að leggja áherslu á sigra okkar, ekki að magna ósigra okkar.” Betra er: “Málið er að magna ekki ósigra okkar, heldur leggja áherslu á sigra okkar.”
Þú notar enda málsgreinar
1. til að kynna erfið hugtök eða nýjar upplýsingar,
2. til að leggja áherslu á mikilvæg orð,
3. til að kynna tengsli og yfirfærslu í málsgreinar, sem á eftir koma.
Við skulum svo ítreka það, sem komið hefur fram í þessu spjalli:
Lesendur vilja, að málsgreinar byrji með frumlagi, sem sé stutt, skýrt, einfalt, áþreifanlegt og kunnugt. Þeir vilja þar á eftir sjá virkt sagnorð, sem lýsir mikilvægu ferli. Aftast í málsgreinum vilja þeir fá flækjur og nýjar upplýsingar. Og þeir vilja ekki, að valsað sé milli frumlaga, að fókusi sé breytt.
Sagði er besta einkunnarsögnin. Hún er stutt, hlutlaus og ævinlega nákvæm, sagnorð fyrir allar þarfir. Varaðu þig á meintum samheitum. Lýsti yfir, útskýrði, setti fram, upplýsti, minntist. Þessi orð þýða yfirleitt annað en: Sagði.
Hélt áfram, bætti við, ítrekaði, fullyrti, lýsti yfir, kvartaði, varaði við, útskýrði, minntist, spáði, upplýsti. Sum þessara orða gefa í skyn, að farið sé með rétt mál. Þessi orð þurfa að henta aðstæðum, annars notarðu “sagði”.
Ekki skipta á orðinu “sagði” og einhverju þessara orða: Brosti, grét, hló, hvíslaði, urraði. Þú brosir ekki orð, þú segir þau brosandi. Ekki gengur að segja: “Mér þykir vænt um hann, brosti hún.”
Sum orð fara með höfundinn út fyrir það, sem hann ætlaði að segja, og fela í sér gildismat, þar sem það á ekki heima. “Endurbætur” eða “bót” eru slík orð. Þess vegna er ekki langur talað um “siðbót Lúters”, heldur “siðaskipti Lúters”.
Í efnahags- og viðskiptafréttum er mikið talað um endurbætur: “Evrópusambandið hafnaði endurbótum og hélt fast við lágmarkslaun.” Umdeilanlegt er, hvort þar hafi verið um endurbætur að ræða, en almannatenglar vilja oft láta svo líta út.
Gættu þín líka á þessum orðum: Játaði. Skriffinnur. Hreinskilnislega. Fullyrti. Gat. Aðeins: “Flokkurinn kom aðeins þremur mönnum á þing.” “Hann játaði, að fundur hafði verið haldinn.” “Það var gat í fjárlögunum.”
Hægt er að segja um stjórnmálamann að hann sé staðfastur og að hann sé einsýnn. Það er verið að tala um sama eiginleikann, í fyrra skiptið á jákvæðum nótum og í síðara skiptið á neikvæðum.
Rennsli
Saman mynda reglan um sagnorð, reglan um frumlag og reglan um rennsli eins konar samkomulag um, hvernig góður texti eigi að vera.