0132 Greinar 1

0132

Textastíll
Greinar I

Hörð frétt marsérar hratt gegnum hver-gerði-hvað og horfir hvorki til hægri né vinstri, tínir upp nóg af smáatriðum til að gefa lesendum skýra mynd.
Í greinum er fréttaeðlið hins vegar komið niður í annað sæti í forgangsröðinni.

Í stað fréttar eru komin: Mannlegur áhugi, hugarástand, andrúmsloft, tilfinningar, háð, gamansemi. Greinar reyna að færa lesendum gleði og skemmtun til viðbótar við frétt og stundum í staðinn fyrir frétt.

Greinar ná frá uppskriftadálki og Týnda hundi vikunnar til magnaðra fréttaskýringa, sem varpa ljósi á menn og atburði, gefa sjónarhorn, skýra og túlka málefni, skrásetja breytt viðhorf og segja fólki frá fólki.

Þar sem greinar eru ekki eins hlekkjaðar við líðandi stund og fréttirnar eru, hafa blaðamenn yfirleitt betri tíma til þeirra. Þann tíma þarf að nota á agaðan hátt. Sumir nota hann til að hlaða lýsingarorðum og öðrum aðskotaorðum í textann.

Ef þér finnst þrá eftir skrauti vera að koma yfir þig, skaltu leggjast fyrir og bíða eftir, að hún líði hjá. Sterk greinaskrif eru einföld, skýr, skipulögð og laus við erfiðismuni í stílbrögðum, sem dreifa athyglinni frá málsefninu.

Flestar fréttir fylgja föstu formi. Greinar fljóta hins vegar frekar frjálst í forminu. Blaðamaðurinn getur nálgast grein á ýmsan hátt. Það veitir færi á hæfileikum og ímyndunarafli, en felur líka í sér gildrur, einkum í innganginum.

Aldrei er neinn vafi á markmiði fréttar, inngangurinn segir hann. Í greinum er líklegra, að aðalatriðinu sé frestað. Þú þarft ekki að segja allt í tveimur fyrstu málsliðunum. En lesendur þurfa að fá að vita nóg til að nenna að lesa.

Ef þú felur aðalatriðið of langt að baki örsögu, lýsinga og andrúmslofti, pirrar þú lesendur frekar en að freista þeirra. Þeir hætta við að lesa áfram og öll vinna þín er fyrir gýg. Dæmi um upphaf greinar um heimili fyrir þroskahefta:

“Komdu inn, kvöldmaturinn verður til eftir mínútu. Gunna er að elda kvöldmat. Þú getur heyrt í henni í eldhúsinu að tala við Siggu, sem stjórnar. Þetta er rödd Gunnu, hún er að segja Dóru að passa, að engin eggjaskurn fari í skálina.” Geisp

Ferðasögur byrja oft á köflum úr ferðabæklingum: “Mjói vegurinn, sem þræðir til austurs undir Búlandshöfða frá Ólafsvík til Stykkishólms hefur verið kallaður mesta útsýnisleið landsins. Til norðurs velta hvítfextar öldur …”

Þessi saga er full af þvaðri um “útsýnisleið”, “hvítfextar öldur”, “stormskafna eyju”, “harðgerðar jurtir” og “sjaldgæfa fugla”, orð sem sjálfkrafa eru notuð í ferðabæklingum við slík tækifæri.

Einkenni greinar, sem þjáist af vatnsskorti, er oft, að hún byrjar á hinu almenna áður en hún fer í hið sértæka. Betra er að fara hina leiðina, byrja á sértæku og fara þaðan yfir í almennt. Breiður pensill er leiðigjarn í upphafi.

Byrjaðu á örsögu um einstakling eða fjölskyldu, sem segir frá einhverju, sem er áhugavert. Það grípur lesandann og fær hann til að halda áfram og lesa um það, sem er almenns eðlis. Það er fráhrindandi að byrja á fróðlegum vandamálum.

Gott upphaf: “Við byrjum á svipaðri lýsingu tveggja manna með tveggja alda millibili. Annar sagði: “Hann hefur reist ógrynni af skrifstofum og sent þangað fylkingar af embættismönnum til að hrella fólk og éta það út á gaddinn.”

Hinn sagði: “Ríkisstjórnin gerir mig brjálaðan. Eyðublöðin eru svo flókin, að ég þarf að kalla í endurskoðandann á 5000 krónur á tímann og í lögfræðinginn á 11000 krónur á tímann, bara til að fá þýðingu á innihaldinu.”

Í tveimur málsliðum er gefið í skyn, um hvað sagan snúist. Forvitnin er vakin og menn vilja vita, hverjir þessir tveir menn voru, hvernig þetta gerðist og hvers vegna. Frá því er sagt í 8500 orðum, en einhvern veginn verður að fanga lesendur strax.

Fréttasagan byrjar á atburði, greinasagan byrjar á hugmynd. Hún er skoðuð og endurskoðuð. Við vitum ekki alveg, hvert hún leiðir okkur. Hún getur farið inn á óvæntar brautir. Þeir, sem leggja af stað með forskrift, verða oft að rífa hana.

Forskrift hindrar þig á tvennan hátt. Hún takmarkar öflun staðreynda við þau atriði og þær heimildir við það, sem ákveðið var í upphafi, og heldur þér frá betra sjónarhorni. Og þú missir af betri sögu og skekkir því veruleikann.

Hafðu áætlunina lausa í reipunum fyrst. Fyrst verður þú að kasta netinu víða. Þú veist þá ekki, hvaða fjársjóði er að finna. Þegar þú ert kominn með þema í huga, geturðu farið að þrengja efnisöflunina niður í það, sem þú þarft að nota.

Greinar
Í stað fréttar eru komin: Mannlegur áhugi, hugarástand, andrúmsloft, tilfinningar, háð, gamansemi.