Löður á þingi.

Greinar

Vegna fátæktar skemmtideildar sjónvarpsins er tilvalið að nýta betur þingfréttirnar með því að klippa vikuskammt þeirra niður í gamanþátt í stíl Löðurs, sem nýtur einna mestrar hylli sjónvarpsáhorfenda.

Þinglöðurþátt vikunnar mætti til dæmis hefja með þessari kynningu: “Í síðustu viku var lagt fram lagafrumvarp um sölu jarðarinnar Þjóðólfshaga 1 í Holtahreppi og kvartað var yfir aðgerðaleysi í að greiða götu votheysverkunar.

Þar var svarað fyrirspurn um lestur veðurfrétta á metrabylgjum og fluttar tillögur um undirbúning brúa yfir Kúðafljót og Gilsfjörð. Fram kom nefndarálit um yfirráð Íslands á Rockall-svæði og mælt var fyrir frumvarpi um rútubíla.”

Við mál af þessu tagi var alþingi að dunda sér í síðustu viku, meðal annars til að þurfa ekki að taka bráðabirgðalögin um efnahagsmál til umræðu. Þannig líður hver þingvikan af annarri með spjalli um votheysverkun og veðurfréttir.

Þennan biðtíma mátti vel nota til að ræða hinar nýju tillögur að stjórnarskrá. Þær voru lagðar fram með orðalagi frumvarps og í ýmsum liðum gefinn kostur á mismunandi útgáfum, sem auðvelt á að vera að velja um.

Unnt er að halda því fram, að ekkert liggi á að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Meira að segja er hægt að rökstyðja, að þjóðin þurfi alls ekki nýja stjórnarskrá. Hin gamla muni duga hér eftir sem hingað til.

En hitt er svo markleysa, þegar þingmenn fara að fullyrða, að þeir hafi ekki haft tíma til að ræða stjórnarskrána. Þeir hafa haft og hafa enn nógan tíma til slíks. En þeir vilja bara ekki fyrir nokkurn mun ræða hana.

Söltun stjórnarskrárinnar á þessu þingi stafar af skorti á vilja, en ekki af skorti á tíma. Nauðsynlegt er, að kjósendur muni þetta síðar, þegar annað fullyrða þingmenn, sem nú eru að reyna að þegja stjórnarskrána í hel.

Innan um langhunda votheysverkunar og veðurfrétta á alþingi brjótast svo fram bylgjur baktjaldamakks um bráðabirgðalögin. Dæmigert er, að allt fer á hvolf, þegar óbundnir varamenn leysa aðalmenn af hólmi.

Þetta tafl er orðið svo öfugsnúið, að stjórnarandstaðan er að reyna að tefja fyrir þeim örlögum sínum að þurfa að fella bráðabirgðalögin og tókst loks í gærkvöldi að bjarga sér á þurrt land hjásetunnar.

Flækjan hefur aukizt vegna misjafnra hagsmuna einstakra flokka, einstakra kjördæma og einstakra þingmanna af nýskipan kjördæma. Sumir vilja snöggt þingrof til að losna við breytingar og aðrir vilja breytingar fyrir kosningar.

Þess vegna er nóg efni til í framhald kynningarinnar á Löðri alþingis, sem byrjað var á hér að ofan. Það gæti hljóðað svo:

“Bjargar Sigurlaug bráðabirgðalögunum? Semur Eggert um að hleypa Siggeiri aftur inn? Verður mikið fundað í þingflokki Bandalags jafnaðarmanna? Semja Geir og Ólafur Ragnar um fjölgun Reykjavíkurþingmanna fyrir kosningar? Leggur Gunnar fram einkafrumvarp um vísitölu? Leyfir Alexander Birgi Ísleifi að tala? Eða verður að sækja Sverri? Mun Tómas skilja kjördæmastefnu Steingríms? Hættir Garðar að greindarmæla þingflokksbræður? Verður boðið fram fyrir hönd Blöndu? Finnur tölvan reikningsaðferð, sem kemur öllum núverandi þingmönnum aftur inn á þing?

Ruglaður í ríminu? Ekki eftir þennan vikuþátt af Þinglöðri!”

Jónas Kristjánsson

DV