0140
Textastíll
Orðalist greina I
Orðalist:
Þegar orðalist er bætt við sögu, sem er vel smíðuð á annan hátt, getur útkoman orðið frábær. Það hlýtur að vera markmið blaðamannsins. Orðalist byrjar með réttri málfræði, setningarfræði og málvenju.
Sértæk skrif:
Sögusmiður málar þegar hann getur. Hann stingur við fótum, þegar hann er farinn að nota hugsunarlaust orð á borð við: Vandamál, aðstæður, viðbrögð, hagur. Og spyr sjálfan sig, hvort hann geti ekki notað sértækari orð, meira lýsandi.
Þér ber að efast um hvert nafnorð, jafnvel þau, sem við fyrstu sýn virðast vera nógu sértæk. Farþegaskip verður: 200 metra lúxusskip. Viðbrögð verða: Ótti, efi, hatur, áhugi, óbeit. Barátta verður: Stríð, orrusta, bardagi, fætingur.
Sértækar sagnir styrkja textann: “Ímyndaðu þér ekki, að ég sé brjálæðingur, öskraði bæjarstjórinn.” Sögnin að öskra er miklu nákvæmari lýsing á viðburðinum, heldur en sögnin að segja hefði gert.
Margir blaðamenn gera þau mistök að nota veikt, almennt orðaval í staðinn fyrir sterkt og sértækt orðaval. Hinir eru líka til, sem þurfa að draga úr orðavali í sínum texta, af því að þeir taka of sterkt til orða miðað við málsefni.
Orðaníska:
Sögusmiður þarf að vera grimmur, þegar hann sker niður. Sá er ekki nógu grimmur við sjálfan sig, sem lætur frá sér fara feitar, slappar og orðmargar sögur. Menn þurfa að aga sjálfan sig.
Þú verður að efast um klisjur í orðalagi, hreinsa burt flatt orðalag. Þú verður að spyrja, hvort rökfræðin sé í lagi, hvort fullyrðingarnar séu í samræmi við raunveruleikann. Þú verður þó fyrst og fremst að skera niður textann.
Gagnrýni á texta þarf að vera óvægin, hvort sem ritstjóri gagnrýnir blaðamann eða blaðamaður gagnrýnir sjálfan sig. Væg gagnrýni veldur engri þjáningu og leiðir ekki til nauðsynlegra sinnaskipta á stundinni. Ekki bara núna, heldur nú.
Blaðamaður hefur oft notað allt plássið, sem er til ráðstöfunar og hefur samt ekki skilað frá sér nema tveimur þriðju hlutum sögunnar. Hann þarf að skera 1200 orða texta niður í 800 orð. Hann græðir á því pláss og betri texta.
Lýsingar:
Lesandi, sem stendur utan við sögu, er ekki snertur. Höfundurinn tekur hann inn í söguna með því að leyfa honum að ganga með sér um göturnar og hitta eina eða tvær persónur og verða vitni að atburði. Slíkt snertir lesandann.
1. Nákvæmni:
Þegar við lesum, að hattur sé svartur, vitum við nákvæmlega, við hvað er átt. Þegar við lesum, að eigandinn sé örlátur, vitum við ekki nákvæmlega, við hvað er átt. Hvernig örlátur? Fókusinn er skýr í fyrra tilvikinu, þokukenndur í hinu síðara.
Bros getur þýtt hitt og þetta. Við vitum hins vegar nákvæmlega, hvað þýðir samsetningin: “Brosið var frosið í skelfingu.” Miðaldra maður hittir unglingagengi, er hræddur við það og hatar það, en brosir til að reyna að sleppa áfallalaust.
2. Fólk
Lesendur taka fólk fram yfir staði og hluti. Þess vegna setur sögumaður fólk inn í sögunar, hvar sem hann getur gert það sómasamlega.
3. Hreyfing
Lesendur vilja fólk og vilja það helst, þegar það hreyfir sig, gerir eitthvað.
4. Skáldaleyfi
Greinahöfundur getur einstaka sinnum notað skáldaleyfi til að útskýra málsefni fyrir lesendum og endurspegla veruleikann: “Almennt er talið, að kýr muni fljúga áður en lög um heilsugæslu fái stuðning repúblikana.” En skáldaleyfi geta verið hættuleg.
Samræðulist:
Samræðulist felur í sér, að greinahöfundur talar við þig einan sem lesanda og er ekki að flytja ræðu fyrir 90.000 manns. Góður rithöfundur skrifar fyrir einstakling. Hann spyr sig: Mundi ég orða þetta svona í samtali á kaffihúsi.
Hér er ekki verið að leggja til, að talmál verði tekið upp í skrifuðu máli. Við höfum hins vegar gott af því að hafa talmál í huga, þegar við skrifum. Sérstaklega á þetta við um texta, sem lesinn er upp í ljósvakamiðlum.
Ekki vera hræddur við upphrópunarmerki, upphrópanir, eins orðs eða tveggja orða málsgreinar og annað slíkt, sem sums staðar þykir ekki gott á prenti. Þetta getur haft frásagnargildi, en má alls ekki ofnota og alls ekki í fyrirsögnum.
Mikið af þyngslunum, sem hvíla eins og mara á efni dagblaða, eru þar, af því að höfundarnir eru óafvitað að reyna að koma vel fyrir í augum heimildarmanna í stað þess að koma vel fyrir í augum lesenda. Leiðindin verða markmið í sjálfu sér.
Höfundar eru stífir og formlegir, af því að þeir telja, að sérfræðingarnir taki sig ekki alvarlega, ef textinn leiftrar. Þess vegna er skelfilega leiðinlegt að lesa mikinn hluta af texta dagblaða. Höfundar telja ábyrgt að vera leiðinlegir. Þeir eru uppteknir af stöðu sinni í tilverunni.