0311
Nýmiðlun
Fornir fjandvinir
Sumt sameinar hefðbundna fjölmiðla og annað sundrar þeim. Tregða er innan hefðbundinna fjölmiðla, það er prents, ljósvaka og vefs, við því að mæta ögrun nýmiðlunar. Tregða við að taka þátt í samþættingu hennar.
Fyrir aldamót einkenndu blaðamenn sig eftir tegund miðils. Þeir voru dagblaðsmenn, útvarpsmenn, sjónvarpsmenn, tímaritamenn. Þeir fóru að trúa, að þeir væru mismunandi gerðar, hefðu misjöfn lífsviðhorf og litu misjafnt á fréttir.
Blaðamenn tóku betur eftir því, sem sundraði þeim, en því, sem sameinaði þá. Tilkoma margmiðlunar í lok aldarinnar ögraði þessu viðhorfi. Menn fóru að átta sig á því, sem sameinar.
Það eru nálægð, mikilvægi, áhrif, nytsemi og jafnvægi, sem einkenna frétt, burtséð frá miðli. Allir hafa sömu gildi, nákvæmni, sannleika, óhlutdrægni og jafnvægi. Allir eru að reyna að segja fólki frá umheiminum, hvar í miðli sem þeir standa.
Samþætting reiðir sig á þessi sameiginlegu gildi og markmið. En menn þurfa líka að átta sig á muninum. Spyrja: Er formið virkt eða óvirkt? Er formið línulaga eða geta menn rambað? Er textinn hornsteinninn, eða er það vídeó eða einhver blanda af mörgu?
Miðillinn ræður, hvar áherslan hvílir. Menn þurfa að skilja styrk og veikleika hvers miðils til að geta beitt fréttum á sem virkastan hátt. Í heimi samþættingar verðum við að hugsa um hinar margvíslegu leiðir, sem fólk fer til að ná í fréttir.
26. janúar 1990 varð bein útsending sjónvarps að almannaeign. Þá gat fólk séð Persaflóastríðið í beinni útsendingu hjá CNN. Beinar fréttir hafa ögrað hefðbundnum fjölmiðlum og breytt verkaskiptingu fjölmiðla. Komin er veröld 24/7 fréttamiðlunar, símiðlunar.
Dagblöð geta ekki lengur sagt fréttir í hefðbundnum skilningi um það, sem gerðist í gær. Prentmiðlar hafa orðið að endurskilgreina fréttir sínar og leggja meiri áherslu á ítarefni, úttektir, rannsóknir og samhengi. Íslensk dagblöð eru þó enn að segja fréttir frá því í gær.
Eftir 11. september 2001 leitar fólk að nýjustu fréttum á vefnum, leitar í 24/7 sjónvarpi að núinu og nándinni, leitar í dagblöðum að samhengi og smáatriðum. Blaðamenn keppa ekki bara hver við annan, heldur við óhefðbundna miðla, jafnvel við skemmtiþætti.
Oftast er þetta talið vera frétt:
Nýtt:
Flestir telja þetta brýnast. Oft brenna menn sig þó, þegar þeim liggur of mikið á. Með samþættingu er hægt að láta nýjustu fréttir berast til sértækra notenda.
Nálægt:
Öll pólitík er staðbundin. Notendur vilja fréttir af sinni byggð og sínu áhugamáli.
Mikilvægt og áhrifamikið:
Slys og hamfarir, einnig athafnir stjórnvalda, fyrirtækja.
Óvenjulegt og óvænt:
Oft má segja frétt frá óvæntu sjónarhorni.
Áberandi og frægðarlegt:
Sumir eru frægir og verða fréttaefni sem slíkir.
Að þurfa eða vilja:
Blaðamenn reyna að hafa jafnvægi milli þess, sem notendur þurfa að vita, og þess, sem þeir vilja vita. Sjónvarp er oft sakað um að leggja ofuráherslu á hraða, nálægð, frægð og óvenjuleg atriði. Ekki erlent efni, nema það sé stríð.
Vefurinn hefur aukið áhuga fólks á fjarlægum viðburðum með því að auðvelda aðgang að þeim.
Blaðamenn þurfa að verða auðmjúkari, hlusta meira á svör, komast í betra samband við grasrótina.
Ofuráhugi fjölmiðla á baktjaldamakki og hugleiðingum spunakarla dregur úr skilningi fólks á pólitík. Mörg skrif beinast að stuðningshópum og blaðamönnum, en ekki að fólki. Samt er fréttaþörf innherja önnur en fólks. Menn bregðast notendum sínum.
Sprenging í bloggi og vefslóðum fyrir sérhæfða hópa vekur athygli á misræmi þess, sem hefðbundnir fjölmiðlar veita, og þess, sem notendur vilja fá. Margir notendur vilja slagsíðu. Taka þarf tillit til margs konar sjónarmiða. Deilt er um slagsíðu, t.d. í útvarpi.
Repúblikanar vilja nota Fox, demókratar vilja nota CNN. Í slíkum flokkadráttum rýrnar traust fólks á fjölmiðlum almennt. Aðeins 44% Bandaríkjamanna telja fjölmiðla geta flutt áreiðanlegar fréttir. Traust manna á fjölmiðlum er um 55%. Minna hér.
Íslenskir fjölmiðlar hafa jafnan verið dregnir i dilka. Minna þó en áður, einkum um pólitíska dilka. Fjölmiðlar voru um tíma flokkaðir í Baugsmiðla og Björgólfsmiðla. Spenna er milli 365 annars vegar og Morgunblaðsins hins vegar. Rýrir traustið.
Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005