Þjóðin vill ekki 63.

Greinar

Enda þótt mikill meirihluti Íslendinga telji, að jafna beri atkvæðisrétt landsmanna, eru flestir þeirrar skoðunar, að skrefið til jöfnunar, sem nú verður stigið, sé sanngjarn meðalvegur í hagsmunum dreifbýlis og þéttbýlis.

Stjórnarskrárnefnd og formannanefnd þingflokkanna hafa metið þessa stöðu rétt í ýmsum tillögum um minnkun misvægis atkvæðisréttar úr 4,1 í 2,6 eða þar um bil. Þetta er skref, sem þjóðin sættir sig við eins og málin standa.

Skoðanakönnun DV í kjördæmamálinu, sem birt var í gær, bendir til, að af þeim, sem skoðun hafa, séu 46% sammála þessari lausn, 34% vilji ganga lengra til jöfnunar og 20% styttra. Og þessi styrkleikahlutföll eru marktæk.

Í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi er að vísu meirihluti fylgjandi frekari jöfnun. En á móti því vegur landsbyggðin, sem eindregið er andvíg frekari jöfnun en þeirri, sem gert er ráð fyrir, að samkomulag verði um á þingi.

Þetta er stjórnmálalegt mat kjósenda á núverandi stöðu og breytir ekki því, að flestir telja jöfnun atkvæðisréttar vera æskilegt framtíðarmarkmið, þótt þjóðarsátt geti tekizt um aðeins eitt skref að þessu sinni.

Í skoðanakönnun DV um kjördæmamálið í október voru 83% þeirra, sem skoðun höfðu, samþykkir jöfnun atkvæðisréttar og 17% voru henni andvígir. Og nú hefur fundizt leið, sem meirihluti fyrrnefnda hópsins getur sætt sig við.

Í sömu könnun í október kom í ljós, að 86% þeirra, sem skoðun höfðu, voru andvígir fjölgun þingmanna úr 60 og aðeins 14% voru fjölgun fylgjandi. Á þessu atriði málsins voru skoðanir enn eindregnari en á hinu fyrra.

Það kemur svo í ljós í skoðanakönnun DV, er birt var í gær, að Íslendingar halda fast við þá skoðun, að þingmönnum eigi ekki að fjölga, og sætta sig ekki við töluna 63, sem hefur verið ofan á hjá formönnum þingflokka í vetur.

Þótt hinir óákveðnu og þeir, sem ekki vilja svara, séu taldir með, vildu 70% hinna spurðu alls ekki neina fjölgun og aðeins 18% voru fylgjandi þriggja þingmanna fjölgun. Enn meiri fjölgun hafði aðeins stuðning tæpra 4%.

Afar óvenjulegt er í skoðanakönnunum, að einungis tæplega 9% séu óákveðnir eða vilji ekki svara. Þess vegna er ljóst, að landsmenn hafna eindregið eins konar þjóðarsátt, sem feli í sér fjölgun þingmanna upp í 63.

Ef Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra leggur nú fram frumvarp að stjórnarskrá að meðtöldum kosningaákvæðum, sem fela í sér óbreytta þingmannatölu og áðurnefnda jöfnun atkvæðisréttar, er sú tillaga í nánu samræmi við þjóðarvilja.

Í þingmannatölunni hefur formannanefndin því metið þjóðarviljann skakkt. Hún hefur líka sóað vikum og mánuðum í rislágar tilraunir til að tölvukeyra sem flesta núverandi þingmenn inn á þing á ný við hinar breyttu aðstæður.

Þess vegna hurfu þeir frá tiltölulega skynsamlegri og einfaldri hugmynd um 63 þingmenn, er allir væru kjördæmakosnir, yfir í hugmynd um jafnmarga þingmenn, sem kosnir væru á illskiljanlegan og jafnvel óskiljanlegan hátt.

Þetta kalla Íslendingar ekki þjóðarsátt, heldur hrossakaup innan alþingis og hafa á þeim hið sama lága álit og þeir hafa á þingmönnum yfirleitt. Ef þingmenn keyra í gegn töluna 63, breikka þeir gjána milli sín og þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV