Karlaklúbburinn.

Greinar

Frægir eru brezku karlaklúbbarnir, sem eru í röðum við Pall Mall og götu heilags Jakobs í London. Þangað koma heiðursmenn landsins að loknum stuttum athafnadegi, setjast í djúpa stóla og segja hver öðrum nýjustu sögurnar fram að kvöldmat.

Alþingi er sú stofnun á Íslandi, sem helzt minnir á brezkan karlaklúbb. Þar verja menn síðdeginu við kaffidrykkju og góðlátlegt spjall, pönnukökuát og skáktafl, en bridge og barseta hefur ekki haldið innreið sína enn.

Talið er, að þingmenn sinni nokkuð nefndastörfum á morgnana. Af fjölda og innihaldi nefndaálita alþingis verður þó ekki séð, að umtalsverð athafnasemi ríki á því sviði. Líklega er þar einnig meira um kaffi og fréttaflutning.

Meiri annir eru hjá þeim hluta þingmanna, sem stjórna fjármálum þjóðarinnar í gegnum Framkvæmdastofnun, sjóði og banka. Á morgnana þurfa þeir mjög að sinna sérstakri tegund útgerðarmanna, sem gera út á ríkissjóð.

Þingmenn ákveða, hverjir fá lán, hversu mikið og með hvaða vildarkjörum. Þeir ákveða, hvar fyrirtækjum skuli komið fyrir, hvaða fyrirtækjum og hverjir skuli eiga þau. Og auðvitað ákveða þeir líka, hvaða kaup landsmenn fá.

Þetta gera þeir ekki af því að það sé hluti af starfi þingmanna. Þeir hafa bara svo lítið að gera við lagasetningu og eftirlit með framkvæmdavaldi, að þeir hafa nógan tíma aflögu til að stjórna öllu öðru í þjóðfélaginu.

Yfirleitt eru þetta góðir strákar, sem mega ekkert aumt sjá, hvorki bláfátækan uppmælingarmanninn né margrúllaðan flugfélagseigandann. Örlæti þeirra á sér lítil takmörk, enda byggist það ekki á þeirra eigin vasa.

Eftir góðverk dagsins safnast þingmenn saman í klúbbhúsi sínu við Austurvöll. Í kjölfar þeirra koma síðustu útgerðarmenn dagsins, sem enn eiga eftir að bjarga víxlinum eða kísilverksmiðjunni fyrir bankalokun klukkan fjögur.

Við þessar aðstæður skiptir miklu, að þingmenn séu búnir að koma sér upp nokkru safni af gamansögum til að segja klúbbfélögum, svo ekki sé talað um þá sérstöku virðingarmenn, sem enn kunna að skjóta fram dýrt kveðinni stöku.

Settir eru fundir í deildum og sameinuðu þingi. Þar tala þingmenn hver á fætur öðrum, oft fyrir gersamlega auðum sölum, svo sem myndir sanna. Mikla þjálfun þarf til að tala í klukkustund yfir auðum stólum og skjalaþungum borðum.

Á meðan sinna klúbbmenn hinum mikilvægari störfum í hægindastólum hér og þar eða í ágætri kaffistofu. Þar rúlla menn á milli sín sykurverum, steinullarverum, stálverum og saltverum, því að það er gaman að vera ríkur.

Eftir hæfilegan tveggja til þriggja stunda klúbbdag safnast alþingismenn saman í þingflokksherbergjum til að ræða nýjustu brögðin í þráskákinni um meðferð og afgreiðslu mála. Þar eru harðir stólar og lítið kaffi.

Ef til vill eru það ástæðurnar fyrir því, að ráðin, sem verða til í þessum herbergjum, duga oft skammt í þráskákinni. Stundum neyðast menn meira að segja til að sitja hjá um mál, sem þeir hafa lengi sagzt vera eindregið andvígir.

Til að færa andrúmsloftið í kórréttan stíl kæmi til greina að breyta til í klúbbhúsinu og koma þar fyrir bar á einum stað og bridgeherbergi á öðrum. Billjardborð mundi hins vegar ekki hæfa svo virðulegum karlaklúbbi.

Jónas Kristjánsson

DV