Hnútinn má enn leysa.

Greinar

Túlka má fjarskiptalögin frá 1941 svo, að ólöglegt sé að hafa dyrasíma í fjölbýlishúsi og stefnuljós á bifreiðum. Á svipaðan hátt má túlka útvarpslögin frá 1971 svo, að ólöglegt sé að reka eða nota kapalsjónvarp.

Ríkissaksóknari hefur ekki kært almenning fyrir notkun dyrasíma og stefnuljósa, enda eru fjarskiptalögin eitt af ótal dæmum um, að gömul lög eru í rauninni ólög, af því að þau gera ekki ráð fyrir nýjum aðstæðum.

Sagt er, að með lögum skuli land byggja, en með ólögum eyða. Venjulega er málið leyst með þegjandi samkomulagi um að beita ekki úreltum lagaákvæðum, meðan verið er að undirbúa ný lög og ná samkomulagi um orðalag þeirra.

Sérstök nefnd á vegum menntamálaráðherra hefur samið frumvarp að nýjum útvarpslögum, sem gera ráð fyrir auknu frelsi til útvarps og sjónvarps, þar á meðal frelsi til kapalsjónvarps á borð við það, sem rekið er víða um land.

Stjórnmálaflokkarnir eru í stórum dráttum sammála um, að þetta frumvarp sé nothæft, þótt þeir hafi á því misjafnan áhuga. Sjálfstæðisflokkurinn getur fallizt á það, þótt hans frumvarp gangi lengra í frelsisátt.

Menntamálaráðherra hefur gleymt að leggja fram frumvarp sitt, eins og hann gleymir svo mörgu öðru. Ef til vill er það þess vegna, að ríkissaksóknari hefur nú eftir dúk og disk ákveðið að kæra eina af kapalstöðvum landsins.

Í þrjú ár hafa ótal kapalstöðvar verið reknar hér á landi í trausti þess, að í þjóðfélaginu ríkti þegjandi samkomulag um að láta þær afskiptalausar, meðan beðið væri eftir nýjum útvarpslögum, sem næðu einnig yfir þær.

Kæran sýnir, að þegjandi samkomulagið hefur rofnað. Sennilega er það að undirlagi áhrifamanna í Framsóknarflokknum, því að þangað liggja þeir þræðir málsins, sem unnt er að rekja. Af atlögu einokunarsinna er framsóknarlykt.

Ákaflega er einkennilegt að veitast sérstaklega að því kapalsjónvarpi, sem virðir höfundarétt og birtir löglega fengið efni, meðan látnar eru í friði þær stöðvar, sem meira eða minna stela öllu sýningarefninu.

Árangurinn er sá, að stöðvarnar, sem hafa notað löglega fengið efni, hafa hætt rekstri, meðan sjórán hinna heldur áfram. Kæra ríkissaksóknara hefur þannig orðið til að styðja lögleysu á sviði kapalsjónvarps.

Úr því að ríkissaksóknari hefur sýnt meira framtak í kapalsjónvarpi en í dyrasímum og stefnuljósum, ætti næsti leikur að vera hjá alþingi. Þingmenn þurfa að draga útvarpslagafrumvarpið upp úr skúffu menntamálaráðherra.

Lítill tími er til stefnu, þar sem kosningar eru á næsta leiti. Ef alþingi vill ekki telja sig hafa tíma til að afgreiða ný útvarpslög, gæti það, ef það vildi, leikið millileik, er leiði til þess, að kæran verði dregin til baka.

Einföld þingsályktunartillaga eða einnar málsgreinar lagabreyting um viðurkenningu ástandsins og veitingu tveggja ára bráðabirgðaleyfis handa hefðbundnum kapalstöðvum, meðan gengið er frá nýjum útvarpslögum, gæti leyst hnútinn, sem skyndilega hefur verið reyrður.

Jónas Kristjánsson

DV