Sanngirni í garð aldraðra.

Greinar

Eftirágreiðsla skatta veldur fólki afar miklum erfiðleikum, ef það vill eða verður að draga saman segl tekjuöflunar. Þyngst lendir þetta á fólki, sem er að ljúka starfsævinni. Það á hreinlega ekki fyrir sköttum fyrsta eftirlaunaárið.

Mörg dæmi eru um, að aldraðir hafi slitið sér út við vinnu löngu eftir að eðlilegum starfstíma er lokið. Önnur dæmi eru um, að þeir hafi orðið að selja húsnæði sitt til að hafa ráð á að setjast í helgan stein.

Albert Guðmundsson alþingismaður hefur ásamt þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram frumvarp um að brúa þetta bil, meðan staðgreiðslukerfi skatta hefur ekki verið tekið upp. Samkvæmt frumvarpinu fá aldraðir helmings skattaafslátt í eitt ár.

Ef frumvarp Alberts og félaga verður að lögum, geta menn setzt í helgan stein á eftirlaunaaldri án þess að sæta röskuninni, sem felst í greiðslu fullra skatta af skertum tekjum. Þetta er augljóst sanngirnis- og réttlætismál.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að þeir, sem vilja vinna lengur, geti frestað skattaafsláttarárinu fram að þeim tíma, er þeir kjósa að setjast í helgan stein. Þetta valfrelsi skapar heilsugóðu fólki eðlilegt svigrúm.

Fyrir löngu er orðið tímabært að leysa þennan vanda. Ekki ætti að þurfa um það langar umræður á alþingi. Þótt skammt sé til þingslita, á að vera nægilegt svigrúm til að samþykkja svona einfalt mál, svo sem mælt hefur verið með af hálfu fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV