0403 Starfsumsóknin

0403

Fréttamennska
Starfsumsóknin

Blaðamennska er lykill að margs konar störfum innan og utan fjölmiðlunar. En puð er óhjákvæmilegt. Bradlee sagði við byrjendur: “Vertu duglegri en hinir.” Deborah Howell bætti við: “En hafðu gaman af því og vertu góður drengur.”

Fréttamennska er spennandi, litrík og gefandi. Alltaf er pláss fyrir vinnufíkla, sem vilja “meika það”. Til að vera í þeim hópi, þarftu að vera vinnufíkill og ákveðinn. Frank Graham: Blaðamennska drepur þig, en hún heldur þér á lífi á meðan.

Internetið hefur þegar haft mikil áhrif á fréttir, auk þess sem notkun þess hefur dregið úr sjónvarpsáhorfi. Allir, sem áður elskuðu rabbþætti, hafa fengið nýja leið til að tala saman. Þarna eru atvinnutækifæri blaðamanna.

Það eina, sem vitað er um nýja tækni, er, að hún breytist ört, örar en geta manna til að fylgjast með. Fréttamenn þurfa nú að ganga frá efni sínu ekki bara fyrir loftið, heldur líka fyrir netið og fyrir aðra fjölmiðla í eigu sömu aðila.

Samþætting heitir þetta, “convergence”. Í auknum mæli er ætlast til þess, að fréttamenn verði eins manns herdeildir, þar sem einn og sami maður safnar fréttum, myndar þær og skrifar og ritstýrir efninu í pakka. Hver fjölmiðill þarf sína tegund texta.

Ef þér er sama, hvert á land þú ferð til að vinna, hefurðu góðar líkur á að fá vinnu í fréttamennsku. Best er að byrja með starfsþjálfun í tengslum við háskóla eða fyrirtæki, til dæmis í þeirri borg, þar sem þú getur hugsað þér að starfa.

Yfirmenn ritstjórna vilja gjarna ráða fólk, sem vill vera til frambúðar, því að mikið los er á starfskröftum í fréttamennsku. Láttu þá vita, að þú hafir í huga að staldra við. Er starf losnar, muna menn eftir þeim, sem var í starfsþjálfun.

Framvegis verða einkum ráðnir blaðamenn, sem kunna við sig á ýmsum tegundum fjölmiðla. Þetta er góður tími fyrir blaðamenn, margir miðlar og margs konar tækifæri.

Sex af tíu blaðamönnum vinna á prentmiðlum, þrír af tíu í útvarpi og sjónvarpi og einn af tíu á tímaritum og fréttaþjónstum. Menn munu skipta um vinnu fimm-sjö sinnum á ævinni. Brottfallið hefur hækkað úr 13% í 18% í Bandaríkjunum.

Blaðamenn eru menntaðri en áður og koma í vaxandi mæli úr fleiri greinum en námi í blaðamennsku. Laun þeirra hafa batnað verulega, en eru þó enn tiltölulega lág. En fólk fer í þessa vinnu af áhuga, ekki vegna launanna.

Ef menn vilja byrja á stærri fjölmiðlum, þurfa þeir stundum að byrja sem skrifstofumenn eða aðstoðarmenn. Það getur tekið mánuði að klifra upp úr slíkum störfum. Nýliðar eru sjaldan ráðnir fréttamenn beint af götunni.

Flestir fagmenn mæla með því að byrja á litlum ritstjórnum, þar sem menn þurfa að gera alla hluti og sérhæfast síður. Með því að byrja á slíkum stöðum má segja, að námið í blaðamennsku framlengist í starfinu, meðan menn safna í ferilskrána.

Í Bandaríkjunum gera nýliðar myndbönd til að kynna sig og hæfileika sína, þar sem þeir koma fram sem fréttamenn og akkeri og ritstýra efninu í pakka. Mikilvægt er, að vandað sé til þessara umsóknarpakka.

Í ferilskránni er best að starfsreynsla komi ofar en skólagráður. Stjórar hafa meiri áhuga á fyrri störfum en prófum eða áformum. Ekki byrja á framtíðaráformum. Fyrst fyrri störf, síðan menntun, tækniþekking og loks hugleiðingar um framtíð.

Listi yfir meðmælendur skiptir máli, en spurðu viðkomandi aðila leyfis, áður en þú notar nöfn þeirra.
Umsókn fylgir oftast fylgibréf. Það er aðeins fjórir málsliðir, sem er það lengsta, er yfirmaður á ritstjórn nennir að lesa.

Kynntu þér vel fjölmiðilinn og markhóp hans áður en þú sækir um vinnu. Ef stjórinn telur, að þú hafir þekkingu og áhuga á að kynna þér mál, eru meiri líkur á, að þú fáir starf. Sumir fjölmiðlar nota skrifleg próf.

Í starfsviðtali skaltu ekki leggja áherslu á laun og aðra hagsmuni þína. Þú nærð betri áhrifum með því að spyrja gáfulega um meðferð frétta hjá ritstjórninni. Ekki flagga eigin áliti, nema aðspurður. Talaðu ekki um laun að fyrra bragði.

Umsækjendur eru tíu um hvert eitt starf við fréttamennsku í Bandaríkjunum. Starfsmannastjóri fréttastofa á sjónvarpi fær 60 umsóknir um hvert starf. Hvers vegna vilja allir fá vinnu í fréttum í sjónvarpi?

Það er svo spennandi. Að degi loknum safnast starfsfélagar saman yfir kaffi eða bjór til að fara yfir daginn og spá í framtíðina. Þetta er starfsvettvangur, þar sem fólk tekur ástfóstri við starfið. Þetta er aðdráttarafl starfsins.

Ágengni: Blaðamaður þarf að vera ákveðinn, (jafningi viðmælandans), þolgóður, (tekur ekki höfnun gilda, tekur ekki höfnun inn á sig), ágengur (samt ekki ruddalegur). Blaðamaður þarf að víkka svigrúm hins mögulega í starfinu.

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006