DV er að ná Morgunblaðinu.

Greinar

Eftir áratuga útbreiðsluyfirburði Morgunblaðsins meðal dagblaða er nú loksins kominn keppinautur á hæla þess. Það er DV, sem vantar aðeins 5-6 prósentustig í að vera jafnmikið lesið og Morgunblaðið, virka daga og helga.

Samkvæmt fjölmiðlakönnun Hagvangs fyrir samtök auglýsingastofa, sem birt var á laugardag, er Morgunblaðið lesið af 69,83% þjóðarinnar og DV af 64,17% virka daga, Morgunblaðið af 73,71% og DV af 68,36% í helgarútgáfum.

Í könnuninni var ekki sérstaklega athugaður lestur mánudagsblaðs DV, sem prentað er í 8% stærra upplagi en aðra daga. Hún upplýsir því ekki, hvaða dagblað nær lestrarhæsta tölublaði vikunnar, Morgunblaðið eða DV.

Niðurstaða þessi stafar ekki af rýrnandi lestri Morgunblaðsins, sem heldur stöðu sinni frá fyrri fjölmiðlakönnunum. Hún stafar af sameiningu Dagblaðsins og Vísis í eitt blað, sem getur veitt harða samkeppni.

Samkvæmt könnuninni eru 46,3% áskrifenda DV ekki áskrifendur að Morgunblaðinu og 58,6% áskrifenda Morgunblaðsins ekki áskrifendur að DV. Þessar háu tölur benda til, að töluverður munur sé á lesendahópum blaðanna.

Í grófum dráttum má lesa úr könnuninni, að skipta megi þjóðinni í þrjá stóra hluta, en ekki alveg jafnstóra. Þriðjungur les bæði blöðin, annar þriðjungur les Morgunblaðið eingöngu og enn annar þriðjungur les DV eingöngu.

Athyglisverð er greining könnunarinnar á lestri eftir aldursflokkum, atvinnustéttum og búsetu. Þar koma fram ýmsar sveiflur, sem ekki koma í ljós í niðurstöðutölunum sjálfum, en segja ítarlegri sögu af raunveruleikanum.

Morgunblaðið er hlutfallslega meira lesið af fólki, sem komið er yfir fimmtugt, af opinberum starfsmönnum og af íbúum Reykjavíkursvæðisins. Á þessum þremur sviðum er munur blaðanna nokkru meiri en meðallagstölurnar sýna.

DV fær hins vegar hærri lestrartölur en Morgunblaðið hjá fólki á 20-34 ára aldri, hjá starfsfólki í sjávarútvegi og landbúnaði og hjá fólki, sem býr utan Reykjavíkursvæðisins. Á þessum þremur sviðum er DV hæst, bæði virka daga og um helgar.

Upplýsingar af þessu tagi koma auglýsendum og auglýsingastofum að gagni. Til dæmis er ljóst, að fólk, sem er yfir 50 ára, kaupir sumpart aðrar vörur en það fólk, sem er 20-34 ára, nýbúið að stofna heimili.

Meðan eldri hópurinn kaupir skrautmuni, dýra bíla og hús, kaupir yngri hópurinn tízkuvörur, húsbúnað, heimilistæki, ódýra bíla og íbúðir og sækir skemmtistaði. Hvor hópurinn um sig hefur sitt uppáhaldsdagblað.

Útbreiðslusamkeppni þessi nær ekki til annarra blaða. Tíminn er samkvæmt könnuninni lesinn af 32,28% þjóðarinnar um helgar og af 29,03% virka daga. Helgarpósturinn er lesinn af 29,69% þjóðarinnar. Þetta eru hálfdrættingarnir.

Neðar eru svo Þjóðviljinn með 19,99% um helgar og 16,26% virka daga og Alþýðublaðið með 3,7% lestur. Þessi tvö blöð eru á enn hraðara undanhaldi en Tíminn og Helgarpósturinn, sem einnig hafa tapað frá fyrri könnunum.

Sérstaklega er þó athyglisvert, að sjónvarpið er einnig á undanhaldi. Á fréttir þess horfa að meðaltali nokkru færri en lesa Morgunblaðið og DV og aðeins tæplega þriðjungur þjóðarinnar horfir þar á auglýsingarnar.

Jónas Kristjánsson.

DV