0409
Fréttamennska
Sannreynsla
Það er verklagsregla sannreynslu, sem skilur blaðamensku frá skemmtun, áróðri, skáldskap og list. Blaðamennskan ein setur fókus sinn á sannleikann. Það er sannreynsla ein, sem getur varið blaðamennsku fyrir fullyrðingastefnu nútímans.
Það sannar ekki rétta frásögn, að heimildar sé getið með nafni. Nafnbirting segir aðeins, að það sé satt, að viðkomandi aðili hafi sagt þetta. Þetta er aðeins fyrsta skrefið í átt til sannleikans. Blaðamaðurinn þarf síðan að staðfesta.
Edward Koch borgarstjóri tapaði veðmáli við Dianne Feinstein og varð að láta senda eftir pastrami í Second Avenue Deli að sögn New York Times eða í Carnegie Deli að sögn Washington Post. Vont er að fara ekki rétt með svo mikilvægt mál.
George W. Bush sagðist afnema “dauðaskattinn”, sérstakan fasteignaskatt, sem hann sagði setja bændur á höfuðið. David Cay Johnston hjá New York Times kannaði málið og fann út, að alls enginn bóndi hefði farið á hausinn út af “dauðaskattinum”.
Johnson segir, að það skipti ekki máli, hvað stjórnmálamenn segja. Blaðamenn eigi að skoða, hvað þeir gera. Með því að kanna gerðir stjórnmálamanna sé hægt að búa til fréttir á þann hátt, að lesendur geti dregið ályktanir af þeim.
Blaðamaður getur ekki ábyrgst ýmsar fullyrðingar í pólitík. Hann getur hins vegar sagt, hvað ýmsir stjórnmálamenn segja um málið frá ýmsum hliðum og leyft lesanda, hlustanda eða áhorfanda að skera úr um málið. Það er alger lágmarkskrafa.
Þegar blaðamaður gefur ýmsum aðilum kost á að tjá sig um ágreiningsefni og þegar hann gefur manni, sem situr undir sökum, tækifæri til að verja sig, er hann aðeins að setja jafnvægi í fréttina, hann er ekki að sannreyna málið.
Trent Lott öldungadeildarmaður sagði, að enginn demókrati hefði stutt heimild fyrir Bush eldri til að ráðast á Írak 1991. David E. Rosenbaum hjá New York Times kannaði og skrifaði, að 86 demókratar í fulltrúadeildinni höfðu raunar stutt það.
Bandaríska sendiráðið í Kambódíu sagði, að lítill skaði hefði orðið í loftárás á þorpið Neak Luong. Sidney H. Schanberg hjá New York Times, vildi sjá þetta sjálfur, slapp undan hindrunum, fór á staðinn og komst að raun um stærð málsins.
Í síðara Íraksstríðinu hefur bandaríski herinn aðeins leyft blaðamönnum að fara með herflokkum sem hluti þeirra. Þeir hafa ekki getað valsað um á eigin spýtur. Raunin varð sú, að þeir höfðu ekki úr neinu að spila nema fréttatilkynningum.
Svaraðu öllum spurningum. Ekki skrifa: “Hitinn náði staðarmeti á hádegi í gær.” Heldur skrifa: “Hitinn komst upp í 27 gráður á hádegi í gær. Það er tveimur gráðum hærra en fyrra staðarhámark. Þá var það 25 gráður, 17. ágúst 1999.”
Ekki skrifa: “Þegar hún var í menntaskóla, setti hún met í 100 og 200 metrum.” Heldur svona: “Met hennar, 11,2 í 100 metrum og 22,03 í 200 metrum, standa sem skólamet enn þann dag í dag.
Ekki skrifa “Hann sagði, að rappstjörnur nútímans mundu hitta stjörnur fortíðarinnar í ruslatunnum gleymdra hljómsveita.” Heldur skrifa: “Hver man “Four Hot Dogs” núna. Eða “The Malignants?”
Walter Andersen hjá Parade lýsti viðmælanda sínum sem fimm barna ógiftri móður. Tveimur áratugum síðar segir hann þetta hafa verið mistök: “Greinin var rétt, en ekki sanngjörn. Ég hafði réttar staðreyndir, en hafði ekki á réttu að standa.
Til að saga veki áhuga fólks, þarf blaðamaðurinn að finna fólkið í sögunni og láta það koma fram og segja söguna. Mannlegi þátturinn, “human interest” er nauðsynlegur þáttur frétta. Lokun verksmiðju er einkum mannlegur harmleikur.
Robert Louis Stevenson: “Það er bara til ein listgrein, að sleppa. Ó, ef ég kynni að sleppa, mundi ég ekki biðja um aðra hæfni. Maður, sem kann að sleppa, hann getur búið til Íliónskviðu úr dagblaðinu.”
Joseph G. Herzberg: “Blaðaútgáfa felst í að vita, hverju á að sleppa og að stytta hitt.” Lausnin milli þess, að vera stuttorður, en segja samt allt sem skiptir máli, er að velja. Sumar sögur kalla þó á bakgrunn, sem taka tíma og pláss.
Walter Lippmann: “Þegar fréttir dagsins koma inn á ritstjórn, eru þær ótrúleg blanda af staðreyndum, áróðri, slúðri, grun, sönnunargögnum, von og ótta. Það er heilagt verkefni að velja það og skipuleggja til birtingar í lýðræðissamfélagi.”
Saga eða frétt blaðamannsins er:
1. Nákvæm
2. Tilvitnuð
3. Sannreynd
4. Fullnægjandi
5. Sanngjörn
6. Í jafnvægi
7. Hlutlæg
8. Stutt
9. Skýr
10. Mannleg
11. Ábyrg
12. Vel skrifuð
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006