0411 Frávik er frétt

0411

Fréttamennska
Frávik er frétt

Áður var einfaldara að skilgreina fréttir. Þær fjölluðu þá um atburði. Fréttir voru bílslys, aflabrögð, eldsvoðar, blaðamannafundir, ræður, andlát. Þetta er það, sem nú á dögum eru kallaðar harðar fréttir.

Nú er málið flóknara. Til sögunnar hafa komið linar fréttir, sem sumar fjalla um breytingar eða ferli í samfélaginu, bakgrunn upplýsinga eða túlkun þeirra, ýmsar flækjur í stjórnsýslunni, breytt mynstur í lífi fólks, menntun og tryggingar.

Fólk í nútímanum vill styttra efni og minna af “vondum” fréttum. USA Today hafði forustu í litskrúðugri og bjartsýnni blaðamennsku. Aðrir fjölmiðlar hafa fylgt í kjölfarið. Læsi fólks hefur minnkað og notkunartölur hefðbundinna miðla hafa lækkað.

Ekki dugir lengur fyrir fjölmiðla að fylgjast með pólitíkinni. Fjölmiðlar eru fullir af efni um allar hliðar nútímans, þar á meðal um tísku, foreldrahlutverk, kvikmyndir og tónlist, hvernig fólki geti lifað lífinu í nútímanum.

Gildin, sem ákveða fréttnæmi:
1. Mikilvægi. (Flestar sögur)
2. Tímasetning.
3. Frægð málsaðila.
4. Nálægð við lesendur.
5. Spenna.
6. Tímabært mál.
7. Nauðsyn krefst birtingar.

Þegar blaðamaður er orðinn þjálfaður, hefur hann þessi atriði á tilfinningunni. Þjálfaðir blaðamenn þurfa ekki að fletta reglum eða kennslubókum til að átta sig á fréttagildi. Heilastormun er heppileg aðferð við að afla hugmynda um fréttir.

Við vitum, að sumt dregur áhuga að fjölmiðli. Veðrið er sígilt umræðuefni. Útvarpið lætur okkur hafa veðurfréttir á tíu mínútna fresti og dagblöðin leggja heila síðu undir veðurfréttir og veðurspá.

Við vitum ýmislegt um markhópa. Við vitum, að karlmenn undir 40 ára aldri eru markhópur íþróttafrétta. Við vitum, að helmingur þeirra, sem eru á bilinu 18-34 ára, fá fréttir sínar af netinu og að þeir vilja fá þér þéttar og stuttar.

Thomas Griffith: “Blaðamennska er sagnfræði á hlaupum, svo tímabundin sagnfræði, að hægt er að taka þátt í henni, ekki bara skrifa hana, heldur hafa áhrif í leiðinni. Blaðamennska er sagnfræði, áður en allar staðreyndir eru komnar í hús.

Júlíus Caesar áttaði sig á, að Rómverjar þurftu daglegar fréttir af opinberum ákvörðunum, Acta Diurna. T’ang keisaraættin í Kína, 618-906, gaf út fréttablað til embættismanna, handritað og prentað, til að segja þeim frá ákvörðunum.

Fyrirrennarar dagblaða voru handskrifuð fréttablöð með pólitískum og viðskiptalegum fréttum handa kaupsýslumönnum, gefin út í ýmsum borgum Evrópu á fyrri hluta 16. aldar, áður en prentvél Gutenberg kom til sögunnar.

Á 19. öld hafði prenttækni fleygt fram og dagblöð náðu til mikils fjölda fólks með lækkuðu verði og æsifréttum. Penníblöðin komu til sögunnar upp úr 1830 og þá var farið að skilgreina fréttir á svipaðan hátt og nú á tímum.

Joseph Pulitzer átti dagblöð í St.Louis og New York, sem gáfu lesendum það, sem talið var að þeir vildu fá, æsifréttir og greinar. Þeim var einnig beitt gegn einokunarmyndun stórra fyrirtækja. Pulitzer mælti fyrir, sem hér segir:

“Berjist alltaf fyrir framförum og endurbótum, þolið aldrei rangindi eða spillingu, berjist alltaf gegn lýðskrumurum, tilheyrið aldrei neinum flokki, verið alltaf á móti forréttindastéttum og þjófum í stétt embættismanna.

Látið aldrei skorta samúð með hinum fátæku, verið alltaf fylgjandi velferð fólks, sættið ykkur aldrei við að prenta bara fréttir, verið alltaf róttækt sjálfstæðir, verið aldrei hræddir við að ráðast gegn rangindum auðstéttanna.”

Nú á tímum er efni blaða svipað og hjá Pulitzer, blanda af upplýsingum, skemmtun og almannaþjónustu. Mikill hluti upplýsinganna fjallaði um sex, peninga og glæpi, rétt eins og Acta Diurna fyrir 2000 árum, sem líka var með glæpi og æsifréttir.

Av Westin hjá ABC sagði, að fólk vildi einkum vita, hvort heimurinn væri öruggur, hvort heimili þess og fjölskylda væru örugg, hvort eitthvað hafi gerst síðustu 24 tímana, sem breyti því. Hvort veski fólks sé öruggt.

Upp úr 1990 fór að koma meira af efni, sem talið var lesendavænt, leiðbeiningar um megrun, barnauppeldi, fjárfestingar almennings. Þetta var gert til að færa fjölmiðlana nær miðstéttunum, sem voru orðnar helsti markhópur auglýsenda.

Hvert sem efnið var, þá var skilgreiningin óbreytt: Frétt er upplýsing um frávik frá eðlilegum gangi tilverunnar, truflun á væntingum. Frétt er upplýsing, sem fólk getur notað til að taka skynsamlegar ákvarðanir um líf sitt og tilveru.

Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006