Höfðingi er að hætta.

Greinar

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra hefur á þessu kjörtímabili borið höfuð og herðar yfir aðra þingmenn. Þar hefur margt farið saman, reynsla, ræðusnilld, æðruleysi og taflfléttulist, sem aðra stjórnmálamenn skortir.

Það er í samræmi við aðra skynsemi Gunnars, að hann hefur nú ákveðið að verða við óskum fjölskyldu sinnar og eigin vilja, – að hætta leik, þá hæst fram fer. Hann gefur ekki kost á endurkjöri til alþingis í næstu kosningum.

Gunnar er orðinn 72 ára og hefur setið 43 þing. Hann hefur því unnið fyrir hvíld frá amstri hversdagsins, þótt í raun sé hann hressari og skjótráðari en margir þeir þingmenn, sem sækjast eftir nýju umboði kjósenda.

Með því að draga sig í hlé stuðlar Gunnar að friði í flokki sínum. Til langs tíma litið er það meira virði en skammtímaáhyggjur sumra stuðningsmanna hans af því, sem þeir kalla vaxandi þröngsýni og flokksræði í flokknum.

Skoðanabræðrum Gunnars og þeim, sem vildu draga úr ofsafenginni andstöðu gegn honum, hefur vegnað vel í prófkjörum flokksins. Stuðningur við hann eða hlutleysi gagnvart honum hefur ekki orðið mönnum að fótakefli í prófkjörunum.

Gunnar hefur því ágæta aðstöðu til að draga sig í hlé og ljúka ferli sínum með því að sigla stjórnarskútunni fram hjá næstu skerjum, meðan nýtt þing nær meirihlutasamkomulagi um nýjan skipstjóra og nýja áhöfn.

Hinu er ekki að leyna, að alþingi verður smærra við brottför Gunnars. Þar verða að vísu eftir nokkrir góðir fagmenn, en fáir skörungar. Meðalmennskan verður meira áberandi, nema nýrri þingmenn megni að fylla skörðin.

Ekki bætir úr skák, að ýmsir forustumenn á þingi hafa færzt niður á listum eða eru af öðrum ástæðum taldir standa tæpt í kosningunum. Því gæti reynsluhrunið orðið mun meira en vegna fráhvarfs Gunnars eins.

Reynslan hefur samt ekki komið mörgum þingmönnum að nægu gagni. Hvað eftir annað hafa ráðamenn þar klúðrað málum sínum með því að einblína á slagsmál dagsins í stað þess að líta víðar og hugsa í mánuðum og árum.

Ráðumenn flokkanna á þingi mættu temja sér rósemi og æðruleysi Gunnars og átta sig á, að ósigur í einni orrustu er oft nauðsynlegur til að styrjöldin vinnist. Þar skilur á milli meðalmenna og stjórnvitringa.

Ráðamenn flokkanna á þingi mættu einnig temja sér kurteisa ræðusnilld Gunnars og átta sig á, að pólitískar ræður innan þings og utan eru annað en þras og illindi á málfundum í skólum. Þar skilur á milli meðalmenna og ræðuskörunga.

Margir eru þeir, sem efast um einlægni Gunnars og telja hann kaldrifjaðan eiginhyggjumann. Hinir sömu efast um árangur hans í starfi forsætisráðherra og telja ríkisstjórn hans vera með hinum verstu í manna minnum.

En hvar eru arftakarnir? Hvar eru mennirnir, sem kunna að tala við fólk, svo að það treystir þeim? Hvar eru mennirnir, sem lyfta sér yfir smásmugulegt dægurþras og tala eins og sönnum landsfeðrum sæmir?

Það verður verkefni þeirra þingmanna, sem endurkjörnir verða, og hinna, sem nýir bætast við, að endurreisa virðingu alþingis, meðal annars með því að rækta þar fagmennsku, ræðusnilld, æðruleysi og taflfléttulist stjórnskörunganna.

Jónas Kristjánsson

DV