0418
Fréttamennska
Inngangurinn II
Sumir blaðamenn spyrja sig fimm spurninga í leitinni að heppilegum inngangi:
1) Hvað var einstætt eða mikilvægast eða óvenjulegt í atburðinum?
2) Hverjir voru viðriðnir málið, hver gerði það eða sagði það?
3) Er beinn eða frestaður inngangur bestur, fer þemað í fyrstu málsgreinina?
4) Má vefja litríku orði eða dramatísku orðavali í innganginn?
5) Hvert er frumlagið og hvaða sagnorð keyrir lesandann inn í söguna.
Beinn inngangur felur venjulega í sér:
1. Sérstaka upplýsingu um, hvað gerðist eða hvað var sagt.
2. Hvenær það gerðist.
3. Hvar það gerðist.
4. Hver er heimildamaðurinn.
(Hvernig, hvers vegna, hvað svo)
Beinn inngangur er almennt notaður í fréttum og fréttaþjónustu á netinu. Ritstjórar á netinu vilja, að inngangurinn svari öllu: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Frestaður inngangur er stundum kallaður stuðinngangur, því að hann gefur eins konar rafmagnsstuð. Hér að neðan hefði verið venjulegra að setja tímasetningu á boðuðu réttarhaldi fremst, en blaðamaðurinn kaus að taka annað fram fyrir:
“Slæmir hlutir koma fyrir eiginmenn Elkin-ekkjunnar. Einhver myrti eiginmann númer 4, Cecil Elkin, með því að lemja steikarpönnu í hausinn á honum, þegar hann var að horfa á Family Feud í sjónvarpinu. Eiginmaður númer 3 drukknaði …”
Á fréttastofum, sem semja fréttir fyrir sjónvarp, blöð og net, eru blaðamenn oft beðnir um að skrifa útgáfur af sögunni. Stundum veldur tímahrak því, að þeir eru beðnir um að skrifa altækan inngang, sem þá er beinn, stuttur útvarpsinngangur.
Sumir blaðamenn beita tækni, sem er blanda af beinum og frestuðum inngangi. Sagan hefst þá með örfáum almennum málsgreinum og gefur síðan högg að loknum fyrsta málslið sögunar. Dæmi eftir hina frægu Edna Buchanan hjá Miami Herald:
“Maðurinn, sem hún elskaði, sló hana utan undir. Hún snöggreiddist og sagði: “Gerðu þetta aldrei, aldrei aftur”. “Hvað ætlarðu að gera í því, drepa mig,” spurði hann og rétti henni byssu, “gerðu svo vel”. Það gerði hún.
Buchanan sagði frá manni, sem ruddist fram í biðröð eftir kjúklingum og lenti í ryskingum við öryggisvörð: “Gary Robinson dó svangur.” Um smyglara sem var með innvortis eiturlyf sagði hún “Síðasta máltíðin kostaði 30.000 dollara og drap hann.”
Skáldið John Ciardi sagði: “Þegar til kastanna kemur er setning góð, sem segir, að einhver (frumlag) hafi gert eitthvað (umsögn) við einhvern (andlag). Þrír af hverjum fjórum inngöngum eru frumlag + umsögn + andlag.
Þegar inngangur fer yfir 20-25 orð, þarf að fara að skera. T.d.
1) ónauðsynlega tilvitnun,
2) aukasetningu, sem byrjar á EN eða OG,
3) nákvæma dagsetningu eða tímasetningu, sem geta komið aftar.
Þegar eitthvað raunverulega mikilvægt gerist, fjúka allar reglur og leiðbeiningar og blaðamaðurinn treður staðreyndum í innganginn. Úr slíku kemur ekkert listaverk, en staðreyndirnar tala sínu máli:
“Flugræningjar flugu þotum inn í báða World Trade Center turnana og felldu þá báða í vítisstormi ösku, glers, reyks og fólks í lausu lofti, meðan þriðja þotan flaug á Pentagon í Virginíu. Engar tölur eru enn til um mannfall, en …”
Svona hófst fyrsta fréttin í Washington Post um Watergate: “Fimm menn, þar af einn, sem sagðist hafa unnið hjá CIA, voru handteknir klukkan hálfþrjú í nótt við það, sem lögreglan sagði vera skipulagt innbrot í höfuðstöðvar demókrata …”
Smölun heitir inngangur, sem safnar saman nokkrum atriðum í einn beinan inngang, oft notaður í safnfréttum um slys í umferðinni, veðurhorfur eða glæpi, þar sem fjallað er um nokkur skyld efni.
Dæmi: “Hellirigning í Missouri og Kansas olli dauða fimm manns, gerði hundruð manna heimilislaus og olli meira en milljón dollara tjóni á uppskeru.”
Læsileiki fæst með því að
1) nota aðeins eina hugmynd,
2) nota frumlag-umsögn-andlag röðina,
3) með því að nota sterkt frumlag, sem lesandinn getur þreifað á,
4) með því að nota litríka umsögn, sem hrífur lesandann með inn í söguna.
Minnisatriði um innganginn:
1) Finndu fókusinn í sögunni.
2) Veldu milli beins og frestaðs inngangs.
3) Veldu eina hugmynd, ef hún er mikilvægust.
4) Notaðu frumlag-umsögn-andlag uppsetninguna.
5) Notaðu sterkt frumlag og litríka umsögn.
6) Hafðu innganginn stuttan, innan við 30-35 orð.
7) Gerðu hann læsilegan, án þess að fórna sannleikanum.
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006