Ártíð spámanns og trúboða.

Greinar

Að lokinni hundrað ára ártíð þýzka stjórnmálamannsins, trúboðans og spámannsins Karls Marx er eftirminnilegast, að meira en heil öld og í sumum tilvikum nærri hálf önnur öld er síðan hann ritaði verkin, sem margir hafa síðan haft að átrúnaði.

Þegar Marx var að móta heimsmynd sína og söguskoðun fyrir miðja síðustu öld, var upphaf iðnbyltingarinnar nýlega riðið yfir Vestur-Evrópu. Hvorki hann né aðrir vissu þá, hvaða afleiðingar þessi mikla breyting mundi hafa.

Menn vissu þá ekki, að þjóðarsáttmálar mundu rísa milli ólíkra hópa, til dæmis um lífskjör og afkomuöryggi. Menn vissu þá ekki, að miðstéttirnar mundu blómstra umfram aðra hópa í stað þess að hverfa milli tveggja andstæðra póla.

Í þá daga var sagnfræði frumstæðari en nú og fornleifafræði raunar á frumstigi. Suma er að segja um hagfræði og tölfræði, svo að ekki sé minnzt á yngri greinar félagsvísinda, sem hófu ekki göngu sína fyrr en á tuttugustu öld.

Þess vegna má treysta því, að spádómar og söguskýringar nítjándu aldar manns eru haldlausar undir lok tuttugustu aldar, enda kolrangar í veigamiklum atriðum. Þetta gildir um Marx eins og samtíðarmenn hans og fyrirrennara.

Auðvitað er Marx söguleg staðreynd, sem á heima í forsögu félagsvísindanna á hálfri blaðsíðu á eftir Plató og Macchiavelli. En hann er engin biblía til túlkunar á nútímanum, né tilefni viðgangs ýmissa sértrúarhópa.

Þar að auki er Marx af annarri ástæðu lakari fræðimaður en margir slíkir fortíðarmenn. Hann byrjaði á öfugum enda á fræðistörfum sínum, safnaði staðreyndum, sem féllu að hugmyndum, er hann var þegar búinn að móta.

Marx skrifaði Kommúnistaávarpið snemma á ferli sínum. Það kom út 1848 og hafði að geyma samandregnar söguskýringar hans og spádóma. Það er ritað af ljóðrænum ofsa hins sannfærða hugsjónamanns, sem telur sig vera að bjarga heiminum.

Það er ekki fyrr en síðar, að Marx sezt að á British Museum til að leita staðreynda, sem gætu fallið að kenningunum. Das Kapital byrjar ekki að koma út fyrr en 1867. Þetta eru vinnubrögð spámanns en ekki vísindamanns.

Allir, sem þannig vinna, finna upplýsingar, er henta kenningunum. Alveg eins og Rutherford sannaði, að ættkvísl Benjamíns hefði flutzt til Íslands, með því að reikna pýramídann mikla út og suður. Slíkar aðferðir eru marklausar.

Vísindamenn verða sem mest þeir mega að reyna að forðast samkrull stjórnmála og trúboðs við rannsóknarverkefni sín. Og maður, sem reisir fræði sín á stjórnmálum og trúboði, er spámaður og pólitíkus, en ekki vísindamaður.

Þannig hefði verið rétt að minnast Karls Marx á hundrað ára ártíðinni. Hann var stjórnmálamaður, trúboði, spámaður og grúskari, sem var uppi á öld margfalt minni upplýsinga en menn hafa aðgang að nú á tímum.

Sem vísindamaður er hann hins vegar aðeins virði svo sem hálfrar blaðsíðu í forsögu félagsvísindanna, skör lægra en Plató og Macchiavelli. Og enginn skaði væri skeður, þótt hann félli smám saman í gleymsku og sértrúarflokkarnir leystust upp.

Jónas Kristjánsson.

DV