0427 Viðmælendur

0427

Fréttamennska
Viðmælendur

Málsaðilar kynnast í fyrsta þætti viðtals. Viðmælandinn metur kosti og galla þess að upplýsa. Blaðamaðurinn reynir að sýna fram á óbeint gagn viðmælandans af viðtalinu, það er frægð, virðing og tilfinning fyrir að hafa gert rétt.

Blaðamenn vilja oft ekki spyrja sumra spurninga, einkum um einkamál fólks. Um þetta er ekki auðvelt að setja reglur. Mat samfélagsins á góðum siðum er stöðugt á reiki. Nú er spurt spurninga, sem áður voru óhæfar. Nú er tími gegnsæis.

Oft má fá einstaklega minnisstæðar setningar upp úr fólki. Earl K. Long svaraði í viðtali: “Þegar ég dey, ef ég dey, vil ég vera grafinn í Louisina, svo að ég geti haldið áfram í pólitík.”

Lynn Hirschberg tekur viðtöl við stjörnur og hakkar þær stundum í sig. Samt neita þær ekki viðtali og opna sig nánast alltaf. Hún segir þetta fara eftir því, hversu mikinn áhuga þú sýnir því, sem þær segja. Hvað viltu hlusta mikið?

Báðir aðilar í viðtali gefa sér ákveðnar væntingar um leikreglur. Almennt væntir blaðamaðurinn þess, að viðmælandinn segi satt og standi við það. Viðmælandinn væntir þess, að blaðamaðurinn skrifi sögu hans af sanngirni og nákvæmni.

Viðmælendur fela, forðast, skekkja, ljúga, ef þeir telja sér hag í því. Blaðamaðurinn þarf að átta sig, þegar viðtal fer í slíkar ógöngur. Reglur um hegðun blaðamannsins eru oftast þessar:

1) Segðu strax hver þú ert og fyrir hvaða stofnun þú vinnur.
2) Lýstu tilgangi viðtalsins.
3) Ef viðmælandinn er óvanur, skaltu taka fram, að viðtalið verði birt.
4) Segðu honum, hvað viðtalið muni taka langan tíma.

5) Hafðu viðtalið eins stutt og hægt er.
6) Spurðu afmarkaðra spurninga, sem viðmælandinn getur svarað.
7) Gefðu honum nægan tíma til svara.
8) Biddu hann um að útskýra flókið eða loðið svar.

9) Lestu fyrir hann spurningu aftur, ef hann biður um það.
10) Heimtaðu svar.
11) Forðastu að flytja fyrirlestur eða deila við hann.
12) Ef skilyrði fylgja viðtalinu um, að viðmælandinn komi ekki fram, verður þú að virða það.

Blaðamaður verður að sjá fyrir sér, að viðmælandinn spyrji sjálfan sig:
1) Af hverju er þessi blaðamaður að tala við mig?
2) Hver er tilgangurinn? Er hann hér til að skaða mig eða hjálpa mér?

3) Hvers konar viðtal ætlar hann að skrifa?
4) Er hann hæfur og traustvekjandi eða mun hann misskilja mig?
5) Er hann nógu klár til að skilja flókin atriði?
6) Verð ég að byrja fremst eða hefur hann unnið heimavinnuna?

Sumar heimildir, einkum reyndir embættismenn og forstjórar, reyna að taka völdin í viðtalinu og koma því í ákveðinn farveg. Ef upplýsingarnar koma að gagni, getur blaðamaðurinn sætt sig við það. Oftar er þó verið að reyna að þyrla upp ryki.

Sumum valdamönnum er beinlínis kennt að þyrla upp ryki og flytja niðursoðin svör, sem samin eru af almannatenglum. Við slíkar aðstæður á blaðamaðurinn ekki annarra kosta vel en að taka stjórnina. Þá er gott að muna eftir Oriana Fallaci.

Mannlýsing er lítið drama, sem blandar saman viðtali, atburðum og lýsingu. Líf persónu er lýst upp með viðtali við hana, við þá, sem hana þekkja, og með lýsingu á atburðum persónunnar, svo og með bakgrunni og útskýringum.

Joseph Mitchell hjá New York Times er sagður eiga auðvelt með að láta fólk tjá sig í viðtölum. Hann velur spurningar, sem leiða til góðs samtals, auk þess sem Mitchell skoðar viðbrögð og vangaveltur. Allir hafa góða sögu og hann nær henni.

Piper Fogg fékk þetta út úr Jefrfrey M. Duban lögmanni: “Ég var prófessor. Ég þekki kerfið. Þeir eru tíkarsynir. Þeir eru miskunnarlausir. … Þeir gefast ekki upp, fyrr en þú ert með þá uppi við vegg með hnéð í klofinu á þeim.”

Earl Long: “400 dollara föt á honum mundu líta út eins og sokkar á steggi”. Adlai Stevenson: “Nixon er sú tegund stjórnmálamanns, sem mundi saga niður rauðviðartré og standa síðan á stubbnum og flytja ræðu til stuðnings skógarvernd.”

1) Lækkaðu rostann í þínu eigin egó, þegar þú tekur viðtal. Þú er kominn til að hlusta, ekki til að tala.
2) Opnaðu hugann fyrir nýjum og fjölbreyttum hugmyndum.
3) Gefðu viðmælandanum nógan tíma.

4) Truflaðu hann sjaldan.
5) Hlustaðu á tal hans og virtu hann fyrir þér um leið.
6) Afmarkaðu spurningarnar við þemað og það sem máli skiptir.
7) Spurðu ekki langra spurninga.

Fáðu lesandann til að:
1) Sjá persónuna líkamlega.
2) Heyra persónuna. Fullt af tilvitnunum.

3) Horfa á persónuna. Fullt af atburðum.
4) Þekkja persónuna. Menntun, vinna, aldur, fjölskylda, tekjur, smekkur, áhugamál, velgengni og ósigrar.

Samuel Johnson sagði: “Meiri þekking fæst um raunverulega persónu manns með stuttu samtali við einn af þjónum hans heldur en af formlegri og skipulegri frásögn, sem byrjar á fæðingunni og endar á jarðarförinni.”

Gay Talese gerði mannlýsingu á Frank Sinatra án þess að tala við hann. Talese fylgdist með honum á bar í New York og á næturklúbbi í Kaliforníu. Og talaði við marga vini hans. Í greininni eru ýmsar stuttar nærmyndir, sem sýna Sinatra.