Þriggja stafa tala þykkra hausa.

Greinar

Sjöunda áratug þessarar aldar, svonefndan viðreisnaráratug, nam verðbólgan um 10% á ári og þótti ofboðslega mikil, enda var hún fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Margt var þá krukkað til að ná verðbólgunni niður.

Eiginleg lækning fannst ekki, enda voru menn þá sem síðar uppteknir við að glíma við sjúkdómseinkenni, en ekki sjúkdóm. Verðbólgan er nefnilega ekki sjúkdómurinn sjálfur, heldur eins konar hiti, sem fylgir öðrum sjúkdómum.

Á þessum áratug lærðu menn hins vegar að milda áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja launamarkaðinn og ýmis félagsleg útgjöld, sem talið var eðlilegt, að fylgdu launum, svo sem ellilaun og örorkubætur.

Áttunda áratug aldarinnar, svonefndan framsóknaráratug, nam verðbólgan um 50% á ári og þótti hroðalega mikil, enda var hún áfram fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Aftur var margt krukkað til að ná verðbólgunni niður.

Enn fannst engin lækning, því að hinir pólitísku læknar horfðu aðeins á hitamælinn, verðbólguna, en sinntu ekki sjúkdómunum, sem höfðu orsakað verðbólguna. Þeir héldu áfram að glíma við afleiðingu, en ekki orsakir.

Á þessum áratug lærðu menn hins vegar að milda enn áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja flestar fjárskuldbindingar. Þannig var verulega dregið úr hefðbundnum fjárstuldi þeirra, sem aðstöðu höfðu í kerfinu.

Níunda áratug aldarinnar hefur ekki enn verið gefið nafn. En svo virðist sem hann ætli ekki síður að vera sögulegur en hinir tveir undangengnu, frá sjónarmiði glímunnar við verðbólguna, sem nú er meiri en nokkru sinni fyrr.

Í vetur hefur verðbólgustigið verið um 75% og stefnir að því að verða 100% á einu ári, frá marz þessa árs til marz hins næsta. Þriggja stafa verðbólga hefur ekki áður mælzt hér og gefur auðvitað tilefni nýrra aðgerða.

Í þetta sinn verður ekki hægt að hugga sig við, að verðbólgan sé sem fyrr bara fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Þar fer verðbólgan nefnilega hjaðnandi um þessar mundir, svo að séríslenzk verðbólga verður minnst tíföld.

Hér verður látin í ljós sú von, að ráðamenn þjóðarinnar, hinir pólitísku læknar, dragi einn lærdóm af verðbólgu þessa níunda áratugar, alveg eins og þeir gerðu áratugina tvo, sem á undan gengu. Slíkt væri raunar eðlileg krafa.

Á þessum áratug gætu menn lært að milda áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja skráningu á gengi erlendra gjaldmiðla. Þar með yrði hætt að reyna að leysa séríslenzk vandamál á kostnað útflutnings- og samkeppnisframleiðslu.

Með því væri þeim mikilvæga árangri náð, að verðbólgan mætti hjóla spólvitlaus á hliðarspori í þjóðlífinu, sem sjálft væri orðið nánast fyllilega vísitölutryggt. Læknarnir gætu þá snúið sér að öðru en að horfa í sífellu á hitamælinn.

Rökrétt afleiðing þess væri þá fólgin í að leggja niður íslenzka krónu og taka upp erlenda mynt, t.d. svissneska franka. Um leið væri gulltryggt, að verðbólga hér yrði ekki meiri en í Sviss. Séríslenzk verðbólga væri úr sögunni.

Um leið þurfum við, þolendur hinna pólitísku lækna, að berja inn í þykka hausa þeirra, að verðbólgan er ekki vandamálið, heldur sjálf læknislist þeirra, einkum eins og hún lítur út í árlegum fjárlögum og lánsfjárlögum.

Jónas Kristjánsson.

DV