0438
Fréttamennska
Hamfarir
Varúð í harmleikjum:
1) Gættu þín á óstaðfestum fullyrðingum. Þegar fréttamaðurinn sér ekki sjálfur atriðið, á hann að bera nafngreindan aðila fyrir því.
2) Forðastu að gera grunaða eða fórnardýr að djöflum eða hetjum.
3) Leiðréttu villur strax og áberandi með öllum smáatriðum.
4) Farðu að lögum, farðu ekki inn á einkalóðir og taktu tillit til einkalífs.
5) Þiggðu ráð reyndra fréttamanna, sem þekkja samfélagið og hafa öðlast traust.
6) Mundu, að allt samfélagið er í sárum, þegar harmleikir verða, ekki bara þeir, sem beint tengjast þeim.
7) Áttaðu þig á, að áhorfendur eiga auðveldara með að höndla harmleik, en heildarmynd frásagnarinnar er víðtæk.
8) Ýktu ekki sögu, sem er hrikaleg fyrir.
9) Dragðu ekki skjótar ályktanir, gerðu ekki ráð fyrir neinu, búðu ekki til alhæfingar.
10) Villtu ekki á þér heimildir. Ekki draga fjöður yfir, hver þú ert og hvað þú gerir.
11) Segðu frá því, sem vel gekk, og hvaða ráðstafanir tókust vel.
12) Mundu, að traust er grunnurinn að samskiptum miðils og samfélags. Það gerir aðilum kleift að skýra satt frá málsatvikum og eykur skilning á fjölmiðlum.
Waco-málið var dæmi um, að opinberar stofnanir notuðu fjölmiðla til að koma á framfæri röngum upplýsingum um sértrúarsöfnuðinn og koma í veg fyrir, að þeir kynntu sér söfnuðinn og sögu hans. Fjölmiðlar létu segja sér, að þetta væri “cult”.
Afleiðingin varð fyrst sú, að fjölmiðlarnir sögðu gagnrýnislaust söguna eins og opinberar stofnanir sögðu hana og lýstu öryggissveitunum sem frelsisenglum, sem væru að ná börnum úr höndum glæpamanna. FBI leit á fjölmiðlana sem tæki.
Síðan varð afleiðingin sú, að mikill harmleikur varð á svæðinu. Aðgerðir FBI reyndust vera skelfileg og alger mistök, því að flestir dóu, börnin líka. Það eina, sem tókst, var að mýla fjölmiðlana gersamlega í þágu FBI.
Miklar breytingar hafa orðið á stríðsfréttum eftir Víetnam-stríðið. Eftir það urðu herforingjar sannfærðir um, að ekki megi hleypa fréttamönnum að stríði. Þeir fengu ekki að koma nálægt Grenada fyrr en aðgerðum hersins var lokið þar.
Mikil fréttaskömmtun og ritskoðun var í fyrra Persaflóastríðinu, en mestar urðu breytingarnar í síðara Persaflóastríðinu. Þá voru 700 fréttamenn “innifaldir” í hersveitum bandalags hinna stríðsfúsu ríkja. Miðlarnir létu bjóða sér þetta.
Walter Cronkite sagði þinginu, að “með hroka sem er fjarlægur lýðræðiskerfinu trampaði bandaríski herinn í Sádi-Arabíu á rétti Bandaríkjamanna til að vita um hluti.” Robert McKewon sagði: “Meiri misnotkun fjölmiðla en nokkru sinni fyrr.”
“Innifaldir” fréttamenn voru hugmynd hermálaráðuneytisins. Gera átti þá að hluta af stríðinu, passa að þeir færu á rétta staði og ekki á aðra, að þeir vinguðust við hermenn. Niðurstaðan varð sú, að Bandaríkjamenn sáu annað stríð en hinir sáu, t.d. Evrópumenn.
Stríðið gegn Írak hefur reynst vera mesti lágpunktur í sögu bandarískrar fjölmiðlunar í heila öld. Henry Rubin: Á sama tíma og aðrar þjóðir heims sáu skemmdir og mannfall í stríðinu, sáu Bandaríkjamenn endalaust sigurstríð.
Lynch hneykslið leiddi til, að umboðsmaður Washington Post, Michael Getler, gagnrýndi skrif blaðsins. Blaðið skúbbaði hetjusögunni, sem “var röng í öllum atriðum, sem máli skipta”. “Hvers vegna var hún ekki leiðrétt strax,” spurði hann.
Getler segir, að sagan af Lynch hafi lyktað illa frá upphafi. Todd Gittlin segist vera hissa á, að fréttamenn trúi hverju orði, sem þeim sé sagt, ef stjórnvöld eiga í hlut. Og réttar sögur af styrjöldum eru fjarlægari en nokkru sinni fyrr.
Sjónvarpsstöðvar sýndu stríðið gegn Írak eins og það væri tölvuleikur, þar sem sprengjur féllu í óraunverulegum heimi. Þær þjóðir, sem fengu fréttir frá blaðamönnum, sem ekki voru “innifaldir”, sáu hins vegar blóðbaðið.
Myndirnar af pyndingum í Abu Gharib vekja spurningar:
1) Hver er fréttalegur tilgangur þeirra? Skilur fólk söguna betur?
2) Eru myndirnar eina leiðin til að segja söguna?
3) Ef þú þarft að verja birtinguna, hvernig gerir þú það?
4) Hvenær er saga nógu mikilvæg til að réttlæta slíka myndbirtingu?
5) Ættu að vera til leiðarvísar eða umræður um hana?
6) Hvenær á að vara fólk við myndbirtingum.
Sherry Ricchiardi segir, að fjölmiðlar hafi verið of seinir að taka upp pyndingasöguna, þótt enginn skortur hafi verið á upplýsingum um, að hlutirnir væru í ólagi. Til dæmis skýrslur frá Amnesty og Human Rights Watch.
Ricchiardi: “Hvers vegna voru fréttamiðlar svona seinir að grafa upp söguna?” Philip Taubman: “Við unnum ekki vinnuna okkar fyrr en myndirnar komu á CBS og sagan eftir Seymour Hersh kom á internetinu. Þetta var bilun í fréttaöflun.”
Eftir 11. september 2001 hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum spilað á þjóðerni fréttamanna og farið að veifa vofu hryðjuverka, þegar gagnrýni heyrist. Stjórnvöld eru hæfari til að villa um fyrir fólki heldur en fréttamenn eru að sjá gegnum það.