Fantabrögð lækna.

Greinar

Næstum ár er liðið síðan háls-, nef- og eyrnalækninum Stefáni Salbert og tannlækninum Yvona Salbert var veitt landvistarleyfi á Íslandi sem pólitískum flóttamönnum frá Póllandi, en samt hafa þau ekki enn fengið störf á sínum sviðum.

Í DV á laugardaginn var rækilega skýrt frá máli Stefáns. Þar kemur fram, að læknadeild Háskólans og félag ungra lækna hafa brugðið fæti fyrir tilraunir stjórnvalda til að efna loforð sín gagnvart honum um læknisstörf á Íslandi.

Læknisfræði er að verulegu leyti alþjóðleg fræðigrein. Læknar færa sig fyrirhafnarlítið milli landa, þar á meðal íslenzkir læknar. Þeim þykir sjálfsagt að geta fengið störf í Svíþjóð eða Bandaríkjunum, ef þeir telja það henta sér.

Að baki læknanáms liggur gífurlegur kostnaður af hálfu þjóðfélagsins. Læknar, sem menntaðir eru á Íslandi, eru ekki krafðir um endurgreiðslu, þótt þeir flytjist til útlanda, margir hverjir fyrir fullt og allt.

Um leið ætti það að koma Íslandi vel, ef hingað vill koma hámenntað fólk og láta þjóðina njóta góðs af kunnáttu, sem það hefur aflað sér. Slíkt fólk ætti að laða hingað í stað þess að bregða fyrir það fæti.

Einfalt ætti að vera fyrir læknadeild Háskólans að afla sér upplýsinga á Vesturlöndum um, hvaða reynsla sé af pólskum háls-, nef- og eyrnalæknum og tannlæknum og hvort menntun þeirra sé nægileg fyrir vestrænar kröfur.

Í stað þess hefur læknadeildin krafizt þess, að Stefán taki próf í ýmsum greinum, sem kosta eins til tveggja ára undirbúning. Þar á ofan má hann ekki taka þau á ensku, heldur íslenzku, sem kostar fimm ára undirbúning.

Draga verður í efa, að íslenzkir læknar geti staðizt slíkar kröfur, ef gerðar væru. Flest það, sem lært er í skólum, gleymist fljótt, einnig það, sem læknanemar læra í háskólum, jafnvel þótt ekki sé á framandi tungumálum.

Stefán Skaftason, yfirlæknir háls-,nef-og eyrnadeildar Borgarspítalans, hefur beðið Svavar Gestsson heilbrigðisráðherra að ráða Stefán Salbert í aukastöðu við deildina með bráðabirgðaleyfi, meðan hann aflar fullra réttinda.

Í bréfinu segir: “Ég tel með öllu ósæmandi íslenzkri þjóð og íslenzkum stjórnvöldum að taka, ef dæma má af fjölmiðlum, tveim höndum erlendum flóttamönnum, en skilja þá síðan eina á berangri harðrar samkeppni þjóðfélags þess, sem við búum í.”

Yfirlæknirinn hafði áður vikið að því, að fulltrúi félags ungra lækna hafi tjáð sér, að ungir læknar litu það óhýru auga, ef Stefán Salbert yrði ráðinn sem aðstoðarlæknir í stöðu, sem þeir þyrftu sjálfir á að halda.

“Hyggjast þeir jafnvel beita deildina refsiaðgerðum, verði út frá þessu vikið”, segir ennfremur í bréfi yfirlæknisins. Þannig leggjast ungu læknarnir á sömu sveif og læknadeildin til að reyna að einoka störf á Íslandi.

Nú er það greinilegur ræfildómur Svavars Gestssonar heilbrigðisráðherra að hafa látið læknamafíuna vaða uppi á þennan hátt. Sem ráðherra er hann skyldugur að halda uppi sóma Íslands, þótt læknar beiti fantabrögðum.

En athyglisvert er, ef íslenzkir læknar ætla að temja sér vinnubrögð bandarísku læknasamtakanna, eins verst ræmda þrýstihóps þar vestra, í tilraunum til að tryggja læknaskort og meðfylgjandi óhófslaun til frambúðar.

Jónas Kristjánsson.

DV