Betra en bingó.

Greinar

Eftir sjálfskynningu stjórnmálaflokkanna í sjónvarpi er eðlilegt, að kjósendur efist um, að frambjóðendur hafi lært nokkuð að gagni af gagnrýni, sem þeir hafa orðið að sæta á undanförnum árum. Gamla tuggan réð ríkjum.

Allir listar hafa t.d. óstjórnlegan áhuga á að koma íbúðalánum upp í svo sem 80% af kostnaðarverði til svo sem fjörutíu ára. Raunar liggur í augum uppi, að þetta er nauðsynlegt svar við réttlátri verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Síðan vefst frambjóðendum tunga um tönn, þegar kemur að fjármögnun óskhyggjunnar. Um hana gefa þeir loðin svör, sem standast ekki gagnrýni. Enda er auðveldara að flagga góðum vilja en hafa lausnir upp á krónu á reiðum höndum.

Frambjóðendur ættu að segja kjósendum, hvað það kostar á ári til viðbótar að auka húsnæðislán að því marki, sem þeir lofa. Síðan ættu þeir að segja, hvar eigi að taka peningana, hversu mikið eigi að taka á hverjum stað og hvaða afleiðingar það hafi þar.

Sumir frambjóðendur vilja enga stóriðju út af mengun. Kjósendum er hins vegar ekki ljóst, af hverju sömu frambjóðendur vilja smáiðnað, sem samtals veldur sennilega meiri mengun en hin hræðilega stóriðja.

Aðrir vilja bara íslenzka eða rúmlega hálfíslenzka stóriðju. Þeir forðast samt eins og heitan eldinn að segja kjósendum, hvar þeir ætli að taka peninga í þetta, svo og aðra óskhyggju sína á sviði gæluiðnaðar.

Þeir þegja, af því að peningarnir yrðu teknir í útlöndum. Og það er einmitt eitt mikilvægasta hugsjónamál allra lista, að skuldasöfnunin erlendis verði stöðvuð. Eitt rekur sig á annars horn í lyginni eins og jafnan áður.

Sumir frambjóðendur vilja afnema tekjuskatt af venjulegum launatekjum. Þetta er afar fallega hugsað. Hins vegar fylgir ekki sögunni, hversu há þessi upphæð er samanlagt á ári og hvaða upphæðir ríkissjóður geti sparað í útgjöldum á móti.

Frambjóðendur listanna virðast enn þeirrar skoðunar, að frambærilegt sé að lofa upp í ermina á sér. Þeir segjast vera “á móti” verðbólgunni og skuldasöfnuninni og styðja “umbætur” í húsnæðismálum, skattamálum og svo framvegis.

Hið eina, sem breytist, eru umbúðirnar. Á einum stað eru flokksmenn sýndir liggjandi á gólfi í eins konar hópefli. Þetta á að sýna, hversu óstjórnlega sé gaman að vera í flokknum, það sé meira gaman en að fara á bingó.

Fjölmiðlasérfræðingar flokkanna virðast enn geta talið frambjóðendum trú um, að kosningabarátta sé fyrst og fremst fólgin í réttum umbúðum utan um gömlu lummurnar, gömlu óskhyggjuna, gömlu loforðin, gamla innihaldsleysið.

Fyrir utan þetta er eitt annað athyglisvert við kosningabaráttuna. Það er, að Sjálfstæðisflokkurinn berst sem eindreginn andstöðuflokkur stjórnarfars síðustu tólf ára, þótt Geir og Gunnar hafi samanlagt ríkt meirihluta tímans.

Kyndugt hlýtur að vera fyrir stjórnarsinna Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal suma frambjóðendur hans, að berjast undir þeim merkjum, að heimskir og illgjarnir menn hafi stutt og sumir tekið þátt í núverandi ríkisstjórn.

Þetta er aðeins eitt lítið og einfalt dæmi um, að dálitla ögn af skynsemi vantar út á graut kosningabaráttunnar. Verst er þó hið rótgróna vanmat á kjósendum, sem einkennir innantóm loforðin, takmarkalausa óskhyggjuna og hina hreinu og tæru blekkingu.

Jónas Kristjánsson.

DV