0513
Miðlunartækni
Dreamweaver, Flash Pro
Í síðasta fyrirlestri fjallaði ég um það merkilega forrit Premiere Pro, sem klippir og ritstýrir myndskeiðum og kvikmyndum. Ég fór líka lauslega yfir stuðningsforritin Encore, Prelude, SpeedGrade og After Effects, sem einnig eru í Adobe Creative Studio/Cloud.
Ég hef gerst nokkuð langorður um forritin í Adobe Creative Studio/Cloud, því að þau eru miðlæg í vinnslu fyrir sjónvarp, kvikmyndir, margmiðlun, nýmiðlun og vefmiðlun. Ég á þó enn eftir að fjalla um tvö forrit í pakkanum, Dreamweaver og Flash Pro.
Dreamweaver er vefþróunarforrit, upphaflega gefið út af Macromedia, sem rann inn í Adobe. Forritið er til fyrir Mac og Windows, en ekki fyrir Linux. Adobe hefur gert Dreamweaver þannig, að það styður betur alþjóðlega staðla um vefþróun.
Dreamweaver býður upp á WYSIWYG (what you see is what you get) skel til viðbótar viðmóti kóðans. Notendaskelin auðveldar hraða vefhönnun og meðferð HTML skjala. Í forritinu er skoðari (browser), sem gerir þér kleift að forskoða vefsíður.
Hægt er að nota Dreamweaver til að búa til JavaScript án þess að kunna að smíða kóða. Forritið getur líka tekið við viðbótum frá þriðja aðila og margir framleiða slíkar viðbætur fyrir Dreamweaver, bæði án gjalds og með.
Tungumál forritunar, sem Dreamweaver skilur, eru ActionScript, XML (Extensible Markup Language), XSLT, HTML (Hypertext Markup Language), Java, JavaScript, PHP, VB (Visual Basic), VBScript og WML (Wireless Markup Language).
Dreamweaver gefur kost á flóknum þrepahlaupum forritunar, CSS (Cascading Style Sheets). Vefstungustjóri (Web Fonts Manager) einfaldar notkun ýmiss konar leturs á vefnum. Hins vegar er enginn stuðningur við HTML5 og ekki heldur við CSS 3.
Fjarvera Dreamweaver frá þessum alþjóðlegu stöðlum kann að flýta flótta vefhönnuða frá forritinu yfir í WordPress, sem er miklu einfaldara forrit og býður þar á ofan upp á óteljandi viðbætur, sem geta komið að gagni á sérhæfðum sviðum vefhönnunar.
Dreamweaver hefur ekki vinnslutæki fyrir HTML5 þætti eins og myndskeið og hljóð, né heldur tölvupóst og lit. Og til viðbótar skorti á CSS 3 atriðum vantar líka mikilvæg atriði úr staðlinum CSS 2. Vankantarnir valda því, að Dreamweaver er á undanhaldi.
Hafa verður þó í huga, að Dreamweaver er heilt forritunarumhverfi en WordPress stýrir bara blogg-innihaldi. Verksvið þessara forrita er því ekki hið sama. Dreamweaver er enn mikilvægt á þeim sviðum, sem WordPress nær ekki til.
Forrit, sem raunverulega keppa við Dreamweaver eru EditPlus, CoffeeCup HTML Editor, TopStyle 4, Best Address HTML Editor, Komodo IDE 5.2, phpDesigner 7, CSE HTML Validator, Expression Web 3, Web Studio 5 og Notepad.
Ókeypis eru Open Source keppinautarnir BlueGriffon, KompoZer, Amaya, Bluefish Editor og Aptana Studio. Þess vegna er um margt að velja í vefhönnun og alls ekki enn ljóst, hvaða forrit verða ofan á til skemmri eða lengri tíma.
Hér eru nokkur myndskeið, sem sýnir, hvernig má nota Dreamweaver til að búa til umhverfi fyrir notkun WordPress í framleiðslu á bloggi: http://www.lynda.com/Dreamweaver-tutorials/Dream weaver-WordPress-Building-Sites/89308-2.html
http://www.pcmag.com/article2/0,2817,2403742,00.asp
Flash Pro er annað forrit upprunnið hjá Macromedia, sem Adobe gleypti og það er líka á undanhaldi vegna skorts á stuðningi við alþjóðlega staðla. Einkum sækja á forrit, sem styðja HTML5, svo sem Adobe Edge, sem raunar er líka frá Adobe.
“Used for authoring of vector graphics, animation, games and Rich Internet Applications (RIAs) which can be viewed, played and executed in Adobe Flash Player. Flash is frequently used to add streamed video or audio players, advertisement and interactive multimedia content to web pages.”
Styrkur HTML5 felst í, að það gerir ráð fyrir snjallsímum og lestölvum og veikleiki Flash Pro felst í, að það er ekki alþjóðlegur og opinn staðall, heldur eign fyrirtækisins. Streymi frá ýmsum útvarps- og sjónvarpsstöðvum næst því ekki á iPhone eða iPad.
Flash Pro er lítið notað í kvikmyndum af fullri lengd, þó í The Secret of Kells. Meira er það notað í auglýsingum og ódýrari sjónvarpsþáttum. Svo sem Pound Puppies, My Little Pony, Metalo–calypse, Wow wow Wubbzy og The Adventures of Manny Rivera.
Í Flash Pro er Flash Video, sem hefur verið vinsælt við gerð vefsíðna. Það hefur samt verið gagnrýnt, meðal annars af Apple, sem notar ekki Flash. Adobe hefur tekið tillit til þessarar gagnrýni með Flash 10.1 og Flash 10.2, sem hraða vinnslu skráa.
Talsmenn opins hugbúnaður og stofnunin World Wide Web vara við notkun Flash. Richard Stallman sagði: “The use of Flash in websites is a major problem for our community.” Håkon Wium Lie sagði: ” The problem with Flash is that it’s not an open standard.”
Búast má við fjölgun þrívíddar-myndskeiða og kvikmynda með 60 fps (Frames Per Second). Adobe tekur tillit til þessarar þróunar í nýjustu útgáfunni af Flash Pro, þótt forritið styðji ekki enn HTML5. Ekki er því enn hægt að afskrifa Flash Pro.
Í næsta fyrirlestri ætla ég drepa lauslega á eldri tækni, sem enn er notuð við kvikmyndir og sjónvarp, svo sem klippiforritið Avid Media Composer og hljóðforritið Pro Tools DigiDesign. Ég þarf líka að nefna keppinaut Premiere Pro, það er Apple Final Cut Pro 7.
Þegar það er búið, kemur röðin að ýmsum hugbúnaði, sem gagnast margmiðlun, nýmiðlun og vefmiðlun til sértækra þarfa. Þá er ég að tala um forrit eins og QuickTime og skáartegundina m4v, svo og forritin DropBox og Skype. En einkum um Word Press.