Spilin verða stokkuð.

Greinar

Skoðanakönnun DV, sem birt er í blaðinu í dag, staðfestir það, er komið hefur fram í könnunum annarra blaða, að hið hefðbundna flokkakerfi Íslands hefur riðlazt, – að fjöldi manna mun á laugardaginn kjósa öðruvísi en áður.

Nýju framboðin, Bandalag jafnaðarmanna og Samtök um kvennalista, hafa sópað til sín fylgi og ógna hefðbundnum hugmyndum um rekstur stjórnmála. Flokkarnir hafa ekki lengur sína föstu dilka, þar sem sauðirnir skila sér.

Eini gamli flokkurinn, sem nýtur öruggs og raunar vaxandi fylgis, er Sjálfstæðisflokkurinn. Búast má við, að eftir kosningar verði hann eini stóri flokkurinn og þar af leiðandi úrslitaflokkur í myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Tölur DV eru hærri en Morgunblaðsins fyrir Framsóknarflokkinn, Bandalag jafnaðarmanna og Alþýðubandalagið og lægri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hinar sömu fyrir Alþýðuflokkinn og Samtök um kvennalista.

Í stórum dráttum ber þessum tveimur könnunum saman. Minna virði eru tölur Helgarpóstsins, sem eins og fyrri daginn vanmetur Framsóknarflokkinn, þótt aðferðafræðin sé skárri en áður. Við reiknum með, að þær tölur séu ekki réttar.

Svo vel vill til, að á laugardaginn verður kveðinn upp Stóridómur. Þá kemur raunveruleikinn í ljós. Um miðnætti fer sennilega að skýrast, hversu misjafnlega vel þessar þrjár kannanir spá um úrslit kosninganna.

Þá verður marklaust að bera saman misjafna aðferðafræði. Þá verður tilgangslítið að flagga vísindum út af fyrir sig. Þá verða búnir að ákveða sig þeir kjósendur, sem hingað til hafa gefið loðin svör eða engin.

Í könnun DV fékkst ekki svar um lista hjá 46,6% úrtaksins. Morgunblaðið fékk ekki svar frá 37% af sínu úrtaki, þótt sú staðreynd sé raunar falin í frásögnum blaðsins. Eftir viku fáum við að vita, hvor skekkjan er verri.

Burtséð frá þessu er ljóst, að kjósendur hafa þegar ákveðið að gefa nýjum framboðslistum tækifæri til að reyna sig, og sömuleiðis hafa þeir ákveðið að refsa Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu og Framsóknar-. flokknum.

Sérstaklega er athyglisvert, að kjósendur virðast ekki setja fyrir sig einkennilegan klofning Sjálfstæðisflokksins, þar sem hluti kjósenda og einnig frambjóðenda eru stjórnarsinnar, en meirihlutinn stjórnarandstæðingar.

Einnig er sérstaklega athyglisvert, að grófur rógur um Vilmund Gylfason hefur ekki kæft framboð hans manna í fæðingu. Kjósendur trúa ekki róginum og taka framboð bandalags hans sem raunhæft val í stað hins gamla.

Loks er einnig sérstaklega athyglisvert, að sú hugsun hefur náð fótfestu, að flokkakerfið veiti konum ekki næga þáttöku í stjórnmálum og að við ríkjandi aðstæður sé kvennalisti raunhæft svar við vandanum.

Við sjáum fram á, að um eða undir tíu af sextíu þingmönnum næsta kjörtímabils verði kosnir af hinum nýju listum. Um þetta eru sammála þrjár skoðanakannanir með þrenns konar aðferðafræði. Um þetta þýðir engum að villast.

Að baki velgengni hinna nýju lista og velgengni stærsta stjórnmálaflokksins hlýtur að liggja þung undiralda. Að baki eru kjósendur, sem vilja stokka spilin upp á nýtt og kanna, hvort ekki sé hægt að fá ríkisstjórn eftir tólf ára hlé.

Jónas Kristjánsson.

DV