0606
Rannsóknir
Viðtöl
Meginþáttur bókarinnar “ The Investigative Reporter’s Handbook”, kaflar 6-21, fjalla um, hvernig aðferðir þessarar blaðamennsku eru notaðar á ótal sviðum blaðamennsku. Veruleg endurtekning er í því, enda er þetta fremur handbók en kennslubók.
Brant Houston er aðalhöfundur bókarinnar. Hann er líka höfundur annarrar kennslubókar á þessu námskeiði: “Computer-Assisted Reporting”. Hann var blaðamaður í 17 ár og er nú forstjóri samtaka rannsóknablaðamanna, IRE, og prófessor við Univ. of Missouri.
Heimasíða stofnunar hans er www.ire.org/ Þar er hafsjór upplýsinga um rannsóknir í bandarískri blaðamennsku. Þar er sagt frá 20.000 rannsóknum og gefin hundruð ráða við framvindu rannsókna. Sumt af því getur óbeint gagnast hér á landi.
Mikil samhjálp er fólgin í starfi IRE. Blaðamenn taka höndum saman um að koma rannsóknum á framfæri til að auðvelda hver öðrum að vinna á hliðstæðan hátt. Félagið er opið öllum, sem í það vilja ganga.
Þar sem þessi kennslubók er sjálf handbók IRE, skrifuð af forstjóranum, má líta svo á, að hún lýsi aðferðum við rannsóknir, sem séu almennt notaðar af rannsóknablaðamönnum í Bandaríkjunum. Þetta sé hin viðurkennda handbók í faginu.
Houston telur, að sumir fjölmiðlar stundi rannsóknir sem “showcase” og til að fá verðlaun, en þær séu ekki hversdagslegur þáttur í rekstri ritstjórna. Þær séu eins konar sérgrein til sparinota.
Þar sem Ísland er lokaðra land en Bandaríkin er sumt erfiðara eða ófært að gera á Íslandi. Ég reyni að vekja athygli á þessum mun á viðkomandi stöðum í yfirferð á kennslubókinni.
Gott væri að geta sagt, að sérhver blaðamaður sé rannsóknablaðamaður, en það væri ekki satt. Margir blaðamenn eru færiband fyrir opinbert ferli. Þeir skrá lýsingu helsta málsaðila, en staðfesta ekki, að það sé rétt, ná ekki í mikilvægu gögnin.
Sumir blaðamenn segja frá máli borgarstjórans. Aðrir segja líka frá máli oddvita minnihlutans, hafa tvíhliða frétt. Rannsóknablaðamaðurinn lætur ekki pólitíska aðila ráða ferðinni og kannar gögnin að baki umræðunum. Hann er sjálfstæður, frjáls.
Sumir eru ósjálfstæðir, háðir heimildamönnum sínum og taka efni þeirra trúanlegt. Æskilegra er, að rannsóknablaðamenn séu sjálfbærir, geti sjálfir metið, hvað er gagnlegt í pakka af upplýsingum, í stað þess að þurfa að láta aðra segja sér það.
Sérhver blaðamaður getur verið rannsóknablaðamaður. Hann þarf aðeins óseðjandi forvitni um, hvernig heimurinn virkar eða virkar ekki. Hún þarf að vera blandin efahyggju samþætta við hneykslun, sem fær útrás í uppljóstrun þess, er fer leynt.
Ef þetta er til, er hægt að kenna afganginn. “Rannsóknablaðamennska byggist á frumkvæði blaðamannsins, fjallar um mikilvæg mál, sem skýra tilveruna fyrir notendum. Og oftast vilja viðfangsefni rannsóknarinnar að málið fari áfram leynt.”
Einnig má skilgreina rannsóknablaðamennsku svo, að hún grafi undir yfirborðið og aðstoði þannig fólk við að skilja, hvað gerist í sífellt flóknari heimi. “Grafandi blaðamenn”. Ekki er þá nauðsynlegt, að blaðamaðurinn þurfi að yfirvinna fyrirstöðu.
Fyrir utan prentfrelsi stjórnarskrárinnar og upplýsingalögin er fátt sem verndar rannsóknablaðamann. Stjórnvöld leggja oft mikla áherslu á að finna, hver lekur í blaðamann og reyna að knýja hinn síðarnefnda til að segja frá hinum fyrrnefnda.
Blaðamaður verður að fara eftir lögum og siðareglum ritstjórnar. Hann getur ekki stolið upplýsingum eða ruðst inn á heimili fólks. Hann getur ekki logið að fólki. Allt, sem hann gerir af sér, getur hefnt sín, þegar menn gera lítið úr honum.
Tæki hans eru fyrst og fremst viðtöl, skjöl, eftirlit og kannanir. Með þessum tækjum getur hann starfað innan ramma laganna og haft mikið svigrúm til að grafa upp hluti, sem ekki liggja á lausu á yfirborðinu.
1) Viðtöl. Þau fylgja rannsókn alla leiðina. Þetta eru viðtöl við sérfræðinga, heimildamenn, kvartendur, viðfangsefni rannsóknarinnar, andstæðinga þeirra. Mikilvægt er, að viðfangsefnið hafi færi á að taka afstöðu til upplýsinganna.
Viðtöl eru bæði auglitis og í síma. Auðveldara er að taka nótur í símaviðtali, því að nótubók og penni trufla ekki viðmælandann. En blaðamaðurinn sér þá ekki viðbrögð viðmælandans. Gott er að taka viðtalið á band, ef viðmælandinn leyfir.
Símaviðtöl eru yfirgnæfandi í blaðamennsku á Íslandi.Margir sakna nálægðar við aðstæður viðmælandans og viðbrögð hans. Símaviðtöl spara hins vegar tíma og fyrirhöfn.
Einnig er hægt að spyrja skriflegra spurninga, til dæmis í netpósti. Það er þó vandræðaleg staða, því að þá er ekki hægt að fá svör útskýrð nánar og ekki hægt að spyrja viðbótarspurninga í tilefni svaranna. Er betra en ekkert viðtal, en afar takmarkað.
Brant Houston, Len Bruzzese & Steve Weinberg,
The Investigative Reporter’s Handbook
A Guide to Documents, Databases and Technologies
4th Edition
2002