Verið með – kjósið.

Greinar

Kosningabaráttan hefur verið fremur róleg, enda áhugi kjósenda lengst af daufur. Þeir hafa farið sér hægt við að velja sér lista. Vonandi skila þeir sér þó í eðlilegum fjölda á kjörstað, ef veður og færð leyfa.

DV hefur í allan vetur lagt áherzlu á að gefa lesendum tækifæri til að fylgjast með kosningabaráttunni, kynnast mönnum og málefnum hennar. Þessi straumur upplýsinga hefur einkum verið stríður síðustu vikurnar fyrir kjördag.

Á öndverðum vetri hófst kynning DV á frambjóðendum í prófkjörum, skoðanakönnunum og forvali stjórnmálaflokkanna. Við sögðum frá þessu fólki og skoðunum þess og birtum kjallaragreinar eftir þá, sem óskuðu þess.

DV sagði síðan lesendum frá framboðslistunum um leið og þeir urðu til, svo og frá margvíslegum átökum um skipan listanna. Blaðið skýrði frá þróun nýrra framboða, alveg eins og það rakti framboð hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka.

Síðast í marz og fyrst í apríl voru leiðtogar flokka og samtaka, sem bjóða fram í fleiri en einu kjördæmi, á beinni línu á ritstjórn DV. Í öllum tilvikum létu lesendur DV spurningarnar dynja um glóandi símalínur.

Spurningar og svör fengu rækilega umfjöllun á síðum DV. Lesendabréf og kjallaragreinar um kosningamál hafa einnig borizt að í stríðum straumum. Hvað eftir annað hefur blaðið verið stækkað til að rúma þessar aðsendu skoðanir.

Þegar sameiginlegir kosningafundir framboðslistanna hófust í kjördæmunum upp úr páskum, lögðu blaðamenn DV land undir fót til að fylgjast með fundum og segja ítarlega frá þeim í blaðinu. Og einn fund hélt blaðið meira að segja sjálft.

Margir hafa harmað í undanförnum kosningum, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki fengið tækifæri til að koma á sameiginlega framboðsfundi og leggja spurningar fyrir þá, sem vilja verða fulltrúar kjósenda á alþingi.

DV hljóp nú í skarðið, meðal annars af þeirri ástæðu, að enginn annar fjölmiðill gat það, sumir vegna flokkstengsla og aðrir vegna múlbindingar hins opinbera. Og hinn fjölmenni fundur gerði líka stormandi lukku.

Stjórnmálamenn landsins hafa í rúmlega hálft annað ár notað kjallaragreinar í DV sem eins konar ræðustól til að ná til kjósenda. Þeim fannst því jafnt eðlilegt að ganga í ræðustól DV á kosningafundinum í Háskólabíó.

Í öðrum dagblöðum hefur ekkert sézt hliðstætt við hinn mikla straum óhlutdrægra upplýsinga í DV, sem hér hefur verið lauslega rakinn. Enda eru þau svo tengd hvert sínum stjórnmálaflokki, að slíkt frjálslyndi er þar óhugsandi.

Í ríkisfjölmiðlunum hefur ýmislegt verið gert hliðstætt, en ekki í nándar nærri eins miklum mæli og í DV. Síðustu tvær vikurnar hefur þó verið öflugt kosningasjónvarp, sem örugglega er vel þegið hjá meirihluta kjósenda.

Að vísu segja margir, að gömlu þingmennirnir hafi ekki reynzt þjóðinni nógu vel og að ástæða sé til að efast um, að nýju þingmannsefnin reynist betur. Auðvitað leysa kosningar ekki allan vanda, en kjósendur mega þó ekki leggja árar í bát.

Menn eru skyldugir til að vera með, þótt hvert atkvæði sé ekki þungvægt. Kjósendum ber að ákveða sig og að láta efasemdir ekki hindra sig í að koma á kjörstað. Meðan níu af hverjum tíu kjósa er lýðræðið enn virkt, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika.

Jónas Kristjánsson.

DV