Nákvæmnin var mest í DV.

Greinar

Enn einu sinni hefur skoðanakönnun DV reynzt nákvæmust þeirra, sem gerðar voru fyrir alþingiskosningarnar um helgina. Meðalfrávik hinna átta framboðslista reyndist vera 2,2 prósentustig í DV, en 2,8 í Helgarpóstinum og 3,1 í Morgunblaðinu.

Skoðanakannarinn Gallup sagði fyrir nokkrum árum, að menn ættu að reikna með 2-3 prósentustiga frávikum í skoðanakönnunum: Samkvæmt því eru frávik kannana dagblaðanna þriggja innan marka, sem eðlileg mega teljast.

Hinn sami Gallup sagði einnig: “Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Samkvæmt því eru vinnuaðferðir DV nokkru áreiðanlegri en Helgarpóstsins og Morgunblaðsins.

Síðastnefnda blaðið hafði grun um þetta fyrirfram og tryggði sig gegn staðreyndum með því að gagnrýna þá skoðun, að úrslit kosninga væru nokkur mælikvarði á áreiðanleika vinnuaðferða í skoðanakönnunum.

Morgunblaðið sagði: “Þetta er fráleit kenning. Fyrir liggja rannsóknir um þetta atriði og aðferðir við slíkar kannanir hafa verið þaulreyndar og niðurstöður á þeim liggja fyrir. Úrslit kosninga á Íslandi í apríl 1983 breyta þar engu um … “

Vonandi ber Hagvangur hf. enga ábyrgð á þessari vísindakenningu Morgunblaðsins, enda er hætt við, að Gallup og fleiri gætu ekki dulið kátínu sína, ef kenningin væri kynnt á erlendum vettvangi meðal vísindamanna í greininni.

Þvert á móti er einmitt gagnlegt að bera úrslit saman við skoðanakannanir, til dæmis til að reyna að finna, hvort frávik fari eftir einhverjum formúlum. Þannig væri unnt að auka spágildi skoðanakannana og gera þær nákvæmari.

DV gerði tilraun til þessa, en tókst ekki að auka nákvæmnina. Kannski verður það síðar hægt, þegar byggt verður á fleiri kosningaúrslitum en unnt var í þetta sinn.

Nákvæmni upp á 2-3 prósentustiga frávik er samt nægileg til að kveða niður deilur um réttmæti og gildi skoðanakannana. Stjórnmálamenn viðurkenna, að reynt er að vanda til þeirra og að þær sýna sveiflur í stórum dráttum.

Sumir þeirra eru mjög trúaðir á skoðanakannanir, þegar þeim gengur vel, en hafa svo allt á hornum sér, þegar þeim gengur miður. Þetta er bara mannlegt og fer minnkandi í hverri kosningabaráttunni á fætur annarri.

Helzt er mark takandi á kenningum sumra stjórnmálamanna um skoðanamyndandi eða “skoðanahannandi” áhrif skoðanakannana. Flokkarnir hagræða til dæmis kosningabaráttunni með hliðsjón af nýjustu skoðanakönnunum hverju sinni.

Um leið mega menn ekki gleyma, að skoðanakannanir koma í veg fyrir, að óprúttnir kosningastjórar geti haldið fram fáránlega útbelgdum tölum um fylgi flokka sinna. Þær auka upplýsingaforðann, sem kjósendur hafa aðgang að.

Menn eiga ekki að óttast þekkinguna, allra sízt ef hún stingur göt á óraunhæfan hugmyndaheim. Og íslenzkir stjórnmálamenn eru flestir í stórum dráttum hættir að óttast þekkingaraukann, sem felst í vel gerðum skoðanakönnunum.

DV hafnar engan veginn vinnubrögðum annarra aðila, sem kanna skoðanir, heldur telur þau þvert á móti vera frambærileg. En auðvitað fagnar DV því að hafa náð sínu fráviki niður í 2,2 prósentustig, meðan aðrir voru í 2,8- 3,1 prósentustiga frávikum.

Jónas Kristjánsson

DV