Of snemmt að spá.

Greinar

Þótt tilraun Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til myndunar ríkisstjórnar hefjist ekki formlega fyrr en nú, hefur hún raunar staðið að minnsta kosti síðan á þriðjudagsmorgni og þá með formlegum fundum.

Þetta forskot á vinnuna er góðs viti. Það bendir til, að Geir vilji forðast mistökin frá því síðast, er tilraun hans stóð vikum saman og leystist síðan upp í ekki neitt. Enginn tími er til slíks hægagangs um þessar mundir.

Geir Hallgrímsson veit, að ástandið verður farið að nálgast suðupunkt eftir svo sem tíu daga, ef ekki sér þá fyrir endann á tilraun hans. Fljótlega verður forseta Íslands þá ekki stætt á öðru en aðvísa umboðinu annað.

Í öllum hefðbundnu flokkunum hefur komið í ljós nokkur, en mismikill, áhugi á samstarfi við Geir um stjórnarmyndun. Erfiðast er að meta stöðuna innan þingflokks sjálfstæðismanna, þótt ótrúlegt kunni að virðast við fyrstu sýn.

Þar sjá menn fram á forsætisráðherradóm og áframhaldandi flokksformennsku Geirs Hallgrímssonar og telja sumir sjálfa sig eða aðra betur til þess fallna, – eftir allt, sem á undan er gengið. Þetta getur reynzt þungt á metunum.

Athyglisvert er, að samhliða tilraun Geirs hefur staðið önnur og að því er virðist sjálfstæð tilraun af hálfu manna úr þingflokknum. Það gæti bent til, að menn séu að undirbúa komu númer tvö á svokölluðum stjórnarmyndunarbolta.

En um leið hlýtur að vera erfitt fyrir þingflokkinn að finna sér annan forsætisráðherra, því að margir eru kallaðir. Saman við þetta blandast tafl um formennsku í þingflokknum og hugsanlega síðar í flokknum sjálfum.

Framsóknarflokkurinn er klofinn á þingi. Annars vegar fer Ólafur Jóhannesson fyrir þeim armi, sem mælir með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Fyrir hinum, sem eru andvígir, fer Steingrímur Hermannsson.

Í báðum flokkum tala menn um, að nú sé nauðsyn á “sterkri stjórn” með 37 þingmenn að baki. Aðrir telja andlitslyftingu nauðsynlega til að rjúfa stjórnarmynztrið frá 1974. Er þá helzt talað um að bæta Alþýðuflokknum við.

Sá fegurðarauki er takmarkaður, en gæti þó styrkt varnarstríðið í samtökum launafólks. Auk þess vill Alþýðuflokkurinn í stjórn, af því að forustan telur það munu gagnast flokknum í næstu kosningum að hafa sýnt ábyrgð og þor.

Þingmenn Alþýðuflokksins hafa sýnt meiri áhuga á öðru mynztri samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, með Kvennalistann sem þriðja aðila. Af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefur sá möguleiki einnig verið ákaft kannaður.

Sumpart er þar að baki eðlilegur áhugi á að finna, hvernig hugmyndir Kvennalistans falli að hefðbundnum stjórnmálaágreiningi í landinu. Og sumpart er að baki aðvörun til Framsóknarflokksins um, að fleiri stjórnarkosta geti verið völ.

Minnstar líkur eru á, að áhugi launamannaforingjans Guðmundar J. Guðmundssonar og ýmissa sjálfstæðismanna á “sögulegum sáttum” hinna kraftmiklu afla til hægri og vinstri nái fram að ganga. Þar ber hreinlega of mikið á milli.

Almennt er talað um sjálfstæðis- og framsóknarstjórn, hugsanlega útvíkkaða og snyrta, sem líklegustu niðurstöðuna. En lausu endarnir eru svo margir, að alveg eins getur verið, að um síðir verði í skyndingu eitthvað allt annað ofan á.

Jónas Kristjánsson

DV