Orð standa ekki.

Greinar

Svíar eru sagðir afar óánægðir með siglingar sovézkra kafbáta í sænskri landhelgi. Þeir telja þær sýna fyrirlitningu á hlutleysi Svía. Þeir telja þær einnig sýna, að ekki sé unnt að treysta orðum sovézkra stjórnvalda.

Merkilegast í máli þessu er, að nokkrum Svía eða nokkrum Vesturlandabúa yfirleitt skyldi detta í hug, að sovézk stjórnvöld mundu gera annað hvort eða hvort tveggja – að virða hlutleysi annarra og að virða eigin orð.

Sovétstjórnin telur hlutleysi ríkja vera skref á óhjákvæmilegri þróunarbraut þeirra úr herbúðum andstæðinganna í faðm Sovétríkjanna. Þetta hlutleysi er ranglega kallað “Finnlandisering”, en ætti að heita “Svíþjóðarísering”.

Lygin er einn helsti hornsteinn sovézka stjórnkerfisins. Undirskriftir sovézkra ráðamanna eru ekki marklausar, heldur verri en engar undirskriftir. Sem dæmi um þetta má nefna sovézku stjórnarskrána og Helsinki-samkomulagið.

Með undirskriftum í Helsinki lofuðu sovézk stjórnvöld að virða almenn mannréttindi heima fyrir. Í raun hafa þau síðan hægt og bítandi verið að draga úr mannréttindum, sem eru nú minni en þau voru fyrir samkomulagið.

Þar er jafnvel ofsóttur hinn fámenni hópur manna, sem hafði það eitt til saka unnið að mæla með, að sovézkir ráðamenn virtu sínar eigin undirskriftir í Helsinki. Þessum hópi hefur nú öllum verið komið á bak við lás.

Í stjórnarskrá Sovétríkjanna eru ýmis fögur orð um mannréttindi. Ekkert mark er á þeim tekið frekar en öðrum orðum. Nýjasta viðbótin við svikin eru geðveikrahælin, sem sjálfur Andropov úr leyniþjónustunni kom á fót.

Allir þeir, sem komast til valda í Sovétríkjunum, eru brenndir af klifri sínu upp frumskóg sleikjuskapar og grimmdar. Eðlileg afleiðing þessa er að yfirglæpamaður leyniþjónustunnar skuli vera orðinn framkvæmdastjóri flokksins.

Andropov verður ekki illskárri en Brezhnev, heldur verri. Sovétríkin eru lokað kerfi, þar sem eingöngu fúlmenni komast í hátind valdanna. Þetta mættu Svíar, lúterskir klerkar, íslenzkir hernámsandstæðingar og annað friðsamt fólk hafa í huga.

Einfeldni vestrænna afvopnunarsinna nær hámarki, þegar þeir eru farnir að trúa loforðum kjarnorkuvelda um að beita ekki kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Slík loforð eru bara fyrir auglýsingamarkaðinn.

Þvert á móti er aukin hætta á ferðum, þegar sovézk stjórnvöld segjast ekki muni beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Þau mundu nefnilega ekki beita slíkum vopnum að fyrra bragði, nema einmitt að undangenginni slíkri yfirlýsingu.

Kjarnorkuvopnalaus svæði, hvort sem er á Norðurlöndum eða Atlantshafi, eru marklaus, af því að þau eru einhliða. Sovézk stjórnvöld munu ekki hlífa slíkum svæðum frekar en þau virða nú hlutleysi ríkis á borð við Svíþjóð.

Auk þess munu þau láta skip sín og kafbáta valsa með kjarnorkuvopn um Atlantshafið, hvað sem öllum yfirlýsingum líður. Og lýsi þau sjálf yfir friðhelgi hafsins, er ástæða til að líta á það sem aðdraganda aukins kjarnorkubúnaðar þeirra á hafinu.

“Orð skulu standa” eru hornsteinn viðskipta og mannlegra samskipta á Vesturlöndum. Í helvíti Sovétríkjanna gilda önnur lögmál. Þar hafa stjórnvöld annað og verra að leiðarljósi: “Orð skulu ekki standa”.

Jónas Kristjánsson

DV