Dómsdagur er ekki í nánd.

Greinar

Stjórnmálamenn Íslands hafa espað hver annan upp í þá múgsefjun, að dómsdagur íslenzkra efnahagsmála verði 1. júní. Þá muni hin séríslenzka verðbólga stökkva upp til áður óþekktra hæða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Að vísu er 20% verðbólgustökk há tala. Fyrir skömmu fannst okkur 10% stökk vera há tala, en nú fyndist okkur hún bara notaleg, ef við ættum kost á henni. Tölur eru bara tölur og dómsdagar vilja láta á sér standa.

Ekki er nema hálfur annar áratugur síðan 3% verðbólgustökk þótti svo rosalegt, að erlendir fréttamenn komu til Íslands til að kynna sér, hvernig þjóðin færi að því að lifa af. En þá kom enginn dómsdagur og kemur ekki nú.

Hinir sefjuðu stjórnmálamenn telja sig knúna til að mynda nýja ríkisstjórn á næstu tveimur vikum, svo að hún fái um það bil tveggja vikna tækifæri til að koma í veg fyrir dómsdaginn, sem spámenn efnahagsmála hafa dagsett 1. júní.

Galdralæknar stjórnmálaflokkanna bíða óþreyjufullir með töfralyfin sín. Sumir ætla að stytta vandamálin út á brotastriki. Aðrir ætla að telja þau niður. Enn aðrir vilja banna vandamálin með lögum gegn vísitölum.

Allt eru þetta gagnslausir læknisdómar. Sjúklingi batnar ekki, þótt hitamælar séu bannaðir, taldir niður eða styttir út. Verðbólgan er nefnilega ekki vandamálið sjálft, heldur afleiðing af baráttu þjóðarbúsins við ýmsa sjúkdóma.

Ef ný ríkisstjórn verður mynduð mjög snemma, er hætt við, að hún telji sig hafa tíma til að beita einhverju ofangreindra læknisráða fyrir 1. júní, og magni þannig hina raunverulegu sjúkdóma efnahagslífsins.

Í flestum hinum gagnslausu læknisdómum eru tveir þættir einna hættulegastir. Annar er, að stjórnmálamenn tregðast við að lækka gengi krónunnar. Hinn er, að þeir tregðast við að verðtryggja fjárskuldbindingar.

Afleiðingin er sú, að fólk leggur ekki fyrir og kaupir ekki innlenda vöru í stað erlendrar. Afleiðingin af afleiðingunni er sú, að verðbólgan eykst, skuldasöfnun í útlöndum eykst og galdralæknarnir fá ný tækifæri til að spilla fyrir.

Ísland hefur verið stjórnlaust ríki í 142 mánuði. Okkur munar ekkert um einn eða tvo mánuði í viðbót, sérstaklega þegar fyrirhuguð læknisráð eru líkleg til að gera sjúkdómana enn skæðari. Æðibunugangur er ekki til góðs.

Enginn stjórnmálamaður þorir að segja, að skynsamlegt sé að skrá gengi krónunnar lægra en raunvirði og skrá vexti hærra en raunvirði. Þegar stjórnmál eru á svo lágu stigi, er ódýrast að láta reka á reiðanum.

Þjóðin mun lifa af hækkun verðbólgu úr 10% í 20% á þriggja mánaða tímabili, alveg eins og hún lifði af hækkun hennar úr 3% í 10% á slíku tímabili. Hitt er meira vafamál, hvort hún muni lifa af fyrirhuguð læknisráð galdralæknanna.

Satt er, að þjóðin hefur endurnýjað umboð til stjórnmálaflokkanna að halda áfram að misþyrma þjóðarhag með því að stytta út verðbólguna, telja hana niður eða banna hana hreinlega, allt eftir því hverjir bræða sig saman í stjórn.

Ástæðulaust er að bíða niðurstöðunnar með óþreyju og eftirvæntingu. Stjórnmálamennirnir þurfa tíma til að finna, hvaða samkomulag sé minnst óþægilegt. Ef 1. júní rennur hjá á meðan, mun hann ekki reynast sá dómsdagur, sem spáð hefur verið.

Jónas Kristjánsson

DV