Niður með Framleiðsluráð.

Greinar

Á næstu mánuðum reynir á, hvort Framleiðsluráð landbúnaðarins kemst upp með það á níunda tug tuttugustu aldar að skipuleggja einokun á eggjasölu og umtalsverða hækkun á eggjaverði á vegum Sex manna nefndar.

Samtök neytenda, húsmæðra, bakara og kaupmanna hafa mótmælt ráðagerð Framleiðsluráðs, svo og þeir eggjaframleiðendur, sem hingað til hafa getað selt egg ódýrar en á skráðu viðmiðunarverði hins illræmda ráðs.

“Það er tímaskekkja að ögra hagsmunum neytenda með umræddum einokunaráformum í eggjasölu … Munu Neytendasamtökin ekki sitja aðgerðalaus, heldur berjast gegn slíkum reglum af öllu afli”, segir í einum mótmælunum.

Í sömu mótmælum Neytendasamtakanna segir, að þessi viðbótareinokun þýði, að afnema verði hin áratuga gömlu einokunarlög, því að til þeirra megi rekja mörg vandamálin í framboði, verði og gæðum landbúnaðarafurða.

Sí og æ hefur komið í ljós, að einokunarvara á borð við mjólk stenzt ekki gæðakröfur, meðan aldrei heyrist, að frjáls vara á borð við egg sé ekki í góðu lagi. Í þessu sem öðru sést hinn skýri munur frelsis og einokunar.

Kerfi Framleiðsluráðs teflir fram hagsmunum sumra framleiðenda á kostnað hagsmuna neytenda og skattgreiðenda. Afleiðingin hefur orðið óstjórnleg sóun verðmæta á undanförnum áratugum. Í samanburði er sóunin í Kröflu bara smámunir.

Í framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða ríkir lokað kerfi innflutningsbanns, framleiðslustyrkja, einkasölu, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, sem er svo dýrt, að ekki er til stærri meinsemd í þjóðfélagi okkar.

Frekjan og yfirgangurinn í þrýstihópi Framleiðsluráðs ganga svo langt, að ráðið hyggst færa út kvíarnar, þrátt fyrir gagnrýnina, sem núverandi einokun hefur sætt. Síðar ætlar það að ná undir sig kjúklingum og svínakjöti.

Neytendur og skattgreiðendur eiga að láta eggjaeinokunina verða kornið, sem fyllir mælinn. Markmiðið á ekki aðeins að vera að koma í veg fyrir hina nýju einokun, heldur einnig að brjóta hina gömlu á bak aftur.

Stjórnmálamenn kyrja nú sem ákafast sönginn um, að þjóðin sé að verða fátækari og þurfi að herða sultarólina. Um leið láta þeir viðgangast verðmætabrennslu, sem nemur nokkrum Kröfluverum á hverju einasta ári.

Stjórnmálamenn framseldu á sínum tíma til Framleiðsluráðs vald, sem neytendur og skattgreiðendur höfðu ekki heimilað þeim að framselja. Þetta vald ber stjórnmálamönnum nú að afturkalla með afnámi laga um Framleiðsluráð.

Nú reynir á, hvort stjórnmálamennirnir, sem nú sitja á þingi, meta meira dýrustu hagsmunaklíku landsins eða sameinaða hagsmuni neytenda og skattgreiðenda. Nú reynir líka á, hvort eitthvað er að marka kreppusöng þeirra.

Þjóðin má ekki lengur sætta sig við að láta Framleiðsluráð og stjórnmálaflokka hafa sig að fífli. Hún getur notað eggjahneykslið til að mótmæla því, að lífskjör séu skert, meðan margfalt fleiri fjármunum er sóað í kindur og kýr.

Landsmenn mættu meðal annars fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum næstu vikna og reyna að gera sér grein fyrir, hvort landsfeðurnir hafi einhvern áhuga á að gæta hagsmuna alls þorra þjóðarinnar.

Niður með Framleiðsluráð!

Jónas Kristjánsson.

DV