Plúsar og mínusar.

Greinar

Stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mundu bæði fylgja kostir og gallar, sem menn meta vafalaust á misjafnan hátt. Skiptir þá ekki miklu, hvort Alþýðuflokkur fær að fljóta með, því að hann getur litlu ráðið.

Þar sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa samtals drjúgan meirihluta á alþingi, geta þeir hvenær sem er sagt Alþýðuflokknum að hafa sig burt úr ríkisstjórn, ef hann þykist ekki vera ánægður með gang mála.

Hins vegar eru ákveðin þægindi af að hafa Alþýðuflokkinn með. Það dregur úr samanburði við fyrri stjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem yfirleitt hafa verið óvinsælar. Enn er í minni stjórnin frá 1974 til 1978.

Stundum eru stjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kallaðar helmingaskiptastjórnir vegna mikils bróðernis við að skipta bitlingum og annarri spillingu. Flokkarnir mundu til dæmis una sér vel saman í Framkvæmdastofnun.

Stundum eru þessar stjórnir kallaðar hægri stjórnir vegna lítils áhuga þeirra á vanda lítilmagnans, þegar ætlunin er að telja niður lífskjörin. Enda hafa þær oftast átt í útistöðum við samtök launþega í landinu.

Stundum eru þessar stjórnir kallaðar sterkar stjórnir vegna öflugs þingmeirihluta og hins mikla þjóðarvilja, sem hlýtur að standa þar að baki. Sú er í rauninni forsenda þess, að margir mæla nú með slíkri stjórn.

Stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks mundi strika yfir tvískinnung undanfarinna ára í varnarmálum. Flugstöð yrði reist á Keflavíkurflugvelli, olíugeymar í Helguvík, svo og flugskýli við önnur mannvirki eftir þörfum.

Hún mundi líka semja við Ísal um að strika yfir deilur Hjörleifs og hækka orkuverðið. Jafnframt mundi hún endurvekja stóriðjustefnuna, að vísu í varfærnari mynd en áður, þegar menn töldu orkufrekan iðnað allra meina bót.

Hún mundi halda núverandi kerfi landbúnaðar, sem er að sliga þjóðina og að skerða lífskjör hennar úr hófi fram. Hún mundi líklega meira að segja láta viðgangast, að fyrirhuguð eggjaeinokun nái fram að ganga.

Hún mundi halda áfram að dekra við hugmyndir ýmissa þrýstihópa um að koma sér upp gæluiðnaði, sem yrði bæði reistur og rekinn á kostnað skattborgaranna, – af því að Framsókn vill slíkan iðnað í hvert pláss.

Hún mundi ekki geta stigið tvö mikilvægustu skrefin til efnahagslegrar viðreisnar, – að verðtryggja fjárskuldbindingar til fulls og að skrá gengi krónunnar í lægri kantinn, – af því að Framsókn er andvíg efnahagslegri skynsemi.

Þannig fylgja bæði kostir og gallar stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, eins og raunar fylgja öðrum stjórnarmynztrum, sem nefnd hafa verið undanfarna daga. Kostirnir og gallarnir breytast bara eftir mynztrum.

Þeir, sem leggja mesta áherzlu á varnarmál og stóriðju, gætu fagnað stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þeir, sem vilja draga úr vitlausum atvinnurekstri og koma á réttu gengi og vöxtum, gætu ekki fagnað.

Umfram allt mega menn ekki búast við, að “sterk”, “hægri sinnuð” “helmingaskiptastjórn” mundi leysa efnahagsvandann. Og um leið mega menn ekki heldur reikna með, að eitthvert annað stjórnarmynztur mundi gera það.

Jónas Kristjánsson.

DV