150 daga vinnufriður.

Greinar

Nýja ríkisstjórnin er þegar tekin til starfa með súpu bráðabirgðalaga, sem eru fyrsta skrefið í átt til höfuðmarkmiðs hennar, hjöðnunar verðbólgunnar. Líklegt er og sanngjarnt, að hún hafi um þetta vinnufrið fram á haust.

Stundum er talað um, að ríkisstjórnir þurfi 100 daga frið til að koma sér fyrir. Í þessu tilvíki má búast við, að friðurinn geti í stórum dráttum staðið í 150 daga, – til næsta alþingis og birtingar fjárlagafrumvarps.

Að minnsta kosti verður Svavar Gestsson að hafa hægt um sig og Alþýðubandalagið á næstu vikum. Hann er búinn að reyna að mynda stjórn upp á engar vísitölubætur í júní, sem er snöggtum harðneskjulegra en stjórnin býður.

Í júní verður Svavar í mínus í hinum kunna samanburði um misjöfn svik við samninga. Kjörorðið um samningana í gildi fer því tæpust að sjást í Þjóðviljanum fyrr en á ofanverðu sumri. En svona er að geta ekki verið fullkomlega ábyrgðarlaus.

Raunar er athyglisvert, að Svavar skyldi ganga svona langt í tilraun til stjórnarmyndunar, sem fyrirfram var dauðadæmd. Í tíu daga tilraun Geirs Hallgrímssonar hafði nefnilega þegar komið í ljós, að núverandi stjórnarflokkar næðu saman.

Viðbótartími stjórnarkreppunnar fór sumpart í hinn hefðbundna hringdans formanna og sumpart í tilraunir til að fá Alþýðuflokkinn inn í samstarf Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Að stjórnarkreppan stóð einungis í mánuð sýnir, að vel var á málum haldið. Geir Hallgrímsson hefur þakkað fyrir síðast, er Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn fyrir hann. Nú hefur hann í staðinn myndað stjórn fyrir Steingrím Hermannsson.

Ríkisstjórnin hefur náð fyrsta markmiði sínu – að fæðast í tæka tíð til að setja bráðabirgðalög gegn hinum meinta dómsdegi, 1. júní. Við verðum að bíða og sjá, hvort ferill verðbólgunnar verður eins og stjórnin vonar.

Fleiri atriði skipta starfsfrið ríkisstjórnarinnar máli. Framhald fullrar atvinnu mundi styrkja stöðu hennar. Einnig mundi það hjálpa til, að í ljós kæmi, að heimili hinna verst settu færu ekki að ramba á barmi gjaldþrots.

Almenningsálitið með eða móti ríkisstjórninni mun á næsta vetri að verulegu leyti mótast af þessu þrennu, verðbólgustiginu, atvinnuástandinu og stöðu hinna verst settu. Um allt þetta ríkir nú óvissa.

En ríkisstjórnin verður ekki búin að bíta úr nálinni, þótt hún komist yfir þessa þröskulda. Varnarstríðið vinnst ekki til langs tíma nema með sókn. Og málefnasamningurinn vekur afar litlar vonir á því sviði.

Málefnasamningurinn fjallar að verulegu leyti um ráðgert stríð við vísitölur og um bráðabirgðaaðgerðir, sem eru þættir í því stríði. Hans vegna gæti ríkisstjórnin staðið uppi málefnasnauð eftir svo sem eitt ár.

Langlífi ríkisstjórnarinnar byggist hins vegar á, að hún noti ár vísitölustríðsins til að sannfæra sjálfa sig um, að opna þurfi hagkerfið og leggja niður verðskekkingu af hálfu hins opinbera, ef ná eigi hagvexti á nýjan leik.

En í bili hafa menn fengið nóg af stormasömum stjórnmálum vetrarins. Stjórnin og bráðabirgðalögin eru orðin að veruleika. Sumarið er komið með gúrkutíð. Á stundum munu heyrast púðurskot, en alvöruslagur hefst ekki fyrr en um miðjan október.

Jónas Kristjánsson

DV