0807 Prentmál

0807

Fjölmiðlasaga
Prentmál

Prentbyltingin smitaði út frá sér í tækni og hugmyndum. Þekking varð víðtækari og svigrúm skapaðist fyrir nýjar hugmyndir. Prentbyltingin fól í sér prentun lausra stafa úr alfabeti og arabískra talna á pappír á móðurmáli hvers staðar.

Prentun fjöldaframleiddi þekkingu. Hún leiddi til nýrrar stéttar menningarvita. Menn fóru að geta lesið hratt í hljóði, á miðöldum lásu menn hægt og upphátt. Index komu til sögunnar í bókum. Orðabækur, alfræðibækur og málvísindi komu út.

Prentun hafði áhrif á stjórnmál með því að breiða út fréttir. Hún hafði áhrif á efnahag með því að auka þekkingu og hæfni fólks. Bókasöfn urðu til, árið 1602 í Oxford. Tvær milljónir titla komu út á 18. öld. Sum upplög skiptu tugþúsundum.

Prentun gerði kleifa víðtæka dreifingu frétta. Prentuð dagblöð urðu til. Fréttir höfðu áður dreifst, t.d. handskrifuð fréttabréf frá Feneyjum. En með tilkomu prentunar varð dreifing þeirra hröð og víðtæk, sérstaklega frétta af kaupsýslu og stjórnmálum.

Prentun byggist á pappír, sem var fundinn upp í Kína, sennilega árið 105 e.Kr. Pappír var þá sem síðar einkum unninn úr gömlum tuskum. Frá Kína fór pappír til Samarkand og þaðan fluttist pappírsgerð á 13. öld til Ítalíu, nánast óbreytt.

Prentun heilla síðna hófst í Japan eða Kína. Fyrsta prenthandritið í Japan er frá 770 e.Kr. og í Kína frá 868 e.Kr. Það var svo í Evrópu, að hófst prentun lausra bókstafa, fyrst hjá Gutenberg. Þá þurfti ekki lengur að skera heilar síður í tré.

Prentun lausra bókstafna var svipuð breyting og tilkoma klukkunnar. Innan einnar kynslóðar frá prentverki Gutenberg var tækni og list greinarinnar orðin þroskuð, þar á meðal leturgerð og spássíur. Síðari tíma prentun hefur ekki orðið vandaðri.

Næstum allar helstu leturstungur, sem eru mikið notaðar nú á tímum, eiga uppruna sinn á fyrstu öld prentverksins. Listaletur hvarf í skuggann, en í staðinn kom læsilegt letur, sem sérstaklega var miðað við hraðan og auðveldan lestur.

Aldus Manutius (1449-1515), bókaútgefandi í Feneyjum, fór að prenta bækur í stærra upplagi en áður, í þúsund eintökum. Hann innleiddi prentstunguna “lettera antica”, sem var upphaf nútímaleturs. Við hann var einnig kennt “aldine”, skáletur til fjölbreytni.

Í framhaldi af “lettera antica” komu letur, sem notuð eru enn í dag, svo sem “garamond” og “roman”, sem löngu síðar varð að “times new roman”. Gotneskar stungur frá Þýzkalandi hurfu í samkeppni við þessar latnesku leturstungur.

Einkenni þessara stungna voru skreytingar á stöfum, svokallaðir “serif”. Síðar komu svokölluð “sans serif” letur, sem voru án slíkra skreytinga, minntu á stafi höggna í stein, enda kölluð “steinskrift”. Þeirra þekktust er “helvetica”.

Við vitum enn of lítið um áhrif prentverks á hegðun fólks. Sagnfræðingar hafa lítið sinnt sögu prentverks. Við gerum okkur því ekki grein fyrir hinum mikla mun, sem er á gagnakönnun núna og á miðöldum, þegar index voru ekki til. Vísindi byggjast á prenti.

Tiltölulega stutt er síðan lestur helgarblaða leysti kirkjuferðir af hólmi á sunnudögum. Stutt er síðan leiðarahöfundar leystu predikanir af hólmi. Stutt er síðan heimsfréttirnar fóru að berast okkur viðstöðulaust nótt sem nýtan dag.

Hugmyndir um stöðu einstaklingsins fyrir utan hópinn komu til sögunnar eftir að prentun varð innleidd. Slíkt hefði verið óhugsandi í talmálsþjóðfélagi fyrri alda. Prentun varð hornsteinn prentfrelsis og einnig áróðurs stjórnvalda.

Prentverk og móðurmál voru hornsteinar siðaskipta. Áróðursherferðir beittu prentverki. Kenningar Lúters og önnur skrif hans fengu mikla útbreiðslu. Mótmælendur lögðu áherslu á biblíulestur á móðurmáli og stuðluðu þar með að læsi. Á Íslandi 1750-1800.

Fyrir prentverk önnuðust kaþólska kirkjan, kaupsýslumenn, stjórnvöld og sögumenn markaðstorga fréttaflutning. Fljótlega eftir prentverk hófst póstþjónusta. Útgáfa frétta og upplýsinga með tímabundnu millibili hófst á síðari hluta 16. aldar.

Árið 1607 var prentað vikublað komið í Amsterdam. 1609 voru vikuleg fréttablöð komin til sögunnar í nokkrum bæjum í Þýskalandi. Fyrstu blöð á ensku voru gefin út í Amsterdam árið 1620 og ári síðar hófst prentun dagblaða á Englandi.

Flest þessi fréttablöð birtu einkum erlendar fréttir. Þau færðu fjarlæga atburði nær fólki. Algengt upplag var að lágmarki 400 eintök. Fréttir af innanlandsmálum voru meiri erfiðleikum bundnar vegna tilrauna stjórnvalda til ritskoðunar.

Í baráttu Karls I og enska þingsins varð valdaeyða, sem innleiddi tímabil frjálsra fjölmiðla 1641. Þegar Karl II komst til valda, var frelsið skert að nýju árið 1660 með skráningu fjölmiðla, en skráningin lagðist síðan af 1662. Fyrsta dagblaðið kom út 1702.

Árið 1750 voru fimm rótgróin dagblöð í London, seld af götusölum og sjoppum. Útgáfan var heft af stimpilgjaldi frá 1712 til 1860. Í Hollandi voru blöð nokkuð frjáls á þessum tíma, en í Frakklandi urðu þau ekki frjáls fyrr en í byltingunni.

Fyrstu hugsuðir lýðræðis, Jeremy Bentham, James Mill og John Stuart Mill voru miklir fylgismenn prentfrelsis. Bandaríkin innleiddu algert prentfrelsi í fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar 1787 og Frakkland gerði það með ýmsum lögum 1789-1793.

Eftir hrun frönsku byltingarinnar var bakslag í prentfrelsi fram á miðja nítjándu öld. Eftir það fóru málin að lagast aftur. Undir lok 19. aldar var búið að koma upp prentfrelsi að nýju samkvæmt stjórnarskrám í flestum ríkjum Vestur-Evrópu, 1855 á Íslandi.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988