0813
Fjölmiðlasaga
20. öldin
Núlifandi vesturlandabúar búa við aðstæður, sem forfeður okkar þekktu ekki. Við treystum því, að við getum kynnst heiminum á vegum fréttamiðlanna, ef við kærum okkur um. Menn telja, að fjölmiðlar séu ekki mjög fjarri réttum lýsingum á heiminum.
Árið 1702 reiknuðu Bandaríkjamenn með, að fréttir frá Evrópu væru mánuði á leið yfir Atlantshafið. Lengi vel voru bandarískar fréttir endurskrifaðar upp úr gömlum blöðum frá Englandi og Frakklandi.
Árið 1818 hófust hraðsiglingar póstskipa yfir Atlantshaf. Ritsíminn kom svo árið 1844 og þá urðu fréttablöðin stærstu viðskiptavinir hans. Kapall var lagður undir Atlanshafið 1866 og eftir það bárust fréttir samstundis milli heimsálfanna.
Tribune í New York sendi fréttaritara til Frakklands árið 1870 og síðan einnig til Prússlands. Þá hófust stríðsfréttir nútímans. Fréttamaður New York Tribune spurði Bismarck greifa á vígvellinum, hverjar yrðu kröfur hans í friðarsamningum.
Árið 1892 lýsti Lloyd’s List í London yfir, að það hefði 32 fréttaritara í 28 hafnarborgum. Samkeppnin við hraðann var orðin slík, að um aldamótin 1900 voru fréttir farnar að berast á svipstundu um allan heim.
Fyrstu fréttaritararnir voru póstmeistarar með ritsíma. Þeir fóru ekki úr húsi og létu segja sér fréttir. Síðan komu fljótlega fréttaritarar, sem sjálfir fylgdust með atburðunum og lýstu þeim sem sjónarvottar. Það gerðist fyrst á heimavelli.
Fréttaritarar á heimavelli voru fyrst þekktastir þingfréttaritarar. Þeir fengu 1770 aðgang að breska þinginu. Fjórum árum síðar höfðu sjö dagblöð í London fasta fréttaritara í þinginu. Fyrst máttu þeir ekki skrifa niður og urðu að muna allt.
Nú hefur lengi þótt sjálfsagt, að blaðamenn hafi sæti á þingpöllum, í dómsölum, í skriðdrekum stríðsmanna, yfirleitt hvar sem frétta er að vænta. En það voru mikil tíðindi 1819, er Times skýrði nákvæmlega frá fjöldamorðunum í St.Peter’s Field.
Nú hefur lengi þótt sjálfsagt, að blaðið þitt ábyrgist, að þú munir ekki missa af neinum mikilvægum fréttum. Þú færð allt sem máli skiptir af því, sem gerist á þinginu, þú færð mikilvægustu morðin. Flóðljós fjölmiðlanna lýsa um allt.
Sagan um James Gordon Bennet, sem sjálfur rannsakaði morðið á Ellen Jewett og birti um málið daglegar fréttir í Herald, sem borgarar í New York gleyptu í sig á hverjum degi. Hann birti heilu samtölin við vitni í blaði sínu.
Árið 1870 urðu tímamót í rannsóknablaðamennsku, þegar New York Times kom upp um spillingu í Tammany Hall, meirihluta borgarstjórnar í New York. Blaðið náði í allt bókhald málsins og lagði spilin á borð fyrir lesendur.
1787 segir í 1. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar: “Þingið má ekki setja nein lög um að koma á fót trú eða banna hana, takmarka málfrelsi eða prentfrelsi eða frelsi fólks til að hittast og til að senda stjórnvöldum bænarskjöl.”
Eftir 1848 var almennt farið að taka slík ákvæði upp í stjórnarskrám vestrænna ríkja í Evrópu. Slíkt ákvæði í dönsku stjórnarskránni auðveldaði blaðaútgáfu á Íslandi. Ekki er í þessum stjórnarskrám fjallað um frelsi fyrir ónæði fjölmiðla.
Ef ríkisstjórn ræður útvarpi, getur hún með síbylju og útilokun annarra sjónarmiða ráðið skoðunum fjöldans. Hitler komst að vísu ekki til valda út á útvarp, þar sem óvinir hans réðu. En hann réð ferðinni, þegar hann komst til valda.
Margt fólk gengur með útvarp á sér til að loka sig af fyrir umheiminum, búa til einkasvæði fyrir sig. Þegar sjónvarp tók við, varð útvarp vettvangur smáfrétta af tímanum, veðrinu, umferðinni. Veður hefur lengi verið kjörefni útvarps.
Útvarp er heitur miðill, sjónvarp er kaldur. McCarthy gekk fyrir útvarpi, en fjaraði út, þegar hann fór að birtast í sjónvarpi. Hann var æstur, það gekk í útvarpi, en alls ekki í sjónvarpi. Æst fólk virkar fráhrindandi í sjónvarpi.
Þegar Kennedy og Nixon deildu á ljósvakanum, töldu sjónvarpsáhorfendur, að Kennedy hefði sigrað í umræðunni, en útvarpshlustendur töldu, að Nixon hefði sigrað. Hin skörpu og skilmerkilegu tilsvör Nixons virkuðu gervilega í sjónvarpi.
Hin fræga útsending Orson Welles af Innrásinni frá Mars er dæmi um, hvernig útvarp heltekur fólk og gefur því svigrúm til að geta í eyðurnar. Hitler var dæmi um raunverulega útgáfu af Orson Welles og Innrásinni frá Mars.
Útvarp flutti fólk aftur til tímans fyrir tilkomu ritaðs máls. Útvarp er hreint frumafl fyrir fólk, sem lifir á ættbálkastigi. Það hefur miklu minni áhrif á fólk, sem er skólað í vel læsu umhverfi í stjórnmálum og viðskiptum.
Gutenberg-tæknin var tvær eða þrjár aldir að breyta heiminum. Fólk fór að skipast í þjóðir. Tilkoma útvarps flutti fólk aftur til tímans fyrir Gutenberg. Útvarpið breytti líka dagblöðum, auglýsingum, leiklist og ljóðlist.
Menn hafa ekki tekið nógu vel eftir áhrifamætti útvarps. Það er útvarpið, sem var að baki viðsnúnings frá einstaklingshyggju yfir í ættflokkamennsku á borð við fasisma eða marxisma og aðra samhyggju.
Þegar menn reyna að gera útvarp húsum hæft á Vesturlöndum, finna menn ekki annað ráð en að leggja áherslu á skemmtigildið. Einhvern tíma verður reynt að hemja útvarpið, en hingað til hefur eingöngu verið reynt að hemja dagblöðin.
Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988