Andfélagsleg hegðun.

Greinar

Launþegar, neytendur og skattgreiðendur ættu að trúa sem fæstu af því, sem talsmenn landbúnaðarins halda fram, þegar þeir leggjast í vörnina. Þeir hafa nefnilega hvað eftir annað verið staðnir að ósannindum á undanförnum árum.

Ekki alls fyrir löngu fullyrtu þeir, að mjólkin væri fúl vegna rangrar meðferðar í verzlunum og heimahúsum. Hins vegar kom í ljós, að þetta stafaði af óheimilli forhitun og óheimilli dagstimplun fimm daga fram í tímann.

Forhitunin drepur sýrugerla og hleypir rotnunargerlum á skrið, svo að mjólkin fúlnar í stað þess að súrna. Þetta er gert til að neytendur taki ekki eftir, að mjólkin er stundum orðin tíu daga gömul, þegar hún er drukkin.

Ekki alls fyrir löngu sögðu talsmenn landbúnaðarins, að erlendar kartöflur væru í fyrsta lagi ófáanlegar, í öðru lagi of dýrar, í þriðja lagi afgreiddar með útflutningsgjaldi og í fjórða lagi þaktar kólóradóbjöllum.

Hins vegar kom í ljós, að erlendar kartöflur eru fáanlegar allt árið. Einnig kom í ljós, að danskar kartöflur, sem voru seldar hingað á 1,20 krónur kílóið, voru seldar til Færeyja á 0,85 krónur kílóið. Enginn veit, hvert verðmunurinn rann.

Eini munurinn á kartöflunum var, að þær, sem fóru til Íslands, voru sýktar sveppum, en hinar, sem fóru til Færeyja, voru lausar við sveppi. Talsmenn landbúnaðarins treystu sér ekki til að segja, að sveppirnir væru svona dýrir.

Ennfremur kom í ljós, að ekkert útflutningsgjald er lagt á kartöflur, sem seldar eru til Íslands. Loks kom í ljós, að Grænmetisverzlunin flutti sjálf inn kartöflur frá Mexíkó, einu frægasta svæði kólóradóbjöllunnar.

Ekki alls fyrir löngu héldu talsmenn landbúnaðarins því fram, að þeir væru hættir að fleygja tómötum á haugana. Það höfðu þeir gert til að þurfa ekki að selja þá neytendum á niðursettu verði, enda er þeim fremur illa við neytendur.

Hins vegar kom í ljós, að þeir héldu áfram að fleygja tómötum, en gerðu það í skjóli nætur og mokuðu sagi ofan á, svo að ekki kæmist upp. Þetta varð samt uppvíst og olli töluverðri reiði almennings.

Talsmenn landbúnaðarins fullyrtu þá, að þessir tómatar hefðu verið ofþroskaðir og ónýtir. Einnig þetta reyndist vera ósatt. Það voru hinir beztu tómatar, sem bornir voru á veizluborð fyrir rottur öskuhauganna.

Nú standa talsmenn landbúnaðarins á því fastar en fótunum, að fyrirhuguð einokun á eggjum sé raunar engin einokun og alténd neytendum til hagsbóta. Þessu ættu menn ekki að trúa frekar en öðrum fullyrðingum talsmannanna.

Þetta eru sömu mennirnir og eru að hindra fólk á Reykjavíkursvæðinu í að fá betri jógúrt í betri umbúðum frá Húsavík. Þeir halda því meira að segja fram, að umbúðirnar á Húsavík séu ekki nógu góðar. Það er ósatt eins og annað.

Kerfi landbúnaðarins kemur fram í ýmsu gervi, sem Sölufélag garðyrkjumanna, Grænmetisverzlun ríkisins, Framleiðsluráð landbúnaðarins og Sex manna nefnd, svo að dæmi séu nefnd. Á öllum þessum stöðum er logið eftir þörfum.

Kerfi þetta lítur á launþega, neytendur og skattgreiðendur sem herfang, er misþyrma megi í skjóli innflutningsbanns, einokunar og sjálftektar á verði. Einn mikilvægasti þáttur þessarar andfélagslegu hegðunar er fólginn í að fara með rangt mál.

Jónas Kristjánsson

DV