0823 Sjónvarp 2000

0823

Fjölmiðlasaga
Sjónvarp 2000

Fyrst var mikið um vandaða stjórnmálaþætti í sjónvarpi, en þeir hafa að mestu lagst niður. Hinn gullni tími sjónvarps endaði, þegar upp komu hneyksli vegna umræðuþátta, Hollywood-gildi tóku yfir og kaupsýslusjónarmið urðu alls ráðandi.

Formaður bandaríska sjónvarpseftirlitsins sagði árið 1961, að dagskrárgerð sjónvarps væri “alger eyðimörk”. Opinberu sjónvarpi var þá komið á fót með stuðningi sjóða og einstaklinga. UHF-stöðvum fjölgaði og kapalsjónvarp hófst.

Með kapalsjónvarpinu í Bandaríkjunum kom Fox-keðjan. Hún lagði áherslu á unga fólkið, sem auglýsendur hafa mestan áhuga á. Aðrar keðjur fylgdu á eftir Fox. Mikið hefur fækkað þeim, sem nota aðalefni gömlu keðjanna ABC, CBS og NBC.

Með útbreiðslu kapalsjónvarps og gervihnattasjónvarps hefur aðgengi að rásum margfaldast. Árið 1982 var CNN stofnað til að sjá slíku sjónvarpi fyrir fréttum og fréttatengdu efni allan sólarhringinn.

Nú er sjónvarp í höndum lóðréttra keðja, sem fela í sér kvikmyndaver, kapalkerfi og aðra fjölmiðlun. Hinir fimm stóru eru Time Warner, Viacom, Disney, NBC og Fox. Eldri dagskrárgerð þykir of dýr og keðjurnar leita nýrra leiða til dagskrár.

Met í áhorfi eru öll gömul, frá því á 9. áratugnum eða eldri. Árið 1998 var svo komið, að þrjár gömlu keðjurnar ABC, CBS og NBS höfðu samanlagt tæpan helming áhorfs á mikilvægustu tímum dagsins. Síðan hefur notkun sjónvarps verið sundruð.

Stafrænt sjónvarp er komið á Íslandi og var síðar sett upp í Bandaríkjunum 2007. Myndin er skarpari í stafrænu hágæðasjónvarpi. Tæknibreytingunni fylgir ný tækni við skráningu efnis og geymslu þess, þar á meðal vídeódiskurinn DVD.

Framleiðsla sjónvarpsefnis, sem notað er í Bandaríkjunum og viðskiptalöndum þeirra, er að mestu á vegum hinna fimm stóru. Smærri keðjur og minnkandi hópur óháðra aðila framleiða einnig efni. Í auknum mæli miðast það við 18-34 ára aldur.

Léttar og færanlegar vídeómyndavélar hafa breytt fréttaöflun sjónvarpsstöðva. Efni þeirra færist í auknum mæli yfir á vídeó, sem gerir vinnsluna ódýrari og auðveldari. Stuttar myndir eru núna eingöngu teknar á vídeó.

Víxlverkun er komin í sjónvarp, þegar farsímanotendur greiða atkvæði í Idol eða evrópskri söngvakeppni. Þar sem slík viðbrögð gerast ekki í rauntíma, heldur með biðtíma, er vafasamt að kalla það víxlverkun. Rauntími er þó kominn á BBC.

Á hverju ári eru í hverri keðju settar upp þúsundir hugmynda (concepts). Nokkur hundruð eru þróuð yfir í skriftir (scripts). Af þeim verða nokkrir tugir að sýnishornum (pilots), prófuð á tilraunafólki. Örfár hugmyndir fara alla leið.

Sjónvarpsstöðvar hafa dregið mikið úr fréttum og fréttakostnaði. Einkum hafa verið skornir niður fréttaritarar og rannsóknablaðamennska. Þær reiða sig mest á fréttaefni frá aðildarstöðvunum. CNN er eina keðjan með alþjóðlega yfirsýn.

Staðarfréttir eru vinsælt efni í sjónvarpi. Flestar stöðvar hafa tvær stundir á dag eða meira af slíku efni. Tekjur af auglýsingum við staðarfréttir renna beint til viðkomandi stöðvar. Kostnaður er líka mikill, t.d. vegna rekstrar á þyrlum.

Hagnaður er lítill í keðjusjónvarpi. Miklar greiðslur renna til réttinda á íþróttaleikjum, sem hafa farið stórlega úr böndum, í framleiðslu skemmtiþátta og í ofurgreiðslur til akkerismanna, gamanstjóra á síðkvöldum og frægðarfólks.

Dagskrá stöðvanna miðast við ætlaða samsetningu áhorfendahópsins á hverjum tíma dagsins og við að draga notendur frá öðrum stöðvum á mikilvægum tímasetningum. Að kröfu auglýsenda er mikil áhersla lögð á efni, sem höfðar til ungs fólks.

Sjónvarpsáhorf er orðin gróin venja hjá miklum massa fólks. Flestir horfa bara á sjónvarp til að horfa á sjónvarp, ekki til að velja ákveðna þætti. Þess vegna mega þættir vera leiðinlegir, ef þeir eru ekki miklu leiðinlegri en samkeppnin.

Sjónvarpsstöðvar eiga erfitt með að fóta sig í þessu róti. Dagskrám er breytt frá viku til viku og teknir eru út þættir, sem ekki slá strax í gegn. Sjá má, að skortur er á ábyggilegum upplýsingum um, hvers konar efni fólk vilji horfa á.

Raunar eru allar keðjurnar meira eða minna eins, allar með samskonar efni í sömu röð og með sömu áherslum. Fox hefur prófað að fara aðra leið, hægri harðpólitíska, sem hefur leitt til meiri vinsælda stöðvarinnar.

Í heild má segja, að sjónvarp líði fyrir, að hlutlægni frétta hefur minnkað fyrir áhrif frá kaupsýslugeirum sjónvarps. Stjórnmálaskoðanir, menningarviðhorf og mat á sjónvarpsefni, sem víkur frá því hefðbundna, komast ekki lengur að í sjónvarpi.

Fréttir eru reknar af Nielsen-tölum. Því má búast við, að þær muni í auknum mæli snúast um jákvæðar heimsóknir á barnaspítala heldur en um svæsnar uppljóstranir um framgöngu áhrifaaðila í þjóðfélaginu. Fréttirnar eru að geldast.

Fólk horfir á sjónvarp meðan það er að borða. Það lítur á sjónvarp sem hluta af lífi sínu. Sjónvarp er helsta umræðuefni fólks, þegar það hittist. Eigi að síður getur fólk notað fjarstýringuna, ef það kærir sig um, og þannig hafnað sjónvarpi.

Ný stýritæki sjónvarps, t.d. digital myndlyklar, sem gera fólki kleift að vinda hratt yfir auglýsingar, eru mikil ógnun við efnahag sjónvarpsstöðva. Þegar fólk er farið að ráða því, hvort það sér auglýsingar í sjónvarpi, eru komnir brestir í fjárhagsdæmið.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006