Skaðlegur einstrengingur.

Greinar

Hugmynd ríkisstjórnarinnar um jöfnun húshitunarkostnaðar er ein afleiðingin af einstrengingslegri baráttu hennar gegn verðbólgunni og er um leið gott dæmi um skaðleg áhrif opinberra aðgerða á efnahag þjóðarinnar.

Hitaveita Reykjavíkur sækir reglulega um að fá að hækka gjaldskrána. Þessar beiðnir miða að því, að fyrirtækið geti varið fé til rannsókna til undirbúnings stækkunar og fé til fjárfestingar af eigin rammleik.

Þessar hækkunarbeiðnir eru yfirleitt skornar niður, af því að gjaldskrá Hitaveitunnar hefur töluverð áhrif á vísitölur. Hækkun hennar leiðir til aukinna verðbóta á laun og þar með til aukinnar verðbólgu.

Afleiðingin er sú, að Hitaveitan hefur ekkert fé til undirbúnings nývirkjana og verður að taka erlend lán til að standa undir brýnustu framkvæmdum til að sjá núverandi viðskiptavinum fyrir vatni að vetrarlagi.

Þannig hefur myndast gífurlegur skuldahali í útlöndum. Hann er hliðstæður skuldahala Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja, sem orðinn er til á sama hátt. Allir skuldahalarnir eru afleiðing baráttunnar við verðbólguna.

Um helmingur af skuldum Íslendinga við útlönd er orðinn til á þennan hátt. Vegna verðbólgunnar mega orkufyrirtæki ekki taka sannvirði fyrir orkuna, heldur verða börnin okkar síðar að borga núverandi niðurgreiðslur á orkuverði.

Allir vita nú orðið, að skuldasöfnun í útlöndum er orðin að einu allra hættulegasta meini Íslands. Hún er orðin svo rosaleg, að einungis helmingur af útflutningstekjum okkar nýtist til kaupa á innfluttum nauðsynjum.

Ein hliðaráhrifin enn eru, að vegna Hitaveitunnar og annarra slíkra skuldara er ekki hægt að lækka gengi krónunnar nægilega. Tap Hitaveitunnar á síðustu gengislækkun einni nam meira fé en allri fjárfestingu hennar á þessu ári.

Um leið hefur hinn alltof ódýri hiti frá Hitaveitu Reykjavíkur þau áhrif, að annars staðar á landinu kvartar fólk um aðstöðumun. Það vill ekki borga margfaldan húshitunarkostnað og heimtar, að hann sé jafnaður.

Vandamálið er þó ekki, að hiti víða úti á landi sé of dýr miðað við tilkostnað, heldur er hitinn á Reykjavíkursvæðinu of ódýr, því að umtalsverðum hluta kostnaðarins er velt yfir á börnin okkar með skuldasöfnun í útlöndum.

Eins og aðrar ríkisstjórnir, en í einstrengingslegri mæli, er þessi ríkisstjórn upptekin af verðbólgunni einni saman. Þess vegna hyggst hún jafna húshitunarkostnað niður á við í stað þess að jafna hann upp á við.

Ríkisstjórnin kaus að magna kjaraskerðingu ársins úr 8-9% í hærri, ótilgreinda tölu, sem gæti numið 16-18% og efna þannig til stórfelldra átaka á vinnumarkaði á næstu misserum. Lækkun húshitunarkostnaðar á að vera ein sárabótin.

Nær hefði verið að reyna að skerða kjörin með óbeinum leiðum, svo sem hækkun húshitunarkostnaðar upp í raunvirði, og öðrum hliðstæðum aðgerðum, svo sem lækkun gengis niður í raunvirði og hækkun vaxta upp í raunvirði.

En ríkisstjórnin starir bara á verðbólguna. Slíkur einstrengingur hefur skaðleg áhrif á efnahag þjóðarinnar, svo sem dæmið um Hitaveitu Reykjavíkur og húshitunarkostnaðinn sýnir. Íslendingar mega því búast við hinu versta.

Jónas Kristjánsson.

DV