0825
Fjölmiðlasaga
Internet 2000 II
Vísir var kominn að tölvum nútímans í spunavélum fyrir tveimur öldum. Fyrir einni öld var morse-stafróf ritsímans annað skref í átt til tölva. Fyrsta tölvan var svo smíðuð 1939 í tengslum við hernaðarþarfir heimsstyrjaldarinnar síðari.
Veraldarvefurinn byrjaði 1991, þegar Tim Berners-Lee og fleiri starfsmenn evrópsku kjarnorkurannsóknastöðvarinnar CERN í Genf fundu upp HTML sem eins konar samræmt tungumál, sem gerði alls konar tölvum kleift að tala saman á internetinu.
Mörgum fyrirtækjum hefur gengið vel á netinu. Amazon hefur náð 10% af bóksölu í Bandaríkjunum, eBay er markaðstorg með tilboðum og braski, Google er leitarvél, sem flestir nota til að finna hvað sem er á vefnum. Ýmsum öðrum hefur gengið miður.
Náin framtíð í tölvum er, að þær verði vaxandi hluti af hefðbundnum tækjum, gegni þar sérhæfðu hlutverki. Tölvur eru í sjónvarps- og heimilistækjum, í bílum og íþróttatækjum. Slíkar tölvur eru aðeins hægt að nota í þeirra sérhæfða hlutverki.
Önnur framtíð í tölvum er, að þær nái heildarsýn yfir margvíslega tækni, til dæmis á heimilum fólks, stýri síma og sjónvarpi, tölvum og tónlist. Búist er við, að veraldarvefurinn verði sameiginlegt flutningstæki allrar þessarar tækni.
Netþjónusta býður upp á breiðband og þráðleysi. Bluetooth er hugbúnaður, sem sér um þráðleysi innan heimilis og milli síma og tölvu, og WiFi sér um þráðlaust samband við internetið. “Streaming”, streymi, gerir kleift að spila hljóð og kvikmynd.
Ný tungumál hafa víkkað svið HTML. DHTML stýrir stöðu og hreyfingu í grafík á skjánum. XML gerir forriturum kleift að setja sínar skriftir inn. XHTML gerir kleift að búa til síður, sem líta eins út í margs konar tölvum og skjáum.
Java-skriftir og tappar (“plug-ins”) leysa ýmis smærri vandamál. MPEG2 er tungumál, sem sameinar Apple, Microsoft og RealNetworks í tengingu við diska. Smákökur (“cookies”) er hugbúnaður, sem festir samband þitt við viðskiptavini.
Stöðugar árásir hakkara á einkatölvur hafa leitt til harðari varna gegn ófögnuði. Sumir hafa skipt út í Macintosh tölvur eða Firefox vafra til að losna undan áþján hakkara, sem einkum geta beint geiri sínum að Windows og Explorer.
Framleiðendur hugbúnaðar og rétthafar ýmiss efnis á vefnum reyna að lykla og aflykla búnað sinn og efni til að hindra stuld. Aðrir reyna að brjóta þessa lyklun og veita sér og öðrum ókeypis aðgang að búnaði og efni, sem á að selja.
Flest viðskipti á netinu fara eftir PGP (Pretty Good Privacy), kortaviðskipti á Secure Socket Layer prótókoll. Fá dæmi er um, að þjófar hafi komist í kortanúmer á netinu, þeir ná í þau í gagnabönkum þeirra, sem hafa vöru og þjónustu til sölu.
Raunar er ruglun orðin svo öflug á netinu, að leyniþjónustur eiga erfitt með að aflykla gögn. Með auknum hryðjuverkum hafa aukist kröfur stjórnvalda um aðgang að dulmálum á internetinu, þannig að hið opinbera fái aðgang að lyklum þínum.
Öflugustu vélbúnaðarfyrirtækin eru Dell og Hewlett-Packard í tölvum og Cisco í neti. Microsoft er öflugasta hugbúnaðarfyrirtækið. America Online var eitt sinn öflugasta netfyrirtækið, en má nú muna fífil sinn fegurri. Yahoo og Google eru núna öflug.
Allt milli himins og jarðar er gefið út á netinu, fréttir, bækur, alfræði, kennslubækur, veðurfréttir, leiðarlýsingar, gegnsæi í stjórnsýslu. Skemmtun er mikil á netinu, til dæmis leikir, en hægar hefur gengið að setja þar kvikmyndir og sjónvarp.
Mikið er um leit á netinu. Þar er Google risinn, sem finnur allt. Þar eru spjallrásir, þar sem menn mynda sín eigin þorp, sem spanna heiminn. Þar finna menn skjöl til að hlaða niður. Þar blogga menn og þar stunda menn viðskipti.
Jaðarhópar í samfélaginu hafa myndast á netinu, þvert á landamæri og úthöf. Æ færri fylgjast með því sama og meðalmaðurinn, heldur nota menn þröngmiðlun í auknum mæli. Hefðbundin gildi hafa ekki eins mikla útbreiðslu og áður fyrr.
Sumir telja þetta veita frelsi, aðrir harma samhljóminn, sem áður var. En sé litið á samskiptin í heild á netinu, má sjá, að hefðbundnir miðlar stýra enn öllum þorra samskipta á netinu. Frelsi og einokun tefla áfram skákina.
Umræður um tölvur og internetið snúast að mestu um völd. Menn vilja, að netið sé opið og fjölbreytt, verndi einkalíf, hindri einokun efnahagsrisa, veiti öllum aðgang, og að það sé ekki skattlagt eða því stýrt af gráðugum og valdafíknum ríkisstjórnum.
Aðrir tala um, að herða þurfi aðgerðir gegn klámi á netinu, gegn lyklun upplýsinga á dulmáli, gegn haturstali og óráðshjali, gegn stuldi á verkum, sem eru vernduð einkarétti samkvæmt fjölþjóðlegum sáttmálum.
Fólk notar fjölmiðla og tekur eftir notkun annarra á fjölmiðlum. Fólk væntir afleiðinga af notkun á fjölmiðlum, sem hafa áhrif á notkun þess á fjölmiðlum. Fólk kynnist nýju, styttir sér stundir og er í félagslegu sambandi á vegum fjölmiðla.
Áhrif fjölmiðla felast í breyttri þekkingu, breyttum viðhorfum eða breyttri hegðun. Oft er litið á efni fjölmiðla sem gerandi afl í orsakasamhengi, þar sem áhrifin eru niðurstaða. Einnig er hægt að líta á orsakasamhengið úr hinni áttinni.
Aðferðir rannsókna á áhrifum fjölmiðla felast í skráningu hegðunar, þema eða persóna í miðlum, þótt slíkt geti ekki falið í sér niðurstöður um áhrif þeirra. Einnig er í umhverfi rannsóknastofa reynt að einangra ákveðna þætti, sem geti sýnt áhrif.
Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006