0829
Fjölmiðlasaga
Fjölmiðlafræði 2000
Kapall hófst sem loftnetsþjónusta fyrir dreifbýli 1948. Hún náði inn í úthverfin frá 1972 og hófst í stórborgum upp úr 1980. Ljósleiðarar komu til sögunnar 1977.
Kapalkerfi taka við skilaboðum frá gervihnöttum, míkróbylgjum, útvarpsbylgjum og staðbundnu sjónvarpsefni. Rásirnar eru sameinaðar og fluttar með coaxial kapli til heimahúsa. Afruglarar ná í rásirnar og spila þær í sjónvarpstækinu.
Afruglarar hafa líka það hlutverk að afrugla rásir, sem greiða þarf fyrir. Nú eru afruglarar þannig, að þeir eru forritaðir til að afrugla allt eða hluta eftir ákveðnum greiðslukerfum og geta jafnvel skipulagt greiðslu fyrir stakar myndir.
Sjónvarp er fullt af ofbeldi. Talið er, að börn á forskólaaldri, sem horfi á sjónvarp tvær stundir á dag, sjái 10.000 ofbeldi á hverju ári. Aðeins einn dagskrárliður af hverjum tuttugu hefur innihald, sem er andstætt ofbeldi.
Vídeóleikir draga mun meira en sjónvarp eða veruleiki úr tilfinningu barna fyrir ofbeldi. Tilraunir til að hamla gegn ofbeldi hafa einkum beint geiri sínum að þessum leikjum. Internetið hefur stóraukið aðgengi barna og unglinga að klámi.
Þegar vísað er til rannsókna til stuðnings gagnrýni á fjölmiðla, gagnrýna fjölmiðlarnir rannsóknirnar, skamma foreldra, segja það ekki vera sitt hlutverk að bjarga heiminum, fela sig bak við tjáningarfrelsið.
Fólk les texta fjölmiðla á virkan hátt. Sumir samþykkja þá merkingu, sem höfundurinn átti við. Aðrir nota eigin reynslu og hugmyndir til að finna eigin merkingu úr efninu. Aðrir hafna merkingu höfundarins eða eru henni andvígir.
Félagsleg virkni fjölmiðla felst í, hversu mikið skilaboð þeirra fara saman við samskipti manna. Fjölmiðlar með mikla félagslega virkni henta flóknum, félagslegum verkefnum. Fjölmiðlar með litla virkni, eins og tölvupóstur, henta betur rútínu.
Aðhald stjórnvalda stríðir gegn upplýsingafrelsi. Fulltrúar fjölmiðla efast um gildi rannsókna, sem sýna neikvæð áhrif fjölmiðla og þeir segja vanda þjóðfélagsins liggja dýpra en í fjölmiðlum. Fjölmiðlar hafa leikreglur, sem ógnað er af viðskiptaþrýstingi.
Skoðanakannanir á stórum hópum kanna samhengi notkunar á fjölmiðlum og áhrifum þeirra. Í þjóðfræðilegum athugunum er hegðun fólks skoðuð í leiðinni til að reyna að fá aukna innsýn. Niðurstöður þeirra verða þó varla alhæfðar út í aðra hópa.
Fókushópar hafa mikið verið notaðir til að fá fólk til að fjalla í sínum eigin orðum um fjölmiðla. Þeir fáu, sem taka þátt í þessum hópum, eru þó engan veginn neinir fulltrúar meðaltalsins í þjóðfélaginu. Auk þess er hópdýnamík í fókushópi.
Kenningar um áhrif fjölmiðla hafa verið að breytast. Áður töldu menn fjölmiðla hafa mikil og bein áhrif. Nú er talið, að áhrifin séu minni og í þrepum, þannig að fjölmiðlarnir hafi áhrif á álitsgjafa, sem síðan hafi áhrif á umhverfi sitt.
Kannanir sýna, að fólk getur lært hegðun af því að sjá hana í fjölmiðlum og að skilningur þess á umhverfinu breytist eftir myndum í fjölmiðlum. Kannað er, hvort myndir í fjölmiðlum geti virkjað skyldar hugsanir fólks.
Rannsóknir sýna, að jafnvel stutt áhorf á ofbeldi í sjónvarp getur vakið ofbeldi hjá áhorfendum, einkum hjá ungum börnum. Myndir af kynórum hafa neikvæðari áhrif á karla en konur. Fjöliðlar geta líka staðfest fordóma í kynferði og kynþáttum.
Félagslega jákvæð hegðun er t.d. samstarf og umburðarlyndi. Upplýsingaherferðir miða að slíkri hegðun. Sumar ná árangri og aðrar ekki. Þær takmarkast af öðrum viðhorfum fólks. Herferðir sem blanda skemmtun við jákvæða hegðun virka betur.
Þótt miklu fé sé varið til herferða í viðskiptum og pólitík, eru áhrif þeirra léttvæg, hreyfa við lágu hlutfalli notenda. Þeir verða fyrir mestum áhrifum, sem vita lítið og hafa lítinn áhuga á umræðuefninu.
Blaðalestur og aðild að pólitísku spjalli fer saman við aðild að pólitískum málefnum, en sjónvarpsnotkun gerir það ekki. Neikvæðar sjónvarpsauglýsingar hafa lítil áhrif. Pólitískar auglýsingar geta minnt á nöfn, en hafa annars lítil áhrif.
Pólitískar fréttir, skoðanakannanir, opinber framkoma frambjóðenda, kappræður þeirra, forustugreinar eru atriði, sem hafa áhrif á fylgið, einnig heimsóknir til fólks, en auglýsingar virðast hins vegar ekki hafa mikil áhrif.
Áhrif fólks hvert á annað og val í skynjun fólks dregur úr áhrifum auglýsinga á flesta markhópa. Samt getur lítið hlutfall árangurs falið í sér miklar upphæðir peninga í kaupsýslu eða úrslitaatkvæði í pólitík.
Upplýsingatækni virkar ekki jafnt fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Minnihlutar sitja eftir á breytingatímum. Stafræna gjáin víkkar. Þekkingargjáin leiðir til þess að aðgerðir til að efla aðgengi að fjölmiðlum leiða til víkkaðrar gjár.
Sagan sýnir, að ný samskiptatækni eykur suma þætti samskipta en truflar aðra. Netið gerir sérhvern að nágranna í heimsþorpinu. Dæmin sýna, að slík bönd myndast á netinu. Þau eru hins vegar tæp í samanburði við umgengni í venjulegu þorpi.
Segja má, að samskipti á netinu dragi úr tilfinningu fyrir félagslegri nálægð, sem við finnum fyrir, þegar við höfum samskipti við fólk augliti til auglitis. Samskipti á netinu eru líka mikið notuð af félagslega misþroska haturshópum.
Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006