3% eða 26%

Greinar

Eitt hið ahyglisverðasta við talnaflóð gærdagsins frá Þjóðhagsstofnun er, að kjaraskerðinguna má meta allt frá 3% upp í 26% eftir forsendunum, sem menn gefa sér. Þetta er auðvitað mikið bil, þótt við séum ýmsu slíku vanir.

Alþýðusamband Íslands bendir á hæstu töluna og segir hana vera nokkurn veginn í samræmi við sína útreikninga. Sú tala á að sýna, hversu miklu lægri verður kaupmáttur taxta í júlí-september á þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Lægri talan á hins vegar að sýna, hversu miklu lægri verða ráðstöfunartekjur á mann á þessu ári en þær hefðu orðið, ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu ekki komið til sögunnar, að meðtöldum svokölluðum mildandi aðgerðum.

Fyrir skömmu sagði Þjóðhagsstofnun í þjóðhagsspá, að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi að óbreyttu lækka um 8-9% á þessu ári. Sú spá hefur skyndilega hrokkið upp í 11%, sem er töluvert reikningsstökk á aðeins tveimur mánuðum.

Þau 26%, sem nefnd voru hér að framan, eru kjaraskerðing þriðja ársfjórðungs þessa árs. Ef miðað er við allan seinni helming ársins, fer talan niður í 24%. Sé miðað við allt árið fer talan niður í 20% og miðast enn við kauptaxta.

Síðan metur Þjóðhagsstofnun gildi hinna mildandi aðgerða upp á 4% fyrir almenning og 6% fyrir þá, sem eru á lægstum launum. Loks gerir hún ráð fyrir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækki minna en kaupmáttur taxta.

Ekki er ljóst, hvernig það á að gerast. Sennilega átt við launaskrið, sem felst í, að mikilvægir starfsmenn fái hækkanir umfram kerfi. Eins og áður mun það fyrst og mest gagnast þeim, sem hæst launin hafa fyrir.

En með þessum aðferðum kemur Þjóðhagsstofnun reikningslegri kjaraskerðingu ársins niður í 14%, sem er aðeins þremur prósentum hærra en þau 11%, sem stofnunin segir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði minnkað um að óbreyttu.

Þannig getur fólk valið sér ýmsar prósentur við hæfi. Stjórnarsinnar geta dásamað, að kjaraskerðing af ríkistjórnarinnar hálfu sé ekki nema 3% og stjónrarandsæðingar geta bölsótast yfir, að hún sé 26%. Allir hafa sínar tölur.

Lægri talan vekur að vísu eina spurningu: Ef 3% er rétt, til hvers var þá allt bramboltið? Var ekki meiningin að skerða lífskjörin, svo að þjóðin hætti að lifa um efni fram? Borgar sig að setja allt á hvolf út af 3% í viðbót?

Ef skerðing bráðabirgðalaganna er ekki nema 3%, hefði áreiðanlega verið betra að skerða kjörin með hliðaráðstöfunum, svo sem hækkun orkuverðs upp í raunvirði, hækkun vaxta upp í raunvirði og lækkun gengis niður í raunvirði.

Slík kjaraskerðing hefði lagfært verðkerfið í landinu, án þess að um leið væri efnt til stóksotlegra átaka á vinnumarkaði. Hún hefði runnið betur niður hjá launafólki og umboðsmönnum þess í kjarasamningum.

Hærri talan vekur svo aðra spruningu: Hvernig á fólk að lifa síðari hluta ársins á 24% lægri kaupmætti kauptaxta en það hafði síðari hluta ársins í fyrra? Hvaða 24% af rekstri sínum á láglaunafólk að skera niður?

Þess vegna er óhætt að ráðleggja láglaunafólki nú þegar að skera niður útgjöld eftir fremsta megni og reyna jafnvel að breyta lausaeignum á borð við bíla í handbært fé til að greiða taprekstur heimilanna á næstu mánuðum.Jónas Kristjánsson

DV