0834 Fagmenn & amatörar

0834

Árið 2006
Fagmenn og amatörar
Nieman Report,
Goodbye Gutenberg, 2006
Tom Bettag, Rebecca MacKinnon og Ethan Zucherman

Tom Bettag:
Blaðamenn kunna að hafa haldið að leggja þurfi til hliðar gamlar skólabókarreglur til að taka tillit til nýs veruleika, en þessum nýja veruleika fylgir ekki neitt nýtt siðferði.

Vefnum fylgir flóð upplýsinga, en því fylgir trúnaðarbrestur. Vefurinn er frábær uppspretta slúðurs, orðróms, samsæriskenninga og skáldaðra örsagna. Þar er fullt af myndum af fellibylnum Katrínu, en þær hafa bara þann galla, að þær eru alls ekki af Katrínu.

Traust er í háu verðgildi núna, af því að svo fáu er hægt að treysta. Tom Brokaw, Peter Jennings og Dan Rather höfðu áratuga feril í blaðamennsku að baki. Þannig afla blaðamenn trausts. Þremenningunum var treyst. Hver treystir núna persónum í sjónvarpi?

Vont er, að allt verði að söluvöru og að engum sé að treysta. Verra er, ef notendur nýrra miðla sætta sig við þetta. Ef þeir telja eðlilegt, að “props” frá auglýsendum fylli sjónvarpsþætti, t.d. kókflöskur. Ef fólk ypptir öxlum í stað þess að rífa kjaft.

Fólk þarf að vita, hvert það á að snúa sér á vefnum, ef það vill treysta upplýsingum. Það leitar að vefsvæðum, þar sem frétta er aflað án annarlegra sjónarmiða. Þar sem eru raunverulegar, ekta fréttir.

Áður fyrr sögðu blaðamenn, að frétt sé það, sem blaðamenn segja vera frétt. Af hverju eigum við að fá að setja samfélaginu forskrift? Ekki erum við klárari en aðrir. Hvar er fræðileg staðfesting þess, að frétt sé frétt.

Sjónvarpsstöðvar runnu inn í risafyrirtæki í öðrum greinum. Nýir eigendur töldu blaðamenn vera upptekna af gæðum, sem hefðu enga þýðingu fyrir áhorfendur. Síðan sáu þeir, að hægt var að nota fréttir borgara án aðstoðar blaðamanna sem milliliða.

Fréttir urðu að því, sem hægt er að senda beint frá. Aðalatriðið var að vera fyrstur. Minna máli skiptir með hvað maður er fyrstur. Kallað er eftir “birgjum innihalds”. Hvaða innihalds? Hvaða innihalds sem er. Fréttir eru það, sem fyllir pípur fjölmiðilsins.

Þess vegna er engin furða, þótt fólk láti sér fátt um fjölmiðla finnast. Blaðamönnum líður eins og þeir hafi glatað tilgangi. Risinn er efi um meiningu, tilgang frétta. Fjölmiðla rekur í átt til skoðana. Infotainment og upphrópanir hafa vaxið út úr jafnvægi við fréttir.

Breytingunni fylgir engin siðfræði. Við höfum afsalað okkur ábyrgð. En blaðamenn eru ekki frægðarfólk og ekki kaupsýslufólk. Þeir eru hins vegar mikilvægur þáttur lýðræðisins. Gamla blaðamennskan var kannski hrokafull, en hún mátti vera það.

Rebecca MacKinnon og Ethan Zucherman :
Samtökin Global Voices draga saman áhugaverða þræði samtals og frétta úr hávaða bloggsins.

Bloggarar finna fljótt merkilegt blogg, senda krækjur til vina og búa til net. Þannig komast þessi blogg á leitarvélar. Blaðamenn lesa slík blogg fljótt og hafa samband við bloggarann til að fá meiri upplýsingar. Þannig virkar bloggið sem upplýsingamiðill.

Þrátt fyrir ótta sumra ritstjóra, eru bloggarar ekki að reyna að draga fjöldann frá fréttamiðlum. Mest er þetta fólk, sem skrifar, talar eða myndar til að deila lífi sínu með vinum og fjölskyldu. Stundum lenda slíkir aðilar í þungamiðju óvæntra atburða, t.d. fellibyls.

Stundum verða bloggarar að sérfræðingum á afmörkuðu sviði og verða að heimildum annarra, þar á meðal hefðbundinna fjölmiðla. Sumum þeirra finnst ekki þægilegt að lenda í slíkri aðstöðu.

Sumir bloggarar verða brýr milli menningarheima, til dæmis Salam Pax, sem sagði umheiminum frá ástandinu í Írak. Slíkir bloggarar ögra oft fréttum, sem koma frá fréttaþjónustum og fréttariturum og nýtast sem önnur rödd til viðbótar hefðbundnum fréttum.

Bloggið er freistandi heimild fyrir blaðamenn. En það er ögrandi að finna áreiðanlegt blogg. Blaðamenn velta oft fyrir sér, hvar gullmolarnir séu í sorpinu. Global Voices dregur saman áhugaverða þræði samtals og frétta úr hávaða bloggsins.

Global Voices beinir athyglinni að bloggi utan Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Tíu ritstjórar í hlutastarfi, allt virtir bloggarar, velja áhugavert blogg og stýra hópi 60 bloggara. Sjö fjöltyngdir bloggarar þýða efni á ensku. Allt þetta efni er til frjálsra afnota.

Ástæða þessa starfs er, að við teljum, að of fáir Vesturlandabúar leggi hart að sér við að hlusta á fréttir frá þróunarlöndunum. Með lokun erlendra útibúa kemur mestur hluti frétta þróunarlanda frá löndum, þar sem Vesturlönd eru flækt inn í hermál.

Bloggarar okkar eru ekki að reyna að leysa hefðbundna miðla af hólmi. Reuters er orðinn fjármögnunaraðili Global Voices. Skúbbfréttir á Reuters hafa krækjur, sem bjóða lesendum að skoða, hvað bloggarar segja um fréttir blaðamanna fyrirtækisins.

Þegar Global Voices þróast, sjáum við koma í ljós nýtt hagkerfi fjölmiðla, þar sem blaðamenn, bloggarar og höfundar vefmiðla borgaranna starfa saman á jákvæðan og hagkvæman hátt. Blaðamenn þurfa nú að taka blogg þriðja heimsins til greina.

Stefnuskrá Global Voices
* Við trúum á málfrelsi.
* Við reynum að virkja alla, sem tala vilja.
* Með nýrri tækni þarf ekki að stýra því, sem sagt er.
* Við reynum að reisa brýr yfir gjár milli fólks.

* Við trúum á mátt beins sambands.
* Við reynum að finna sameiginleg áhugamál og markmið og reynum að flagga þeim.
* Við erum raddir heimsins.

Sjá nánar: Nieman Report, Goodbye Gutenberg, 2006
Tom Bettag, Rebecca MacKinnon og Ethan Zucherman