0837 Veljum ný orð

0837

Árið 2006
Veljum ný orð
Nieman Report,
Goodbye Gutenberg, 2006
Craig Cox, Eric Blom, Ellen Foley, Dean Miller, Judy Miller

Craig Cox :
Að finna nýtt fólk til að segja sögur.
Þegar við reynum að efla lýðræði leiðir það ekki endilega til meiri eða betri frétta. Að minnsta kosti ekki enn.

Blaðið hafði samband við konu, sem sat stöðugt í réttarsal og bloggaði. Það fékk að birta bloggið í blaðinu. Slíkt efni þarf að umgangast með varúð vegna ýmissa takmarkana þess. En það flytur um leið meira knýjandi lesefni inn í blaðið.

Blaðamennska almennra borgara hefur aukist í fjölmiðlum. Þegar við reynum þannig að efla lýðræði, leiðir það ekki endilega til meiri eða betri frétta. Að minnsta kosti ekki enn. Við reynum því að koma á föstum viðskiptum við reynda bloggara.

Ég hef lagt mikla vinnu í samskipti við bloggara, sem eru fullir af hugsjón og vilja um leið taka leiðsögn. En fæstir þeirra hafa úthald til langs tíma. Blaðamennska er líka fullt starf, ekki frístundavinna. Margir bloggarar eiga fullt í fangi.

Flestir borgarar í blaðamennsku hjá okkur leggja áherslu á álitsgjöf, prófíla og fundi hjá nefndum og ráðum borgarinnar. Allt er þetta efni, sem ekki kallar á fjölda heimilda. Samanlagt þýðir þetta, að aðild fólks að blaðinu er minni en við væntum.

Hægt er að senda slíka blaðamenn á sex vikna námskeið. Við þurfum líka að fara út í hverfin og skýra málið út fyrir fólki, sem lítur á fjölmiðla sem risavaxna valdshyggjuvél. Oft er skynsamlegt að flokka framlag fólks undir álit, ekki fréttir.

Eric Blom:
Vefurinn matar dagblaðið.
Við leggjum áherslu á gagnvirkni, einstaklinga og veraldarvefinn.

Við reynum að búa til brú milli vefsins og blaðsins. Við leggjum áherslu á gagnvirkni, einstaklinga og veraldarvefinn. Við vildum búa til samtal. Við vildum búa til blöndu blaðamennsku borgaranna annars vegar og blaðamennsku fagmanna hins vegar.

Með einum eða öðrum hætti eru það lesendur, sem hafa hugmyndir að flestum sögum á vefnum. Vefstjórinn birtir dálk í blaðinu um það, sem er að gerast á vefsvæðinu. Við segjum í blaðinu frá vinsælustu sögunum á vefnum. Allt kostar þetta mikla vinnu.

Fókushópar segja okkur, að ungir lesendur vilja meiri flæði í efni en aldraðir og vilja geta tekið þátt í þessu flæði.

Ellen Foley:
Lesendum boðin aðild að ferli ritstjórnar.
Lesendur, sem greiða kerfisbundið atkvæði eru hlynntir mikilvægum sögum.

Fjölmiðill þarf að gefa eftir stjórn á vefnum til að ná stjórn á lífi sínu. Ég reyni að viðurkenna atriði, sem ég ræð ekki við, hafa hugrekki til að breyta því, sem ég ræð við, og visku til að greina þar á milli. Það síðasta er erfiðast.

Við höfum ekki tíma til að bíða eftir, að atvinnugreinin lagi hrunið viðskiptamynstur. Hugrakkir blaðamenn verða að taka það, sem við vitum nú þegar, og koma því í gang á vefnum. Meðan viðskiptahliðin reynir að finna nýtt viðskiptamynstur.

Foley hefur unnið fyrir sjö dagblöð. Sums staðar hafa ritstjórar sagt skýrt, að þeir muni ekki starfa með vefnum, aðallega af hræðslu við minni lestur og af hræðslu við, að hefðbundin blaðamennska á prenti muni líða undir lok.

Við þurfum að finna leiðir til að búa til ódýr tæki og ódýra hæfni. Við prófuðum að láta lesendur á vefnum greiða atkvæði um, hvaða fréttir þeir vildu helst sjá á forsíðunni daginn eftir. Lesendur hafa tekið við sér. En við fáum lítinn stuðning viðskiptahliðar.

Næstum allar sögur af prenti fara á vefinn. Við reynum að rugga bátnum, því að starf okkar, lífeyrissjóður og heilsugæslufé byggist á, að nýjar leiðir finnist. Við tökum áhættu, prófum nýjar leiðir.

Dean Miller:
Siðaskráin nær til veraldarvefsins.
Siðaskráin gefur lesendum hugmyndir og orðaval til að nota í gagnrýni á blaðamennsku okkar. Það er aðferð til að greina sundur alvöru gagnrýnendur og einfalda hatursmenn.

Flestar siðaskrár eru ekki uppfærðar og stundum ekki finnanlegar. Við settum hana því á vefinn. Lögmaður okkar veinar og stéttarfélag blaðamanna veinar. Að öðru leyti er það í lagi. Borgararnir munu ekki fara í stríð við blaðið.

Þegar dagblað rýfur siðaskrá sína, mun leiðrétting á góðum stað koma að sama gagni og skaðanum nam, ef ekki betur. Við fundum enga neikvæða hlið á þessu. Siðaskráin gefur lesendum hugmyndir og orðaval til að nota í gagnrýni á blaðamennsku okkar.

Birting siðaskrár er aðferð til að greina sundur alvöru gagnrýnendur og einfalda hatursmenn. Mikilvægast er, að það hvetur til marktæks samtals milli blaðamanna og samfélags.

Judy Miller: Ritstuldur fékk nýtt nafn á vefnum.
Nemendur í blaðamennsku sáu, að hálum tíma fylgir hált orðaval. Bloggari les grein, breytir nokkrum orðum, og birtir sem sína eigin. Hvað ætli margir geri slíkt án þess að upp komist?
Endurnýting þarf ekki að vera þjófnaður. Hugtakið er hins vegar misnotað af útilegumönnum í villtu vestri vefsins. Þeim finnst í lagi að grípa efni annarra og setja það í eigið blogg. Fyrir mér er það ritstuldur.

Nemendur mínir skildu þetta, þegar grein þeirra í News21 var tekin upp í heilu lagi á Buzzle.com. Þar var sagt, að greinin væri unnin þar á ritstjórn. Buzzle sagði þetta ekki ritstuld, heldur “endurvinnslu” og “annars stigs heimild”. Hugtök eru hál.