Skömmtunarspilling á flótta.

Greinar

Spillingin hefur orðið að víkja í fyrsta skipti um áratuga skeið við úthlutun lóða hjá Reykjavíkurborg. Boðnar hafa verið fleiri sérbýlislóðir í Grafarvogi en lysthafendur treysta sér til að taka, 978 boðnar og 910 þegnar.

Hingað til hefur úthlutun lóða verið eins konar gjöf borgarinnar til þeirra, sem náðarinnar fengu að njóta. Lóðirnar hafa síðan gengið kaupum og sölum undir borði. Margir hafa hagnazt vel á úthlutuninni.

Dæmi eru um, að yfirverð lóða í Fossvogi hafi komizt upp fyrir 200.000 krónur. Sá var hagnaður þeirra, er fengu úthlutað þar lóðum og seldu réttinn síðan öðrum, sem ekki voru jafn lánsamir, en vildu byggja.

Formlega séð er ekki heimill slíkur markaður á lóðum borgarinnar. En löng reynsla sýnir, að ókleift er að hafa hemil á honum. Skjöl um viðskiptin koma ekki í ljós fyrr en löngu seinna og þá í formi sölu á húsi í byggingu.

Á sínum tíma fólst í skömmtuninni pólitísk spilling. Þeir, sem voru í náðinni hjá meirihluta borgarstjórnar, áttu auðveldara með að fá lóðir en aðrir. Þetta var ljótur blettur á orðstír hægri borgarstjórna fyrri ára.

Vinstri borgarstjórnin breytti þessu í sjálfvirka punktagjöf, sem tók pólitíkina út úr spillingunni og setti fáránleikann í staðinn. Menn urðu nánast að sanna, að þeir hefðu ekki ráð á að byggja til að fá að byggja!

Fyrir bragðið jókst mjög undirborðssala á lóðarétti í Reykjavík. Menn sóttu ekki um til að byggja, heldur til að ná sér í fríar 200.000 krónur í krafti punktafjölda. Skömmtunin hélzt og þar með spillingin líka.

Vandinn er nefnilega, að sérhverri skömmtun fylgir óhjákvæmilega spilling, hvernig svo sem reynt er að skipuleggja hana. Skömmtun stríðir gegn gamalkunnu lögmáli framboðs og eftirspurnar, sem vinstri menn skilja illa.

Reykjavíkurborg hefur tvær leiðir til að ná nauðsynlegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lóðum til að útrýma svartamarkaði í sölu lóðaréttinda. Annars vegar er hægt að fjölga lóðum og hins vegar hækka þær í verði.

Hvort tveggja var gert, þegar lóðirnar í Grafarvogi voru boðnar. Það hefur leitt til hins frábæra árangurs, að allir geta fengið þar lóðir, sem vilja, og án þess að þurfa að kaupa réttinn undir borði á svörtum markaði.

Hitt er svo líka rétt, að þessi úthlutun er ekki endanlegur sigur á lóðaspillingu. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort hinn nýi, hægri meirihluti í borgarstjórn getur líka boðið upp á markaðsjafnvægi í öðrum tegundum lóða.

Lóðirnar í Grafarvogi voru fyrst og fremst ætlaðar fremur stórum sérbýlishúsum, sem auðvitað eru ofviða öllum þorra manna, ekki sízt á tímabili samdráttar í lífskjörum. Þessar lóðir eru bara hluti dæmisins.

Í skipulagi Reykjavíkur þarf að leggja mikla áherzlu á millistig blokkalóða og stórra sérbýlislóða. Millistigið felst einkum í lóðum undir lítil og einföld sérbýlishús fyrir venjulegt fólk, eins konar Smáíbúðahverfi nútímans.

Ef nýja meirihlutanum tekst að koma á jafnvægi í framboði og eftirspurn á öllum tegundum íbúðarhúsalóða, einnig blokkalóða og lóða fyrir lítil sérbýlishús, eru það markverð og ánægjuleg tímamót í undanhaldi spillingar.

Jónas Kristjánsson

DV