Snjöll peðsfórn.

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra leit í síðustu viku yfir skákborð landbúnaðarkerfisins og sá ýmsar hættur leynast í taflinu. Eins og góðum skákmanni sæmir létti hann á stöðunni með því að fórna peði, svo að einokunarkerfið mætti standa.

Þegar Jón komst til valda, hafði einokunarkerfi landbúnaðarins nýlega rofið langt þrátefli og blásið til sóknar á tveimur stöðum í senn. Annars vegar átti að koma upp einokun á eggjum og hins vegar efla svæðiseinokun á jógúrt.

Athyglisvert var, að í umræðum um þetta mál tók enginn stjórnmálaflokkur upp hanzkann fyrir neytendur, hvorki í jógúrtinni né eggjunum, – ekki frekar en í öðrum tilraunum einokunarkerfis landbúnaðarins til að níðast á neytendum.

Eggjaeinokunin heitir úthlutun heildsöluleyfa. Hún miðar að samdrætti verksmiðjubúskapar í þágu heimilisbúskapar í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Þetta á að venju að gera á kostnað neytenda, – í mynd hækkaðs eggjaverðs.

Svæðiseinokunin á jógúrtsölu átti að leggja seljanda þá skyldu á herðar að koma í veg fyrir, að kaupendur færu með jógúrt út fyrir einokunarsvæðið, – með því að neita að selja slíkum kaupmönnum jógúrtina.

Hvort tveggja olli töluverðri reiði neytenda og efldi þá til dáða í vörninni. Einkum áttu menn erfitt með að kyngja hliðstæðunni við Hólmfast á Brunnastöðum, sem hýddur var fyrir að selja þrettán fiska utan einokunarsvæðisins.

Neytendur vildu ekki láta hýða Harald Gíslason, mjólkurbússtjóra á Húsavík, fyrir að leyfa jógúrtsölu til Hagkaups, sem flutti hana suður yfir heiðar og seldi þar á lægra verði en einokunarkaupmaður svæðisins, Mjólkursamsalan.

Í þessu máli eiga neytendur erfitt með að kyngja því, að við dreifingu landbúnaðarafurða sé árið 1983 beitt sömu svæðiseinokuninni og danska einokunarverzlunin beitti árið 1698, fyrir tæplega þrjúhundruð árum.

Um leið mættu menn muna, að jógúrt er aðeins lítill þáttur búvörusölunnar. Hún komst í sviðsljósið, af því að hún er ódýrari á Húsavík en í Reykjavík. Ef svo væri ekki, hefði svæðiseinokunin ekki vakið jafnmikla athygli.

Öll verzlun með hefðbundnar landbúnaðarafurðir sauðfjár og nautgripa er ófrjáls eins og öll verzlun yfirleitt var fyrir þremur öldum. Sérhver framleiðandi hefur einkarétt á þeim neytendum, sem teljast innan hans svæðis.

Þetta týnist í skákinni, þegar verðið er hið sama alls staðar. Þá taka menn hvorki eftir svæðiseinokuninni, né eftir því, að hún er aðeins hluti einokunarinnar sjálfar, innflutningsbannsins á hliðstæðum afurðum.

Með innflutningsbanni er komið í veg fyrir, að neytendur hafi til samanburðar ódýrari afurðir frá útlöndum, þaðan sem til dæmis er hægt að fá smjör, er kostar aðeins einn tíunda hluta af því, sem það kostar hér í einokuninni.

Þannig er nauðsynlegt, að neytendur átti sig á, að hin afturkallaða svæðiseinokun á jógúrt var bara hluti svæðiseinokunar landbúnaðarafurða, sem svo aftur á móti er ekki nema hluti alls einokunardæmis landbúnaðarins.

Þetta veit Jón Helgason. Sem góður skákmaður stöðvaði hann umsvifalaust sókn jógúrteinokunarinnar. Hann fórnaði því peði í von um, að neytendur legðust aftur í dvala og gleymdu afganginum af allri einokuninni.

Jónas Kristjánsson

DV