Léttum á ríkinu.

Greinar

Þegar ríkisfyrirtæki verða seld, er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra, sem hingað til hafa notið fyrirtækjanna, ýmist sem meðeigendur í þeim, starfsfólk þeirra eða sveitarfélögin, þar sem þau starfa.

Bezt gerist þetta með því að hvetja meðeigendur, starfsfólk og sveitarfélög til að gerast hluthafar og taka fulla ábyrgð á rekstrinum. Hvatning gæti til dæmis fólgizt í að bjóða afborgunarkjör á hlutabréfum.

Að þessari tillitssemi fullnægðri á ekkert að vera því til fyrirstöðu, að ríkið geti losað sig við margvíslegan rekstur, sem ekki er auðsjáanlega í verkahring þess, svo sem Albert Guðmundsson fjármálaráðherra hefur lagt til.

Tæpast er lengur ágreiningur um, að ríkisrekstur hefur tilhneigingu til að vera óhagkvæmari en annar rekstur. Það stafar einfaldlega af því, að meira er í húfi fyrir stjórnendur og starfsfólk einkafyrirtækja en ríkisfyrirtækja.

Ótal dæmi eru til um þennan samanburð. Hér nægir að minna á, að íslenzk og erlend reynsla bendir til, að sorphirða verði að minnsta kosti helmingi ódýrari við, að einkafyrirtækjum sé gefinn kostur á að bjóða í reksturinn.

Beinast liggur við, að ríkið selji hlutabréf sín í atvinnufyrirtækjum um allt land, svo sem lagmetisiðjum, raftækjaverksmiðju, skipaútgerð, skipasmíðastöð, flugfélagi og olíumalarfyrirtæki, svo að nokkur kunnustu dæmin séu nefnd.

Þótt ríkið hafi á sínum tíma ýmist stuðlað að stofnun þessara fyrirtækja út á hugsjón byggðastefnu eða hlaupið síðar undir bagga, þegar þau hafa rambað á barmi gjaldþrots, má ekki líta á þau sem eilífðar-hvítvoðunga.

Eftir nokkurra ára þáttöku hlýtur að vera eðlilegt, að ríkið geti endurheimt fjármagn sitt, þótt ekki sé nema til að geta notað það til að stuðla að nýjum fyrirtækjum, sem hugsanlega eru ofviða einstaklingum einum saman.

En ríkið verður einnig að gæta sín á þeirri braut. Svo virðist sem ríkið stefni að þáttöku í ýmsum vafasömum iðnaðarævintýrum, sem eiga eftir að vera ríkissjóði og þar með skattgreiðendum allt of þung í skauti.

Um leið og ríkið losar sig við hlutafé í grónum fyrirtækjum, er ekki síður mikilvægt að koma í veg fyrir, að það verji enn meira fé til að koma á fót rekstri, sem ekki stendur undir sér og hækkar þar á ofan vöruverð í landinu.

Svo eru líka heilu fyrirtækin, sem ríkið á sjálft og þarf að losa sig við. Hvaða erindi eiga til dæmis vélsmiðja, ferðaskrifstofa, bókaútgáfa, síldarverksmiðjur, graskögglaverksmiðjur og ýmis verktakastarfsemi í ríkisrekstrinum?

Við vitum af reynslu rafvæðingar og vegagerðar, að yfirleitt er ódýrara að bjóða framkvæmdir út en að láta ríkið hafa þær sjálft með höndum. Sama er að segja um ýmsa þjónustu ríkis og sveitarfélaga, eins og sést af dæminu um sorphirðu hér að ofan.

Af nógu er að taka, áður en menn byrja að deila um, hvort selja eigi áfengisverzlunina, skólana eða sjúkrahúsin. Miklu augljósari eru hin nærtæku dæmi Landssmiðjunnar, Ferðaskrifstofu ríkisins og Síldarverksmiðja ríkisins.

Hugmyndin er ekki að leggja slíka starfsemi niður, heldur að losa ríkið við áhyggjur af henni og gefa stjórnendum, starfsfólki, sveitarfélögum og öðrum lysthafendum tækifæri til að spreyta sig á eigin ábyrgð.

Jónas Kristjánsson.

DV