Vilmundur Gylfason.

Greinar

Vilmundur Gylfason alþingismaður hafði markað djúp spor í stjórnmálasögu landsins, þegar hann féll frá langt fyrir aldur fram hinn 19. júní síðastliðinn – eftir aðeins tíu ára starfsævi, þar af aðeins fimm ár sem þingmaður.

Stundum er sagt, að stjórnmál gangi í ættir á Íslandi. Vilmundur var einn þeirra, sem fæddist inn í þjóðmál. Faðir hans og báðir afar voru innst í hringiðu stjórnmálabaráttu og þjóðmálaumræðu þessarar aldar.

Föðurafi Vilmundur var Þorsteinn Gíslason ritstjóri og móðurafi Vilmundur Jónsson landlæknir, báðir þjóðkunnir fyrir störf sín og þáttöku í landsmálum. Faðir hans er Gylfi Þ. Gíslason, einn merkasti stjórnmálamaður landsins.

Þá var Vilmundur kvæntur dóttur Bjarna Benediktssonar, sem var einn allra merkasti stjórnmálamaður aldarinnar. Þannig lifði Vilmundur og hrærðist í þjóðmálum, var í senn fæddur inn í þau og tengdur þeim – í bókstaflegri merkingu.

Vilmundur fæddist 7. ágúst 1948, sonur hjónanna Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lagði síðan stund á háskólanám í sagnfræði.

B.A. prófi lauk hann frá háskólanum í Manchester árið 1971 og M.A. prófi frá háskólanum í Exeter árið 1973. Sama ár varð hann kennari í sagnfræði við Menntaskólann í Reykjavík og gegndi því starfi unz hann var kjörinn á þing árið 1978.

Vilmundur lét til sín taka á mörgum sviðum. Hann var kunnur greinahöfundur, sjónvarpsmaður og útvarpsfréttamaður, ritstjóri Alþýðublaðsins og Nýs lands, hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins og höfundur tveggja ljóðabóka.

Hann var þegar orðinn landskunnur, er hann hellti sér út í kosningabaráttuna árið 1978, tæplega þrítugur að aldri. Þá bauð hann sig fram fyrir Alþýðuflokkinn, sem vann frægan sigur í þeim kosningum.

Óhætt mun vera að fullyrða, að Vilmundur átti, að öðrum ólöstuðum, manna mestan þátt í sigrinum. Honum fylgdi inn í stjórnmálin nýr og ferskur andi, sem mikill fjöldi kjósenda kunni vel að meta.

Í Alþýðuflokknum hlaut Vilmundur ekki þann frama, sem eðlilegur hefði mátt teljast. Hann varð þó einn af ráðherrum flokksins í minnihlutastjórn Benedikts Gröndal, sem sat skamma hríð um áramótin 1979-1980.

Vilmundur sagði skilið við þingflokk Alþýðuflokksins í desember 1982 og stofnaði síðan Bandalag jafnaðarmanna í janúar á þessu ári. Hinn nýi flokkur vann strax það afrek að ná fjórum mönnum inn á þing í vor.

Margir hafa vafalaust kosið Bandalagið vegna stefnunnar og frumbjóðendanna. En þyngst á metunum var þó persóna Vilmundar sjálf. Um allt land, líka þar sem hann var ekki í framboði, sögðust menn vera að kjósa Vilmund.

Bandalag jafnaðarmanna á nú um sárt að binda, þegar fallinn er frá hinn mikli persónuleiki, sem var kjölfesta þess og árar. En missirinn er um leið þjóðarinnar allrar, því að Vilmundur var jákvætt þjóðmálaafl.

Sárastur er harmur vina og ættingja Vilmundar. Sérstakar samúðarkveðjur vill DV flytja konu hans, Valgerði Bjarnadóttur, og tveimur börnum þeirra hjóna. Missir okkar allra er mikill, en þeirra er missirinn mestur.

Jónas Kristjánsson.

DV