Þynning í Madrid.

Greinar

Rangt væri af fulltrúum Vesturlanda á 35 ríkja Evrópufriðarráðstefnunni í Madrid að fallast á óbreyttar málamiðlunartillögur hlutlausu ríkjanna um mannréttindi. Þær eru bitlausar og þjóna óbeint hagsmunum Sovétríkjanna.

Heimsins bezti samningur um mannréttindi er í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Orðalag hennar hefur ekki verið endurbætt og verður ekki endurbætt. Það var ekki endurbætt í Helsinki árið 1975 og verður ekki endurbætt í Madrid árið 1983.

Fulltrúar Vesturlanda ættu að gera meira af því að nudda fulltrúum Sovétríkjanna upp úr stöðugum, ósvífnum, augljósum og upp á síðkastið vaxandi brotum ráðamanna þeirra á mannréttindaákvæðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Slíkt væri meira virði en að taka þátt í undirritun samninga, sem kenndir eru við Helsinki, Belgrað, Madrid og Ottawa og fjalla um þynntar útgáfur af stofnskrá Sameinuðu þjóðanna – í von um, að við þynntari útgáfur verði staðið.

Reynslan af undirritun Brezhnevs í Helsinki árið 1975 er afar slæm. Eftir hana fóru ráðamenn Sovétríkjanna að auka mannréttindabrot sín, þvert ofan í skýr ákvæði samkomulagsins. Þeir tóku aldrei hið minnsta mark á þeim.

Í ljósi reynslunnar tókst á framhaldsfundinum í Belgrað árið 1978 að koma fram sérstökum ákvæðum um, að ekki skyldu ofsóttir þeir hópar, sem fylgjast með, að mannréttindaákvæði Helsinki-samkomulagsins séu ekki brotin.

Eftir að hafa undirritað þetta viðbótarsamkomulag sneru ráðamenn Sovétríkjanna sér einmitt að því að ofsækja og uppræta hópa, sem höfðu það eitt að markmiði að mæla með því, að staðið væri við Helsinki.

Þannig sýnir reynslan, að ráðamenn Sovétríkjanna láta sig ekki muna um að brjóta sérstaklega það, sem þeir undirrita, jafnvel fremur en það, sem þeir undirrita ekki. Svo krumpuð er skoðun þeirra á lífinu og heiminum.

Tillögur Svíþjóðar, Sviss og sjö annarra hlutlausra ríkja á yfirstandandi fundi í Madrid eru að flestu leyti þynnri en samkomulagið í Helsinki, sem aftur á móti var mun þynnra en ákvæði stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Brott eru fallin ákvæðin um rétt fólks til að fara í verkfall, um bann við ofsóknum gegn eftirlitshópum Helsinni-samkomulags og um bann við gerræðislegri brottvísun fréttamanna, svo að nefnd séu nokkur dæmi.

Sovétríkin hafa fallizt á þessar tillögur, enda fela þær í sér, að á Evrópufriðarráðstefnu eftir Evrópufriðarráðstefnu þynnast sífellt samingarnir um mannréttindi í álfunni. Smám saman fá ráðamenn Sovétríkjanna sitt fram.

Í stað þess að benda stíft á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eru fulltrúar Vesturlanda smám saman að láta friðarvilja sinn ýta sér út í að samþykkja óbeint með undirskriftum svívirðileg svik ráðamanna Sovétríkjanna við mannréttindi.

Ef fulltrúar Vesturlanda fallast á hinar aumlegu friðartillögur hlutlausu ríkjanna, kalla þeir þar á ofan yfir sig og okkur enn eina marklausa Evrópufriðarráðstefnu, í Ottawa, þar sem sérstaklega verður fjallað um mannréttindi.

Í sérhvert skiptið ganga ólánsríkin hlutlausu á milli og ráða úrslitum um orðalag, sem verður sífellt þynnra og fjarlægara stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Þannig vinnur rangsnúinn friðarvilji hægt og örugglega gegn mannréttindum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV