Tregt stríð við tregðuna.

Greinar

Flestir ráðherrarnir hafa með almennum orðum tekið nokkuð vel tillögum Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra um sölu á umsvifum, sem nú eru í ríkisrekstri. Þetta kom fram í viðtölum, sein birtust í DV á laugardaginn.

Einna ákveðnastur var flokksbróðir Alberts, Matthías Bjarnason, samgöngu- og tryggingaráðherra, sem sagði meðal annars: “Ég er mjög hlynntur sölu á fyrirtækjum og stofnunum ríkisins og breytingum á núverandi rekstri þeirra.”

Matthías sagði einnig: “Mér finnst vel koma til greina útboð af ýmsu tagi, til dæmis mætti bjóða út verkþætti í heilbrigðiskerfinu.” Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra benti einnig á útboð ýmissar sérfræðiþjónustu.

Flestir ráðherrarnir höfðu þó fyrirvara á stuðningi við málið. Þeir sögðu, að hvert mál þyrfti að skoða sérstaklega. Ekki mætti rasa um ráð fram eða vera með “skyndiupphrópanir”, eins og Halldór Ásgrímsson orðaði það.

Ekki er víst, að góður vilji margra ráðherra nái langt, þegar embættismennirnir leggjast í vörnina. Hinum síðarnefndu er af kerfisástæðum illa við, að hróflað sé við umsvifum ríkisins, og vildu raunar fremur fá þau aukin.

Sumir athafnamenn í hópi embættismanna hafa þó tekið vel í tillögurnar. Þar má nefna Guðmund Einarsson, forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, og Davíð Á. Gunnarsson, forstjóra Ríkisspítalanna. En þeir eru undantekningin.

Hætt er við, að ráðherrar lúti tregðulögmáli embættismanna, sumir vegna skorts á reynslu og hörku og aðrir til að liðka samstarfið í ráðuneytunum. Á mörgu á eftir að ganga áður en sala á umsvifum kemst til framkvæmda.

Taka má Landssmiðjuna sem dæmi. Þar eru upphaflegar forsendur ríkisrekstrar fyrir löngu fallnar úr gildi. Verkefni smiðjunnar eru hliðstæð verkefnum margra annarra málmsmiðja og innflutningsfyrirtækja á sama, opna markaðnum.

Landssmiðjan hefur oft verið tekin sem augljóst dæmi um rekstur, sem ætti ekki að koma ríkinu við. Henni ætti að breyta í hlutafélag og gefa starfsfólki forgang að hlutabréfum með hóflegum afborganaskilmálum.

Samt segir Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra: “Það verður að sýna mikla varkárni, ef fara á að gerbylta rekstri einstakra fyrirtækja, sem veita fjölda manns atvinnu.” Hvað verður þá sagt um síður augljós söludæmi?

Þá hefur Þjóðviljinn reynt með æsingaviðtölum að gera starfsfólk Landssmiðjunnar andvígt losun fyrirtækisins frá ríkisgeiranum. Slíkt getur ekki talizt góður grundvöllur fyrir sölu hlutabréfa til þessa sama starfsliðs.

Ef ekki reynist unnt að ná fram svo augljósri endurbót, sem felst í að losa ríkið við ábyrgð á Landssmiðjunni og koma henni á herðar annarra, sem hagsmuna hafa að gæta, svo sem starfsfólks, er ekki von á góðu á öðrum sviðum.

Nítján af fimmtíu dæmum Alberts um hugsanlega sölu ríkisreksturs teljast til iðnaðarsviðs Sverris Hermannssonar. Viðbrögð Sverris út af Landssmiðjunni benda ekki til, að hann hyggist taka til óspilltra málanna.

Meira þarf en góðan vilja einstakra ráðherra, ef markverður árangur á að nást í hreinsun ríkisrekstrarins. Ef þeir ætla að sigrast á tregðulögmáli kerfisins, verða þeir að sýna markvissa festu og hörku.

Jónas Kristjánsson.

DV