Dulbúið atvinnuleysi.

Greinar

Tvær eru helztar forsendur þess, að ríkið á orkuver landsins, ýmist eitt sér eða með sveitarfélögum. Önnur er sú, að virkjanir kosta mikla peninga, og hin, að orkuöflun er oft talin ein af ýmissi nauðsynjaþjónustu hins opinbera.

Síðari forsendan gildir ekki í stóriðju. Það er einungis hinn mikli stofnkostnaður, sem veldur því, að ríkið er nánast eini innlendi aðilinn, sem hefur fengizt við stóriðju, ýmist eitt sér eða í samlögum við útlenda aðila.

Á síðustu árum hefur gætt tilhneigingar til að færa niður stærðarmörk verkefna, þar sem leitað er þáttöku ríkisins. Menn vilja, að ríkið borgi fyrir sig steinullarver, sykurver, graskögglaver og önnur vafasöm ver.

Þetta er hættuleg braut. Opinber gjafmildi leiðir hæglega til, að stofnað er til rekstrar af ónógu tilefni. Og síðan er hið opinbera látið kosta tapið með beinum og óbeinum fyrirgreiðslum, svo sem tollum og innflutningshöftum.

Ríkið hefur smám saman orðið aðaleigandi Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þar og raunar víðar eru smíðuð skip, sem ekki verður hægt að borga. Það er auðvitað ríkið, sem ábyrgist, að skipasmíðastöðvarnar fái greitt.

Í rauninni er málsaðild ríkisins stuðningur við atvinnu á Akureyri. Einnig mætti orða þetta sem þátttöku í að dulbúa atvinnuleysið á Akureyri á kostnað skattgreiðenda. Þjóðfélagið ræður við smávegis af slíku, en ekki mikið.

Þannig er vaxin þáttaka ríkisins í atvinnurekstri um allt land. Sigló og Þormóður rammi eru að hluta dulbúið atvinnuleysi á Siglufirði. Rafha og Norðurstjarnan eru að hluta dulbúið atvinnuleysi í Hafnarfirði og Þörungavinnslan á Vestfjörðum.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við hinn skipulega og sjálfvirka ríkisrekstur á dulbúnu atvinnuleysi í hinum hefðbundnu búgreinum kindakjöts og mjólkurafurða, er kostar þjóðina sem svarar nokkrum Kröfluverum á ári.

Áratugum saman hefur aukizt þessi sókn í auð skattgreiðenda í garði hins opinbera. Vaxandi hluti atvinnulífsins hefur lagzt við hlið opinberrar þjónustu á herðar hins hluta atvinnulífsins, sem heldur uppi öllu bákninu.

Samt eru þarfirnar í opinberri þjónustu á borð við tryggingar og heilsugæzlu og skólahald svo miklar, að óráðlegt er að bæta þar við ómagahópinn umtalsverðum hluta efnahagslífsins, þar sem verðmætin ættu að spretta upp.

Við getum sagt, að hlutverk efnahagslífsins sé að búa til verðmæti og að hlutverk opinberrar þjónustu sé að nota þau. Óskynsamlegt er að auka þann þátt efnahagslífsins, sem er dulbúið atvinnuleysi, raunveruleg byrði.

Stuðningur ríkisins við sveitalíf, smábyggðir og margvíslega óskhyggju í strjálbýli og þéttbýli getur hugsanlega dregið úr tölum í atvinnuleysisskrám. En hann kemur líka í veg fyrir hagkvæmustu nýtingu vits og orku þjóðarinnar.

Hefðu menn til dæmis ekki byrjað fyrr á fiskeldi og loðdýrarækt, ef minna af opinberu fé hefði verið notað til að styðja starfsemi, sem er lítið annað en dulbúið atvinuleysi? Hefðum við þá ekki meiri reynslu af arðbærum nýjungum?

Þegar nú er fjallað um að draga úr umsvifum hins opinbera í efnahagslífinu, er heppilegt að beina skurðarhnífnum sérstaklega að þeim opinbera stuðningi við atvinnuskort, sem felst í dulbúnu atvinnuleysi.

Jónas Kristjánsson.

DV