Ósigur í Madrid.

Greinar

Sendiherrar Vesturlanda hafa beðið enn einn ósigurinn fyrir Sovétríkjunum. Eftir þriggja ára þras á Evrópufriðarráðstefnunni í Madrid hafa þeir fallizt á samkomulag, sem magnar mannréttindabrot í Austur-Evrópu.

Í þrjú ár hafa fulltrúar 35 ríkja þjarkað um, hvort Sovétstjórninni beri að standa við loforð, sem Brezhnev undirritaði í Helsinki árið 1975. Niðurstaðan er plagg, þar sem ekki er minnzt á vaxandi mannréttindabrot.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort verkföll eigi rétt á sér, til dæmis í Póllandi, er ekki orð um þau í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar segir aðeins, að menn skuli hafa rétt á að vera í verkalýðsfélögum.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn skuli vera frjálsir fyrir herlögum, til dæmis í Póllandi, er ekki orð um þau í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar með hafa Vesturlönd samþykkt réttmæti herlaganna í Póllandi.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn megi hafa með sér félag til að fylgjast með, hvort staðið sé við undirskriftirnar frá því í Helsinki, til dæmis í Sovétríkjunum, er ekki orð um það í yfirlýsingunni frá Madrid.

Eftir þriggja úra deilur um, hvort fjölskyldur megi sameinast og hvort fólk megi í því skyni til dæmis flytjast frá Sovétríkjunum, er ekki orð um slíkt í yfirlýsingunni frá Madrid. Þar með er hin austræna svívirða réttlætt.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort menn megi ótruflað hlusta á útvarp frá útlöndum, til dæmis í Sovétríkjunum, svo sem greinilega er skráð í Helsinki-samkomulaginu, er ekki orð um það í yfirlýsingunni frá Madrid.

Eftir þriggja ára deilur um, hvort fréttamenn skuli hafa óhindrað ferðafrelsi til að afla sér upplýsinga, til dæmis í Sovétríkjunum, svo sem segir í Helsinkisamningnum, er ekki orð um slíkt í yfirlýsingunni frá Madrid.

Í löng átta ár hefur Sovétstjórnin lagt sérstaka áherzlu á að brjóta einmitt ákvæðin, sem Brezhnev undirritaði í Helsinki árið 1975. Hún gengur harður en áður fram í að halda fjölskyldum sundruðum, bara til að sýna vald sitt.

Erlendar útvarpssendingar eru núna meira truflaðar en var fyrir samninginn í Helsinki. Og sérstök áherzla hefur verið lögð á að hundelta þá menn, sem í Sovétríkjunum hafa mælt með því, að Helsinki-samningurinn skyldi haldinn.

Svo standa vestrænir sendiherrar upp frá þriggja ára samningaborði í Madrid með ekki neitt í höndunum, alls ekki neitt. Með mannréttindaþögninni í yfirlýsingunni frá Madrid er Sovétstjórninni gefið grænt ljós.

Betra hefði verið að skrifa ekki undir neitt en að skrifa undir smánarplaggið frá Madrid. Raunar hafði verið betra að skrifa ekki einu sinni undir Helsinki-samninginn, svo hraksmánarleg reynsla sem er af honum.

Bezt væri að gera ekki annað á fundum með sovézkum sendiherrum en að þylja orðrétta mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem er bezta yfirlýsingin af því tagi og meira að segja undirrituð af sovétstjórninni.

Til að bæta gráu ofan á svart hafa hinir vestrænu sendiherrar í Madrid fallizt á framhaldsfund í Stokkhólmi á næsta ári, þar sem sendiherrar Sovétríkjanna eiga að fá sérstakt tækifæri til að tjá sína frábæru friðarást, samanber Afganistan.

Jónas Kristjánsson

DV